12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4115 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

Umræður utan dagskrár

Gunnlaugur Finnsson:

Virðulegi forseti. Ég skal hafa örfá orð um þetta. Það hafa komið hér fram deildar meiningar um það hvort till. um hröðun á rannsóknum, till. Sighvats Björgvinssonar hafi verið afgr. eða ekki afgr. úr n., og þar sem ég er skrifari n. vildi ég gera grein fyrir því að ég taldi þessa till. ekki hafa verið tekna til meðferðar formlega á þessum fundi. Þegar við ræddum um það hvort við kæmumst í gegnum 30 bls. af umsögnum frá ýmsum aðilum á þeim dögum, sem eftir eru af þinginu, og töldum að við hefðum tæplega möguleika á að vinna úr þeim svo sem vert væri og skylt einni n., þá barst í tal, að ég taldi utan dagskrár, því það er stundum talað utan dagskrár í n. líka, hvort till. Sighvats Björgvinssonar o.fl. yrði afgr. Þar kom fram það álit að þar sem þessi till. væri verulegt fjárhagsatriði hafi n. reynt að afgr. ekki slík mál nema þau yrðu tekin rækilega til athugunar hjá ríkisstj. og til athugunar hvort hægt væri á sama ári að fjármagna slíkar aðgerðir. Þetta sjónarmið kom fram hjá nefndarform. áðan og ég vil staðfesta það. Hins vegar tel ég að það mál hafi ekki endanlega fengið afgreiðslu þá.

Ég vil aðeins bæta því við að Alþ. er ásakað fyrir að taka ekki ákvarðanir, heldur láta embættismenn taka ákvarðanir fyrir sig. Það er ákaflega mikið matsatriði hvort og hve mikið á að senda út til umsagnar og hversu mikil vinna er lögð í það að vinna úr umsögnum og hvað græðist á þeim og hvað græðist á viðtölum við einstaka embættismenn og formenn þeirra n. sem hafa samið frv. sem lögð eru fram. Ég hef sjálfur verið í vetur að fjalla í annarri n. um frv. sem var samið af óvenju fjölmennri n. Það var sent út nokkuð víða og það kom í ljós að í umsögnum komu fram sjónarmið sem bentu á veilur eða galla í viðkomandi frv., og það verður eflaust til þess að það verður betur úr garði gert þegar það verður sent úr n. en það ella hefði orðið.

Ég vil lýsa því yfir að ég er því mjög fylgjandi að hægt verði að vinna að þessum málum sem lengst. Ég tel ekki höfuðatriði hvort það verður gert nú fyrir þingslit eða strax á haustdögum, en þá verður líka að vera mótuð stefna af hálfu ríkisstj. um það hvort og hversu mikið aukið fjármagn fer til þessara mála. Og mér finnst sem fjvn.manni, sem hefur staðið að því að fækka starfsmönnum, sem heyra undir dómsmrn., á þessu ári, að ég get ekki staðið jafnframt að till. um að það sé ótakmarkað hversu margir starfsmenn verði ráðnir aftur.