12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., en vil aðeins taka það fram vegna fsp. síðasta ræðumanns að á landhelgisnefndarfundi á morgun verður auðvitað rætt um samninga eða mögulegar viðræður við þær þjóðir er hann spurði sérstaklega um, norðmenn, færeyinga og belga. Þessar þjóðir hafa allar óskað eftir viðræðum. Viðræður hafa farið fram við belga einu sinni og þeim verður lokið í tengslum við aðrar viðræður sem fram hafa farið, við breta og vestur-þjóðverja. Við norðmenn og færeyinga hafa ekki farið fram beinar samningaviðræður, en auðvitað hefur verið samband haft við þessar þjóðir og þær við okkur. Ég skal ekki efnislega tjá mig um niðurstöðu í þeim efnum sem ekki er endanlega fengin, en það verður auðvitað lagt kapp á að þessum viðræðum öllum verði lokið sem allra fyrst, þannig að úrslit fáist í þessum málum og við vitum að þessu leyti betur hvar við stöndum.