13.11.1975
Neðri deild: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

52. mál, búfjárræktarlög

Flm. (Sigurður Björgvinsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér á þskj. 56 að flytja frv. til l. um breyt. á búfjárræktarlögum. Frv. gerir ráð fyrir því að inn í III. kafla laganna, sem fjallar um sauðfjárrækt, sé bætt nýrri gr. um ræktun forystufjár.

Í stuttri grg., sem fylgir frv., lýsi ég því í fáum orðum hvað fyrir mér vakir með flutningi þessa frv. Skal ég nú reyna að gera grein fyrir því nokkru nánar.

Það má eiginlega segja að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi landbúnaður verið aðalbjargræðisvegur okkar íslendinga. Forfeður vorir komust brátt að raun um það að landið væri ekki vel fallið til akuryrkju, en hins vegar voru hér bithagar góðir og því var kvikfjárræktin aðalgrein landbúnaðarins. Landnámsmennirnir fluttu sjálfir með sér búsmala sinn, hesta, nautgripi, sauðfé, svín, hunda og ketti, og þannig myndaðist fljótt það sambýli manna og dýra sem síðan hefur haldist hér lítið breytt fram á þennan dag, þannig að búsmali okkar er enn að mestu af hinum upprunalega stofni. Að vísu voru á fyrri hluta þessarar aldar gerðar nokkrar tilraunir með innflutning sauðfjár, en vegna óforsjálni og mistaka olli sá innflutningur landbúnaðinum stórfelldu tjóni og skal sú rannasaga ekki rakin hér nánar.

Áður en vélarnar komu til sögunnar meðan túnin voru lítil og óslétt og heyja varð ekki aflað nema með frumstæðum handverkfærum, grundvallaðist þessi kvikfjárrækt fyrst og fremst á útbeitinni, bæði sumar og vetur. Jafnvel nautgripirnir voru reknir á fjall og látnir ganga úti, enda féllu þeir stundum í hörðum vetrum. Þess er t. d. getið að veturinn 1226–1227 hafi fallið hundrað nautgripa í Svignaskarði í Borgarfirði fyrir Snorra Sturlusyni. Aftur á móti hefur sauðkindin þolað mun betur harðýðgi íslenskrar náttúru, enda var sauðfé látið bjarga sér sjálft árið um kring eftir föngum. Slíkt lánaðist sæmilega í góðæri, en í hörðum árum gátu hey þrotið og þá var vá fyrir dyrum, enda hrundi búfé þá stundum niður, og þá var þess skammt að bíða að hungurvofan knýði dyra og boðaði mannfelli. Slík hefur löngum verið lífsbarátta fólksins í þessu landi, barátta fátækrar, frumstæðrar þjóðar.

Okkur íslendingum nú á dögum, þessari auðugu allsnægtaþjóð, okkur væri hollt, þegar við erum að berja barlóminn yfir ímynduðu efnahagshruni og þjóðargjaldþroti, að leiða hugann til liðins tíma, til lífsbaráttu forfeðra vorra, vér „lítilþæg afkvæmi móðuharðindanna“, svo ég taki mér í munn orð góðskáldsins okkar Jóhannesar úr Kötlum, með leyfi hæstv. forseta: „Vér skáldmenni Íslands, lítilþæg afkvæmi móðuharðindanna sem hirðum molana af veisluborðunum góðu, sem átvögl vor og vínsvelgir sitja að innan víggirðinga bófafrelsisins.“

En þegar við bregðum ljósi á sögu okkar þjóðar, þá er það eitt sem við stundum gleymum, nokkuð sem ég hygg að sagnariturum okkar sjáist jafnvel stundum yfir, og það er að við íslendingar — og þá á ég við fólkið í landinu — við stóðum aldrei einir í lífsbaráttunni. Við áttum okkur bandamenn eða samherja, — samherja sem jafnvel háði eigin lífsbaráttu. Ég á hér við dýrin, húsdýrin okkar og þá alveg sérstaklega sauðkindina, þessa duglegu og harðgerðu, vitru og trygglyndu skepnu, sem aldrei gafst upp fyrr en allt um þraut. Það er vandséð hvernig fólk hefði getað lifað í þessu landi ef sauðkindarinnar hefði ekki notið við. Þessu má auðvitað einnig snúa við og segja að sauðkindin hefði ekki getað lifað án sambýlis við fólkið. Þær fjölbreyttu afurðir, sem sauðfé gaf af sér, voru þjóðinni auðvitað lífsnauðsynlegar. En sauðkindin var okkur annað og meira. Hún var, ég vil segja sálufélagi fólksins. Hún var lifandi tengiliður milli fólksins og náttúrunnar, í gegnum samskipti sín við sauðfé lærði fólkið að þekkja land sitt, komast í nána snertingu við það, ekki aðeins í byggð, heldur einnig upp um fjöll og heiðar, bæði í vetrarhörkum og sumarblíðu. Sauðkindin hjálpaði jafnvel manninum við að skynja og skilja náttúruöflin, forðast hættur þeirra eða sigrast á þeim.

