12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4140 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil, vegna þess að hv. 2. þm. Norðurl v. vefengdi það, að mér skildist, að lán til landbúnaðar væru 2.79%, benda á að á bls. 65 í þeirri skýrslu, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur dreift á borð þm. fyrir árið 1975, er skiptingin svona, með leyfi forseta: Landbúnaður 104 millj. 933 þús. eða 2.79%. Fiskveiðar 1 milljarður 758 millj. rúmar eða 46.68%. Fiskiðnaður 615 millj. rúmar eða 16.32%. Og iðnaður er með 17%. Þetta sýnir a.m.k. að ef þessi skýrsla er rétt, þá er skiptingin eins og ég sagði áðan.

Þegar maður fer að fletta þessari skýrslu, þá virðist manni að minkabú og hænsnabú fái helst lán af þeim greinum landbúnaðarins sem sækja þar um lán.

En út af ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar vil ég segja það, að það er alveg rétt að Byggðasjóður er uppbyggður sem viðbótarlánasjóður. En til hvers eru viðbótarlán ef engin stofnlán eru til þess að lána úr stofnlánasjóðunum sjálfum? Ég vil spyrja að því. Og í ræðu minni áðan óskaði ég þess og bað hæstv. forsrh. að svara til um aðrar leiðir til að fjármagna Stofnlánadeild og veðdeild, og þá væri ég fús til að draga þessa till. til baka. En komi ekki yfirlýsingar um það hér á hv. Alþ., þá verður þessi till. að ganga hér undir atkv.

Út af því, sem hv. 9. landsk. þm. sagði í sambandi við að það væri óeðlilegt að þetta gengi í Stofnlánadeildina — (Gripið fram í.) Ja, er ekki Byggðasjóður eða það fjármagn, sem ætlað var í hann, fyrst og fremst til þess að styrkja byggð í landinu, — er það ekki? Og ef Byggðasjóður er byggður upp á kostnað stofnlánadeildarinnar, hins raunverulega byggðasjóðs, höfum við þá náð þeim tilgangi sem ætlast var til? Ég spyr.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði að ef till. yrði samþ., þá væri gengið af Byggðasjóði dauðum. Þegar lögin um Byggðasjóð voru samþ., þá var ætlað til hans úr ríkissjóði 100 millj. á ári. Ég get ekki betur séð en að ef þetta frv. verður samþ. þannig, enda er það í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að 2% af útgjaldaliðum fjárlaga renni í Byggðasjóð, þá geti það orðið um hálfur annar milljarður. Ég sé því ekki að það sé neitt óeðlilegt, um leið og þessi sjóður er stórefldur og ef finnast ekki önnur úrræði til þess að fjármagna byggðasjóði, þá sé ekkert eðlilegra en að rétt hlutfall, miðað það fólk sem býr á þessum landssvæðum, fái sinn hlut af þessum sjóðum.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál frekar vegna þess að sá tími, sem er gert ráð fyrir að þingfundur standi, er nú liðinn. En ég vil minna á það að á síðasta ári var verðmæti unnið úr hráefnum landbúnaðarins flutt út fyrir rúma 31/2 milljarð. Ég veit ekki betur en það sé möguleiki að selja kindakjöt í Noregi fyrir verð sem væri um 445 kr. kg. Ég veit ekki betur heldur en að ef það væri möguleiki að vinna úr íslenskri ull og skinnum, þá væri hægt að margfalda þann útflutning frá því sem nú er, ef við gætum bara fullunnið öll þessi hráefni, og að því verður stefnt. En það verður ekki gert með því að halda á byggðamálunum á kostnað landbúnaðarins. Það verður ekki gert með því, og við fulltrúar dreifbýlisins getum ekki sætt okkur við slíka lausn. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. forsrh.: Eru önnur úrræði? Þá er ég fús til að draga þessa till. til baka, en annars ekki.