13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki mikið fylgst með þessum málum. En þegar ég verð var við að Akureyri og fulltrúar Norðurl. e. eiga hér undir högg að sækja að koma þessu máli fram vegna þess að hv. félmn. d. hefur tekið það í sig að afgreiða það með nokkuð afbrigðilegum hætti og án þess að veruleg rök séu borin fyrir þeirri afstöðu, þá get ég ekki látið hjá líða að leggja orð í belg.

Mér finnst að aðalatriði málsins sé það, að á örfáum stöðum á landinu háttar svo til að búið var að leggja talsvert mikið af varanlegu slitlagi á götur og gangstéttir fyrir 1970, og þessir aðilar geta því alls ekki sætt sig við núverandi lög eins og þau eru, lög frá 7. maí 1974, með þeirri breytingu sem var gerð árið eftir. Þeir fara því fram á að fá gerða hér breytingu á og óska eftir að hægt sé að leggja á gatnagerðargjöld, jafnt á alla bæjarbúa sem eiga fasteignir í bænum, óháð því hvenær varanlegt slitlag var lagt á göturnar. Þetta verður auðvitað að teljast mjög rökrétt krafa vegna þess að þeir, sem hafa áður fengið varanlegt slitlag fyrir framan hús sin, hafa fengið fjármuni allra bæjarbúa í þessu skyni. Þetta hefur verið gert með skattlagningu á alla bæjarbúa, en ekki á þá sérstaklega. Og nú, þegar á að bæta við varanlegu slitlagi, þá er auðvitað eðlilegt að allir greiði þetta, bæði þeir, sem eiga að fá varanlegt slitlag fyrir framan hús sin, og hinir, sem voru búnir að fá það áður. Þetta er kjarni málsins.

Það vorn sett lög um gatnagerðargjöld árið 1974 og þar var heimilað að innheimta af öllum fasteignum við þær götur sem bundið slitlag er sett á og þar sem gangstéttir eru lagðar. Af einhverjum ástæðum, sem hafa ekki verið dregnar nægilega sterkt fram í þessum umræðum, neitaði rn. að fallast á það að gatnagerðargjöld samkv. þessum lögum, sem ég vitnaði í, verkuðu aftur fyrir sig, a.m.k. að neinu verulegu marki. Því var flutt hér frv. og því síðan breytt þannig að niðurstaðan varð sú að þetta var þannig orðað: „Gjald má innheimta af öllum fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag hefur verið sett á og þar sem gangstéttir hafa verið lagðar, enda sé eigi lengri tími liðinn en 5 ár frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð.“ Þetta finnst mér hafi verið nokkuð einkennileg afstaða hjá Alþ. og verð að játa að ég hef ekki tekið nægilega vel eftir því þegar þessi breyting var gerð. En það er nú oft svo að maður tekur ekki eftir mistökum, sem eiga sér stað hér í þinginu, fyrr en hv. kjósendur fara að kvarta og það hafa þeir gert.

Akureyringar segjast ekki geta sætt sig við þessa niðurstöðu. Og úr því að Alþ. hefur eftir að hafa eytt sérstökum tíma í það að endurskoða þessi mál, eftir að Alþ. hefur afgreitt málið með þessum erfiða varnagla sem Akureyri getur ekki sætt sig við, þá segja þeir akureyringar og það með atkv. allra bæjarstjórnarmanna: Þá viljum við bara fá sérstök lög sem snerta okkur eina, úr því að ekki er nokkur leið að fá leiðréttingu á þessu hjá Alþ. eftir ítrekaðar tilraunir. — Og ég ætla aðeins að bæta því hér við, að nákvæmlega sams konar beiðni hefur borist frá Siglufirði, einnig stutt af mönnum úr öllum flokkum. Þeir telja sig alls ekki geta sætt sig við þessa niðurstöðu. Ég verð að vísu að segja það, að kannske hefði nú verið einfaldast að orðalagið á frv., eins og það var flutt í fyrra og samþ. hér í fyrra, hefði verið heppilegra, því að ég tel að það að binda sig við 5 ár aftur í tímann sé alveg fráleitt. Það er engin sanngirni í því, engin rök fyrir því. Það segir sig sjálft, það er réttlátast að það sé lagt á alla bæjarbúa, hvort sem þetta hefur verið framkvæmt eða á eftir að gera, ef þeir hafa þá ekki þegar sjálfir borgað sérstaklega fyrir það. En ég vil aðeins skjóta því að mönnum að í 3. mgr. 4. gr. frv., sem hér er til umr. og snertir Akureyri sérstaklega, segir: „Eigi er heimilt að krefjast þess hluta gjaldsins af fasteign eða hluta hennar sem áður hefur verið innheimt í byggingagjaldi.“ Það er alveg tryggilega um hnútana búið, að það er ekki verið að tvíheimta skatt af sama fólkinu eða af sömu fasteignunum.

Sem sagt, ég tel að eftir þau mistök sem Alþ. hefur gert í þessum málum að minni hyggju, m.a. vegna þess að flestir áttuðu síg ekki á því að sum bæjarfélög kynnu að lenda í þessum vanda og vegna þess að gatnagerðarlögin frá 1974–1975 eru fullnægjandi fyrir langflesta staði á landinu, það eru aðeins örfáir staðir sem þessi undantekningarákvæði þurfa í sambandi við þessi lög, en með hliðsjón af því sem hefur gerst í þessu máli hér á Alþ., þá tel ég ekki stætt á neinu öðru en að samþykkja frv. um Akureyri eins og það liggur hér fyrir, enda sé ég ekki að neinn skaði sé skeður eða yfirleitt að við, sem búum í öðrum byggðarlögum, höfum nokkurn rétt til þess að vera að skipta okkur af því hvernig akureyringar vilja haga sínum málum, þegar fyrir liggur að alger samstaða er um málið í bæjarstjórn Akureyrar. Ég hefði hins vegar kosið að um staði eins og Siglufjörð, sem opinberlega hefur farið fram á það, giltu nákvæmlega sömu lög og akureyringar hafa óskað eftir að gildi um Akureyri, að þessari kröfu yrði mætt með því að bæta siglfirðingum inn í þessi lög. Ég tel að afgerandi sé hverjir biðja um þetta, hverjir ekki. Það virðast ekki vera margir staðir sem biðja um þetta sérstaklega.

Ég sem sagt styð málið eindregið. Ég vil alls ekki tefja framgang þess. Ég hefði helst kosið að bæta Siglufirði þarna inn í, en vil samt alls ekki að það verði til þess að tefja framkvæmd málsins, ef hætta væri á því, þá mundi ég falla frá þeirri kröfu. Ég tel sem sagt, að krafa akureyringa eigi fyllsta rétt á sér og það sé aðalatriðið að við þeirra ósk sé orðið.