12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4108 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Út af þeim orðum, sem virðulegur forseti lét falla áðan, vil ég taka það sérstaklega fram að ég hef þurft á því að halda nokkrum sinnum í vetur, bæði hjá þessum ágæta forseta og öðrum, að fá að tala hér utan dagskrár og hef aldrei mætt öðru en fyllsta skilningi af þeirra hálfu. Ég skil það ósköp vel og það er eðlilegt að nú á síðustu dögum þingsins óski forsetar eftir því við þm. að þeir reyni að takmarka umr. utan dagskrár, og ég skal reyna að verða við því eftir því sem mér er framast unnt, því ég tel að þessi afstaða forseta sé skiljanleg. Ég mun reyna að fara eins fáum orðum um þetta mál og ég mögulega get.

Þá kemur fyrst að afgreiðslu frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins, og ég tek það sérstaklega fram að í því skyni er ég að beina óskum til hæstv. forseta og hæstv. dómsmrh. um að þeir veiti atfylgi sitt til þess að mál af þessu tagi fáist afgr. á þessu þingi. Ég vil taka það fram í fyrsta lagi að umsagnir eru að vísu margar og mismunandi um þetta frv., en þær hafa borist fyrir talsverðum tíma. Þegar ljóst var að hv. þm. Ellert B. Schram, formaður allshn., mundi ekki vera tiltækur til að halda fund í n. vegna þess að hann var fjarri þingstörfum, þá komu aðrir nm. í hv. allshn. að máli við mig og spurðu hvort ég mundi þá vera fús til þess að reyna að fylgja málinu án þess að hv. formaður n. væri viðstaddur, og ég kvað það sjálfsagt þó að ekki til þess kæmi.

Til þess að reyna að hraða afgreiðslu þessa máls var sú ákvörðun tekin af hv. formanni n. að láta ljósrita allar þær umsagnir, sem borist höfðu, og senda öðrum nm. þessar umsagnir. Þær umsagnir voru tiltækar fyrir s.l. helgi, talsvert fyrir þá helgi, um miðja s.l. viku, og þá ákvað formaður allshn. að taka málið fyrir kl. 10 á föstudag s.l., eins og ég sagði frá í gær. Þá taldi ég að ætti að afgr. þetta mál og var fyrir mitt leyti tilbúin til þess. Hins vegar brá svo við, að á fimmtudag veiktist ég og bað um veikindaleyfi hér í hv. d., sendi boð um það hingað með þeim hætti sem vani er til og fékk það leyfi. Ég vil leyfa mér að spyrja forseta að því hvort hægt sé að atyrða þm., eins og mér skildist að hér væri gert, fyrir að mæta ekki á nefndarfundi þegar hann hefur fengið leyfi hæstv. forseta til þess að vera fjarverandi frá þingstörfum vegna veikinda. Er það þá þinglegt að ráðast á hann úr ræðustól hér í þingi fyrir að hafa ekki mætt á nefndarfundi?

Ég tek það fram að ég er enn tilbúinn til þess að afgr. málið um rannsóknarlögreglu ríkisins. Ég er enn tilbúinn til þess, treysti mér vel til þess að gera það og er búinn að gera upp hug minn hvað afstöðu varðar til þeirra athugasemda sem fram hafa komið. En aðeins til þess að sýna það að lokum hvaða háttur hefur verið hafður á afgreiðslu þessara mála, til þess að nefna dæmi um það sem ég nefndi ekki í gær, þá vil ég geta þess að á fundi allshn., þeim fyrsta sem haldinn var eftir þennan tíma, sem var á mánudaginn eða í gær, þá skýrði formaður n, frá því að á föstudagsfundinum hafi verið samþ.afgr. ekki úr n. þáltill. mína um rannsókn sakamála sem málgagn hæstv. forsrh. tók undir í leiðara í gær. Þó er ekki að finna eitt aukatekið orð í bókun þess fundar um að sú till. hafi svo mikið sem verið tekin á dagskrá, og á fundi allshn. í gær lét annar nm., hv. þm. Svava Jakobsdóttir, sem var við á föstudagsfundinum, bóka mótmæli við því að þáltill. mín um rannsókn sakamála hafi verið afgr. með fáránlegum hætti hjá nefndinni.

Ég er ekki að kvarta yfir því að allshn. hafi ekki afgr. ýmis mál varðandi dómsmál á þessum vetri, en ég er að kvarta yfir því að allshn. skuli ekki geta komið frá sér málefnum sem varða rannsókn sakamála, þeim fjölmörgu till. sem til hennar hefur verið beint á þessum vetri, m.a. frá hæstv. dómsmrh. Ég vil enn fremur ítreka það, að þegar liggur frammi skýlaus ósk frá hæstv. ráðh., sem verður að taka sem ósk frá ríkisstj., um að mál eins og frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins verði afgr. úr n. og hv. stjórnarsinnar í n. standa gegn því, en ég, stjórnarandstæðingur, vil allt gera til þess að það sé unnt að ljúka þessum málum, þá er einkennilega að staðið. Og ég er ansi hræddur um að fleirum en mér þyki það undarlegt, eins og mál standa nú í íslensku þjóðfélagi varðandi rannsókn sakamála, að þá ætli þingið að heykjast á því að afgr. frá sér þau mál sem bæði einstakir þm. hafa til allshn. þessarar d. beint og eins hæstv. dómsmrh. og eru að allra áliti mjög mikilvæg fyrir þær breytingar sem þarf að gera til þess að auðvelda gang slíkra rannsókna og hraða þeim.

Ég ætla ekki að syndga frekar upp á náðina með því að tala hér lengur utan dagskrár, en vænti þess að ég hafi ekki farið langt fram yfir þann tíma sem mér hefur verið ætlaður.