Ég gat þess áðan að við ættum enn að stofni til hið sama sauðfé og það sem fluttist til landsins með landnámsmönnunum fyrir meira en 1000 árum. En svo virðist sem frá upphafi hafi verið um a. m. k. tvær ættkvíslir sauðfjár að ræða, sem auðvitað hafa blandast meira og minna, en þó alltaf verið haldið nokkuð aðgreindum. Það fjárkynið, sem ég ætla að gera hér sérstaklega að umræðuefni, er forystuféð, en það hefur löngum verið í hávegum haft sökum sinna frábæru hæfileika og dugnaðar og þó einkum fyrir þá sérgáfu að gæta hjarðarinnar og veita henni forystu.

Ég skal nú viðurkenna það, að mér hefur ekki tekist að afla mér mikilla heimilda um forystufé frá fyrri tímum. Á einum stað í Ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, því gagnmerka riti sem skráð er fyrir 220 árum, er getið um forystufé, og langar mig til að vitna í þann kafla, með leyfi hæstv. forseta :

„Margir bændur hafa forystusauði í fé sinn. Nafnið er af því dregið, að hann fer ætíð á undan hjörðinni sem fylgir honum eftir, enda má segja að forystusauðirnir stjórni allri hjörðinni. Forystusauðirnir eru í hærra verði en aðrar kindur, enda gera þeir ómetanlegt gagn, einkum á vetrum þegar illvirði skella snögglega á. Sauðurinn leiðir hjörð sína heim að húsum í náttmyrkri og móti stormi og hríð. Væru forystusauðirnir ekki ættu bændur á hættu að missa allt sitt fé þegar svona stendur á, eins og mörg dæmi sýna þar sem engir sauðir voru. Sauðum þessum er aldrei slátrað fyrr en þeir eru orðnir farlama af elli.“

Mig langar að bæta hér við annarri tilvitnun úr annarri bók, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar Kol óx aldur og þroski var hann tvennt í senn: góður forystusauður og svo fallegur að hann vakti allra aðdáun sem sáu hann. Kolur var mikill vexti, höfuðið stórt, snoppan löng og gild og nasarými mikið og fallegt, andlitið snögghært og gljáhært og silfurgrátt að lít, augun í stærra lagi, athugul og stillileg. Hann var grannhyrndur, hringhyrndur, hornskertur með klukku í hægra horni. Fæturnir báru sama lit og andlitið, en hvítir leystar á afturfótunum rétt upp við lágklaufir, en belgurinn hvítur,“

Þessi tilvitnun er úr bókinni „Forystufé“, sem sá merkimaður Ásgeir Jónsson frá Gottorp skráði. En á hvað minnir hún ykkur þessi lýsing: „Þegar Kol óx aldur og þroski“? Hér er verið að tala um vitsmunaveru. Kolur er mikill vexti, höfuðið stórt, nasarými mikið og fallegt, augum í stærra lagi, athugul og stillileg. Augun eru jú spegill sálarinnar. Eða hin nákvæma lýsing á höfuðbúnaðinum, höfuðskrautinu, og svo fótabúnaðurinn og klæðin öll. Þau voru ekkert slor. Þetta minnir óneitanlega á sumar mannlýsingar í fornsögunum og þó er þetta bara lýsing á sauðkind, að vísu ekki á neinni venjulegri sauðkind. Hér er verið að lýsa foringjanum, andlegum leiðtoga hjarðarinnar.

Í þessari bók Ásgeirs er urmull af skemmtilegum og fróðlegum sögum af forystufé víða að af landinu. Þessar sögur bera það allar með sér að hvarvetna kostuðu bændur kapps um að eiga sem best forystufé sökum þess mikla hagræðis sem að því var, einkum við fjárgæslu og fjárrekstra. Kom þar bæði til hvað þessar skepnur eru með afbrigðum veðurglöggar og ratvísar og svo áræðni þeirra og frábær dugnaður að brjótast áfram á undan hjörðinni í ófærð og vondum veðrum eða yfir óbrúuð vatnsföll og annað torleiði. Oft er yfir því kvartað og það með nokkrum rétti að forystuféð sé óþægt. En þegar ekki er lögð stund á ræktun fjárins, enda óhægt um vik ef ekki eru til neinir forystuhrútar, heldur látið blandast öðru fé, þá er alltaf nokkur hætta á að útkoman verði úr þeirri blöndu bara óþægar kindur og styggar. Aftur á móti eru góðar forystukindur alls ekki endilega styggar, heldur geta þær verið mjög gæfar og leiðitamar. Gott dæmi um það var Kúlu-Glúmur, annálaður forystusauður í eigu séra Stefáns Jónssonar prests á Auðkúlu í Svínavatnshreppi.

