13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4146 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð varðandi þetta frv. og þá afstöðu sem ég tók í félmn, varðandi það.

Þetta frv. er töluvert sérstaks eðlis. Þarna ern komnir þrír liðir: holræsagjald byggingargjald og sérstakt gatnagerðargjald á Akureyri. Ég hygg að þetta varðandi holræsagjaldið og byggingargjaldið sé óþarft, í raun og veru sé bara spurningin um það sérstaka gatnagerðargjald sem þarna er um að ræða, það sé ekki annað sem verið er að meina með þessari afgreiðslu okkar, eins og hér hefur reyndar verið lögð áhersla á að við séum að gera með þessari afgreiðslu. En út af fyrir sig er ágætt að heyra það frá fulltrúum hv. stjórnarsinna hér á Alþ. að það að vísa máli til ríkisstj. sé sama og að drepa það. Það er út af fyrir sig ágætt að heyra þá yfirlýsingu, og það var nú ekki þannig meint, enda vafasamt hvort þarna er um stjórnarsinna að ræða, að mér skilst.

En varðandi þetta mál hafði ég þá sérstöðu í n. og við reyndar fleiri þar, að við töldum þetta mál nokkuð einkennilega til komið. Það vill nefnilega svo til að tvisvar með stuttu millibili hafa veríð til meðferðar hér á Alþ. frumvörp um gatnagerðargjöld almennt. Fyrst voru sett lög hér um þessi gatnagerðargjöld þar sem sveitarfélögum var heimilað að innheimta þessi gjöld með ákveðnum ákvæðum þar um. Þá man ég ekki eftir neinu erindi, þegar þetta mál var til meðferðar hér, frá Akureyri varðandi það mál, enda var það frv. borið fram af hv. varaþm. þá, Alexander Stefánssyni, o.fl. samkv. ósk ýmissa sveitarfélaga sem voru þá að ráðast í gatnagerðarframkvæmdir. Síðan kom það til, og þá var það sérstaklega vegna óska ýmissa sveitarfélaga sem höfðu verið búin að gera nokkurt átak áður í gatnagerðarmálum, þá kom fram ósk frá þeim — ekki frá akureyringum sem enn þá sváfu, að ég best veit, heldur frá ýmsum öðrum sveitarfélögum um að það yrði tryggt að hægt væri að leggja þetta gjald á þó að framkvæmdirnar væru liðnar, það væri búið að framkvæma þetta og þetta ætti að gilda fimm ár aftur í tímann. Engin aths. kom frá akureyringum um þetta. Meðan þessi frv. um gatnagerðargjöldin voru hér til meðferðar, þá sem sagt virtust þessir aðilar ekki hafa áttað sig á því að einmitt þarna var hið kjörna tækifæri fyrir þá, ef þeir þurftu á þessu að halda, að koma því að. Ég vil vísa til annarra manna, sem hafa verið í félmn. þessarar hv. d., um það hvort þeir muni eftir því að á meðan þessi frv. voru til umfjöllunar og meðan rétti tíminn, segi ég, var til þess að leiðrétta þetta hróplega ranglæti sem akureyringar eru nú að leiðrétta, meðan þessi frv. voru til umr., hvort nokkur ósk hafi frá þeim komið þá um þetta. Ég minnist þess ekki.

Ég álít hins vegar að lagasetning af þessu tagi sé röng. Ef við eigum að breyta því, og það var mjög til umr., en náðist ekki samkomulag um það í n., — ef við eigum að gera það, þá eigum við að fella þetta inn í almenn lög um gatnagerðargjöld og um það skal ég vera til viðræðu þegar á því er fundið heppilegt og gott form, en það tókst okkur ekki að finna í þessu tilfelli, enda erfitt þar sem um var að ræða ekki bara gatnagerðargjaldið, heldur var þarna líka ákvæði um óskyld efni, eins og holræsagjald og byggingargjald. En þetta set ég sem sagt mest út á þetta. Við höfum verið með þessi gjöld, gatnagerðargjöldin, hér til umr. í Ed. tvívegis á s.l. árum samkv. sérstökum óskum sveitarfélaganna. Þá höfum við ekki fengið nein viðbrögð frá akureyringum um sérstaka nauðsyn þeirra í þessum efnum. Ég veit að það stendur þannig á um fleiri sveitarfélög sem þyrftu þá að koma þar á eftir. Ég álít því að ef á að leysa þetta mál fyrir akureyringa, þá verði að koma til breyting á gatnagerðargjöldum almennt og það hefði verið rétta aðferðin fyrir þá núna að finna þá leið sem líklegust hefði verið til þess að fella það inn í lög um innheimtu gatnagerðargjalda.