12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3453)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Eyjólfur K. Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. með fyrirvara og tel mér skylt að gera í örfáum orðum grein fyrir því hvers vegna ég rita undir með fyrirvara.

Ég verð að segja það eins og það er, að þegar ég sá frv. fyrst fullbúíð s.l. mánudag, í fyrradag, eftir að hafa verið erlendis um nokkurra vikna skeið, sá það í hv. fjh - og viðskn, þá varð ég fyrir vonbrigðum. Ég hafði satt að segja ætlað að fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um endurskoðun á þessum lögum mundi þýða eitthvað annað og meira en það sem nú hefur séð dagsins ljós. Ég hafði gert mér vonir um að við þessa endurskoðun yrði reynt að samræma störf Framkvæmdastofnunar ríkisins, Seðlabanka, hagdeilda bankanna og raunar þau störf, sem mörg hver eru unnin í fjmrn., mun betur en gert hefur verið, og ég hafði gert mér vonir um að við þá endurskoðun yrði unnt að fækka því fjölmenna starfsliði sem að öllu þessu vinnur, því að fyrir tiltölulega fáum árum unnu miklu færri menn að þessum störfum og gerðu það, held ég, alveg eins vel og sá fjöldi sem við þetta er nú.

Í meginatriðum tel ég þó frv. vera til bóta frá þeirri löggjöf, sem gildandi er, og mun því fylgja því við lokaatkvgr., en áskil mér allan rétt til að styðja brtt. ef svo verkast vill. En meginatriðið er það, að ég er ekki ánægður með málið eins og það er nú og vona að framhald verði á endurskoðun á þessum málum, því ég man það t.d., að þegar fé atvinnumálanefndar var úthlutað á árunum 1968 og 1969, þá var það álíka fjármagn og nú er til ráðstöfunar í Byggðasjóði, og ég hygg að tveir ágætismenn hafi unnið það verk með einni skrifstofustúlku. Það voru þeir Jónas Haralz og Kristinn Zimsen. Ég held að það sé alveg öruggt mál að það megi mjög fækka í þessum stofnunum, sem ég nefndi, og samræma miklu betur störfin en gert er og einfalda þetta allt í sniðum og jafnvel að sumar af þessum áætlunum, sem enginn maður les, mættu missa sig.