12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3457)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þegar til umr. var hér á Alþ. haustið 1971 frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, þá hygg ég að allir hv. þm. muni eftir þeim hamagangi sem uppi var hafður af hálfu þm. Sjálfstfl. gegn frv., gegn stofnuninni, og þeir töldu að með slíku væri verið að setja á stofn pólitískt bákn sem mundi valda alls konar spillingu í kerfinu, fjármunaspillingu, svo að ekki sé meira sagt. Aðalstórskotaliðsforingjar Sjálfstfl. í þessum umr. voru þeir nafnar, núv. hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh., auk hinnar sunnlensku kempu, hv. 1. þm. Suðurl., sem fyrir tæpum tveim árum gekk brosandi inn um dyr stofnunarinnar sem formaður stjórnar hennar og hefur setið þar, að því er virðist mjög ánægður, síðan án nokkurra breytinga. Þetta er í meginatriðum og sem fæstum orðum það sem gerðist haustið 1971 og það sem gerst hefur síðan og sýnir hvernig menn í raun og veru breytast við að komast í valdaaðstöðu eins og þm. Sjálfstfl. hafa nú komist í og setið í um tæplega tveggja ára skeið.

Það frv., sem hér er nú til umr., er fóstur núv. stjórnarflokka eftir stanslausa tveggja ára baráttu í þeim efnum að koma fram með einhvers konar frv.-smíð um breyt. á lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Slíkt var tekið upp í stjórnarsáttmála núv. stjórnarflokka. Það hefur verið flutt hér frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni og fleirum, að ég held, a.m.k. þeim hv. þm. Á því hefur verið legið og beðið eftir því að þessi frv.-smíð sæi dagsins ljós, þótt í gegnum miklar þrengingar hafi þurft að fara á þessu tæplega tveggja ára tímabili.

Það, sem stórskotaliðsforingjar Sjálfstfl. haustið 1971 töldu fyrst og fremst varhugavert og fordæmanlegt, var það, að það var meiningin þá og var í reynd sett upp kerfi sem menn hafa nefnt „kommissarakerfi“, og í tíð fyrrv. ríkisstj. var þar um þrjá einstaklinga að ræða, þrjá fulltrúa, einn frá hverjum stjórnarflokki. Núv. hæstv. ríkisstj. breytti þessu þegar hún tók við völdum, og í stað þess að þeir voru þrír þá var þeim fækkað í tvo, þ.e.a.s. einn fulltrúa fyrir hvorn núv. stjórnarflokk. Þetta var síðmenningin sem átti sér stað og hefur blómgast síðan undir forsæti hv. þm. Ingólfs Jónssonar sem var að þeim nöfnum ólöstuðum einna skeleggastur í gagnrýninni á lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins haustið 1971.

Í því frv., sem hér liggur nú fyrir, er, að því er ég best sé, ekki um að ræða neinar verulegar breyt. frá lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins sem nú er í gildi, nema þá einu breyt. að yfirfært er úr stjórnarsáttmála núv.stjórnarflokka ákveðið prósentuframlag til Byggðasjóðs sem nú er sett í frv. og væntanlega verður þá í lögunum. Þetta er hin eina raunverulega breyt. frá því sem nú er í lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Maður skyldi nú ætla eftir allt tal þeirra Sjálfstæðis-þm. um a.m.k. hættuna á stórkostlegri pólitískri spillingu í þessari ríkisstofnun, að þeir hefðu a.m.k. látið sjá hér dagsins ljós á Alþ. breyt. þar sem a.m.k. hefði verið reynt að koma í veg fyrir að þessi þróun mála ætti sér stað, þ.e.a.s. að þeir hyrfu nú til hinna fyrri hugmynda sinna haustið 1971 og legðu til að í þessu frv. væri það ótvírætt að þessari stofnun skyldi stjórnað af visku og dáð eins forstjóra í stað tveggja sem nú eru. En ekki er nú aldeilis svo að sjá, að það sé meining hæstv. ríkisstj. að breyta í þá átt, því að í fyrsta lagi er það að segja um 3. gr. frv., sem fjallar um þetta, að hana má skilja á báða vegu. Það má skilja hana sem svo að þarna geti verið um einn forstjóra að ræða, en þeir geta líka verið 5, 10 eða fleiri. En mér skilst að við 1. umr. hafi það komið fram hjá talsmönnum þessa frv. að meiningin væri að hér yrði ekki um einn forstjóra að ræða, heldur fleiri, þannig að hér er engin breyt. á ferðinni.

