13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4149 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það hafa verið höfð allstór orð í þessum umr.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði að n. hefði komist að kolvitlausri niðurstöðu, eins og hann orðaði það. Auðvitað færði hann engin rök fyrir sínu máli. Hann sagði líka að hann skoraði á menn að refsa félmn. með því að greiða atkv. á móti till. hennar í þessu máli. Ég vil benda á að það er mjög óþinglegt að taka afstöðu til mála, sem menn eiga að taka málefnalega, með tilliti til þess hvort menn séu að refsa ákveðinni n. eða verðlauna. Auðvitað hefur félmn. ekkert gert nema skyldu sína að skila áliti í þessu máli, og það getur ekki talist refsivert.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. var að tala um að líklega hefði félmn. misskilið þetta mál. Ég held að það sé ekki. Ég held að félmn. hafi ekki misskilið neitt í þessu efni og viti alveg hvað hún vill og hvað hún er að leggja til.

Hv. 7. landsk. þm. og hv. 10. landsk. þm. hafa báðir rætt nokkuð efnislega um þetta mál, svo að ég skal ekki fara að lengja umr. með því að fara að gera það. En ég verð að segja að ég er mjög undrandi á þeim málflutningi sem hefur komið hér fram, bæði hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 12. þm. Reykv., og mér skilst að hv. 5. þm. Norðurl. e. sé í einu og öllu sammála þessum ágætu þm. og allir eru þeir ágætir. En mér finnst að þeirra málflutningur mótist ákaflega mikið af þessari ákefð sem allt of mikið verður vart, bæði í þingsölum og utan þingsala, í að lengja álögur og skatta á almenning undir öllum kringumstæðum. Og svo áhugasamir eru menn, að þeir vilja ekki einu sinni gefa eðlilegt tóm til þess að athugað sé með hverjum hætti sé þá eðlilegast að fara að því að leggja skatta og byrðar á borgarana. Við tókum ekki í félmn. efnislega afstöðu til þessa máls. Við teljum að þétta mál hljóti að fá góða athugun, því að við leggjum ekki til að því sé í kot vísað, heldur til ríkisstj. Og ríkisstj. er að láta fara fram athugun á tekjustofnalögum sveitarfélaga.

Ég sagði að ég undraðist þennan áhuga hjá þessum hv. þm., þremenningum, um að leggja skatta og álögur á. Eins og ég tók fram í ræðu minni áðan, þá höfum við í tekjustofnalögunum ákvæði um fasteignaskatt á fasteignir. Við höfum í lögum um gatnagerðargjald frá 1974 ákvæði um gjald á fasteignir, um leið og byggingarleyfi er veitt, svokallað A-gjald. Við höfum annað gjald í þessum lögum um meiri gjöld á fasteignir, þriðju tegund af gjöldum á sömu fasteignir, þ.e. til þess að afla fjár til að koma slitlagi á götur. Nú er hér um að ræða fjórða ákvæðið um skatta.

Því er haldið mjög á lofti að þetta sé vilji allra akureyringa, og í því efni er bent á að bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt áskorun um þetta og auðvitað efast ég ekki um það. En ég leyfi mér að efast um að húseigandi, sem búinn er í mörg ár að greiða fasteignagjald samkv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga, húseigandi, sem búinn er að greiða gjald samkv. lögum um gatnagerðargjöld, og húseigandi, sem er nú krafinn um að greiða gjald til malbikunar, þó að hann sé í mörg ár búinn að búa við malbikaða götu sjálfur, ég leyfi mér að efast um að allir slíkir menn á Akureyri hefðu samþykkt þetta ef það hefði verið borið undir þá. Eða halda menn að maðurinn, sem í mörg ár er búinn að eiga hús við malbikaða götu, hafi ekki greitt fasteignagjöld? Hefur hann ekki greitt skatta til þess að Akureyri gæti komið á götur varanlegu slitlagi? Hefur hann verið skattfrjáls, þessi maður?

Ég bendi aðeins á þetta til undirstrika það sem ég sagði, að mig undrar á þeirri skattagleði sem hér ríður húsum í hv. Ed. frá hv. 12. þm. Reykv., 2. þm. Norðurl. e. og fylgt er eftir af hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég minnist á þetta að gefnu tilefni. En ég endurtek það að bæði ég og aðrir nm. höfðu enga tilhneigingu til þess að vilja koma þessu máli fyrir kattarnef. Við töldum það þess eðlis að það væri eðlilegt að athuga það í víðara samhengi: Í fyrsta lagi vegna þess að við töldum að það væri ekki rétt löggjafaraðferð að set a sérlög um einstök sveitarfélög í þessu efni. Í öðru lagi vegna þess að það gat orkað tvímælis, hvort ætti að setja almenn ákvæði um þetta í lög um gatnagerðargjald frá 1974 eða hvort það ætti að hækka fasteignaskatt samkv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Og með því að þessi löggjöf er almennt til endurskoðunar, þá töldum við það væru hyggileg, skynsamleg vinnubrögð að athuga þetta mál í samhengi við þessi mál almennt. Þetta er það sem félmn. hefur lagt til. Og ég verð að segja að mér þykir það ólíklegt ef menn hafa miklar rökstuddar ástæður til þess að vera á móti slíkri afgreiðslu. Og ég treysti hæstv. ríkisstj. mjög vel til þess að láta hendur standa fram úr ermum í þessu efni, þannig að þetta geti legið fyrir í haust og þá getum við tekið til við þetta mál á nýjan leik.