13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4160 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. hefur sem kunnugt er veríð samþ. í Nd. og fór til n. í hv. d. Meiri hl. n. mælti með frv. 2. umr. hefur beðið hér um stund af þeirri ástæðu að æskilegt þótti að reyna að ná samkomulagi við bæjarstjórn Hafnarfjarðar um hluta Hafnarfjarðar af framleiðslugjaldi vegna álbræðslunnar. Að undanförnu hafa átt sér stað viðræður við fulltrúa hafnfirðinga, og er nú komin sú niðurstaða sem ríkisstj. og bæjarstjórn hafnfirðinga eru sammála um. En aðalatriðið í þessu máli hefur verið að reyna að tryggja að hlutur Hafnarfjarðarkaupstaðar yrði frá hans sjónarmiði fyllilega viðunandi, að við þær breytingar, sem verða á framleiðslugjaldinu með þessum nýja samningi, verði hlutur Hafnarfjarðar ekki lakari en hann hefur áður verið.

Það samkomulag, sem nú hefur orðið, er á þá leið að af árlegri heildarfjárhæð framleiðslugjaldsins skuli jafnvirði 240 þús. Bandaríkjadala renna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, upphæð þessi skuli hækka í jafnvirði 250 þús. Bandaríkjadala á ári frá og með afhendingardegi rafmagns til 3. stækkunar bræðslunnar ef til hennar kemur samkv. aðalsamningnum. Í öðru lagi að til Hafnarfjarðarkaupstaðar skuli renna 18% af árlegri heildarfjárhæð gjaldsins. Að öðru leyti er svo óbreytt það sem renna skal til Iðnlánasjóðs, 4.1% af árlegri heildarfjárhæð gjaldsins, og að öðru leyti renni gjaldið í ríkissjóð er ráðstafi hlut sinum til greiðslu á skuldbindingum sínum gagnvart Byggðasjóði samkv. lögum á hverjum tíma. Þá er þriðja atriðið, sem snertir Hafnarfjörð, það að rætt var mjög um endurskoðun eða verðtryggingu á þessu gjaldi til Hafnarfjarðar, og samkomulag varð um að upphæð þá, er renna skal til Hafnarfjarðarkaupstaðar, megi endurskoða með hliðsjón af þróun fasteignaskatta á tveggja ára fresti, í fyrsta skipti 1. jan. 1979, með samningum milli ríkisstj. og Hafnarfjarðarkaupstaðar, og getur hvor aðili um sig óskað endurskoðunar hennar.

Þetta er meginefni þess samkomulags sem ríkisstj. og bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa fallist á. Ég vænti þess að þar sem þetta liggur nú fyrir þá geti frv. fengið greiða göngu í gegnum þessa hv. deild.