Ég vil taka það fram að haustið 1971, þegar lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins voru hér til meðferðar, var það skoðun Samtakanna að það væri æskilegast að einn forstjóri yrði ráðinn að stofnuninni. Sú skoðun okkar hefur ekkert breyst. Við gerðum það að vísu til samkomulags haustið 1971 að fallast á þá niðurstöðu sem þá varð um að þar yrðu þrír framkvæmdastjórar, en við vorum þessarar skoðunar og erum þessarar skoðunar enn, að það muni affarasælast að um sé að ræða einn forstjóra fyrir þessa stofnun. Með hliðsjón af því teljum við eðlilegt að fylgja fram kominni brtt. frá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni sem gengur í þessa átt og a.m.k. mætti ætla með hliðsjón af því, sem áður hefur gerst, að hv. þm. Sjálfstfl. muni greiða atkv.

Út af þeirri till. sem hér kom fram frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni o.fl., og þeim ummælum sem hann lét falla hér, þá tel ég engan vafa á því að um er að ræða talsvert mikinn vanda Stofnlánadeildar landbúnaðarins í sambandi við fjármagnsvöntun. Það hygg ég að ekki verði í efa dregið. En ef samþ. yrði sú till. sem hann hér leggur til, þá væri a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð, eins og hér hefur komið fram, í raun og veru verið að leggja niður í reynd það markmið sem Byggðasjóði var ætlað á sínum tíma, og mér vitanlega hafa ekki komið fram neinar hugmyndir eða till. aðrar en þá þessi í þá átt að breyta þessu höfuðmarkmiði Byggðasjóðs. Eins og hér kom fram áðan, þá er Byggðasjóður viðbótarlánasjóður, og hér hefur réttilega verið á það bent, að ef þetta yrði gert með Stofnlánadeild landbúnaðarins, þá kæmu að sjálfsögðu þegar fleiri sjóðir á eftir og þar með yrði í raun og veru gengið af Byggðasjóði dauðum, þannig að ég a.m.k. mun ekki geta stutt þá till. sem hér hefur komið fram í þessa átt, þó að ég viðurkenni fyllilega erfiðleika sem Stofnlándeild landbúnaðarins stendur frammi fyrir vegna fjármagnsskorts.

Eins og ég sagði áðan, þá er þetta frv. í raun og veru hvorki fugl né fiskur í þá átt sem talsmenn Sjálfstfl. hafa talað um að undanförnu. Þeir hafa greinilega orðið að sætta sig við það að kyngja hinum stóru orðum um Framkvæmdastofnun ríkisins, þar á meðal hv. 1. þm. Suðurl. sem viðhafði þó æðimörg stór orð þegar þetta mál var til umr. hér haustið 1971, og þeir hafa orðið að sætta sig við það að í öllum meginatriðum á Framkvæmdastofnunin að starfa á sama grundvelli og hún hefur gert allt frá upphafi. Þetta er meginniðurstaðan, þannig að þetta frv. hefur ekki inni að fela neinar raunverulegar breyt. á þeirri stofnun frá því sem nú er.

Ég vil svo að lokum ítreka það, að við munum greiða atkv. þeirri brtt., sem flutt er af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, með hlíðsjón af því sem við töldum í upphafi réttast, þrátt fyrir það að við gengjum til samkomulags inn á annað haustið 1971.