Kúlu-Glúmur var gæddur frábærum forystuhæfileikum, sleppti aldrei kind á undan sér í rekstri, en gætti þess þó jafnan að safnið slitnaði ekki í sundur. Hann var sérlega veðurglöggur og ratvís og snillingur að þræða bestu leiðina í ófærð og hálku, og það var orðið venja að fela honum ráðin við rekstur og fjárbeit. Og svo var hann spakur og leiðitamur að auðvelt var að reka hann einan frá bæ og hvert sem var um sveitina og stjórna honum með bendingum, jafnvel þvert í gegnum fjárbreiður. Á ferðalögum mátti skilja hann eftir hvar sem var, t. d. ef fylgdarmaður skrapp heim á næsta bæ til að fá sér hressingu, þá beið Glúmur rólegur í varpanum á meðan. Kannske var verið að reka rekstur á milli bæja, þá gætti hann kindanna einn þar sem áður var, þar til húsbóndinn kom á vettvang. Þessir hæfileikar hans komu m. a. best í ljós þegar hann var notaður á haustin við að reka prestslömbin um sóknina. Glúmur gekk jafnan á Kúluheiði á sumrum. Hann lauk ævi sinni í hárri elli í hlaðvarpanum heima á Auðkúlu einn góðviðrisdag vorið 1892, 16 vetra gamall. Hann var heygður þar í túninu skammt frá bæ og prestur talaði nokkur vel valin orð yfir moldum hans.

Eins og ég get um í grg. með þessu frv. hefur forystufjáreign landsmanna mjög hrakað hin síðustu ár. Valda þar mestu um breyttir búskaparhættir. Nú orðið er fé hvergi haldið til beitar að vetrinum af slíku kappi sem áður tíðkaðist og þá varla nema í skaplegu veðri og oftast stutt frá bæjum, og víða hefur það lagst með öllu niður að fé sé beitt eftir að það er komið á hús. Annað er það, að nú má heita að fjárrekstrar hafi lagst að mestu niður. Það mun t. d. vera orðið mjög fátítt að fé sé rekið til slátrunar, og reyndar má heita að nú orðið sé það varla flutt um lengri eða skemmri veg öðruvísi en á bilum eða vögnum. Þessi þróun hefur orðið þess valdandi að forystuféð hefur tapað því mikilvægi sem það áður hafði. Þá ber einnig á það að líta að vaxtarlag og holdarfar forystufjárins hefur ekki þótt heppilegt til framdráttar fyrir hámarksafurðastefnu sem fylgt hefur verið í fjárræktarmálum að undanförnu. Þegar svo forystufénu fækkar, sem reyndar var ekki margt af fyrir, þá hætta menn að kosta til þess að eiga góða forystuhrúta og þá er glötun kynstofnsins á næsta leiti. Ef slíkt gerðist mundi með því hverfa að fullu einn af merkustu þáttum í atvinnusögu okkar þjóðar. Það væri óafsakanlegur og óbætanlegur skaði. Einn megintilgangur með flutningi þessa frv. er að brugðið sé við áður en það er um seinan og komið í veg fyrir þau mistök.

Ég á ekki von á því að þetta frv. valdi slíku hugarróti meðal fólks að jafnvel bæjarstjórnir eða sýslunefndir og jafnvel ungmennafélög fari að senda frá sér yfirlýsingar í fjölmiðla þar sem einstakir ráðh. séu beðnir að láta ekki skoðanamismun heima í héraði eða yfirlýsingar minnihluta hópa eða kjósendahópa jafnvel seinka ákvarðanatöku og umfram allt að sjá til þess að staðarval verði á faglegum hagkvæmnisgrundvelli. Slík hástemmd neyðaróp á uppskrúfuðu fjölmiðlamáli heyrast ekki heldur nema þegar meiri háttar þjóðþrifamál eru á döfinni, svo sem ef finna skal stað undir eina álverksmiðju eða sökkva afréttarlandi heillar sýslu undir vatn. En ef þeim sjóndöpru mönnum, sem berjast fyrir slíkum hugsjónum, verður einhvern tíma að ósk sinni, þá er ég þess fullviss að Kúlu-Glúmur mun rísa upp úr gröf sinni og taka stefnu til heiða og létta eigi göngunni fyrr en kemur að Kúluheiði. Og mér finnst sem ég sjái á eftir þessum aldna sveitarhöfðingja þar sem hann skokkar fram götur, léttstígur og fjaðurmagnaður, ber höfuðið hátt, skimar kringum sig með sínum rannsakandi og gáfulegu augum. Ég get lesið hugsanir hans. Var ekki annars einhver að segja Ísland fyrir íslendinga? Er hann ekki íslendingur? Námu ekki forfeður hans þetta land fyrir meira en þúsund árum? Var það ekki einmitt á þessum heiðum sem þeir háðu baráttu sína fyrir lífi sínu kynslóð eftir kynslóð? Jú, víst var það hér. Þarna þekkir hann göturnar þar sem hann gekk sín fyrstu spor við hlið móður sinnar. Einmitt hér var hans heimur sumar eftir sumar. Þetta var hans ríki. Hafði hann ekki þjónað mönnum dyggilega alla sína löngu ævi? Höfðu þeir ekki staðið við hlið hans í lífsbaráttunni? Höfðu þeir ekki treyst hvor öðrum og skilið hvor annan. Víst höfðu þeir gert það og þó. Það er ekki von annars að gamall sauður skilji mennina, ekki lengur, enda ber hann ekki minnsta skynbragð á nútíma tækni. Hann hefur ekki heldur svo mikið sem hugleitt það hvað væri menning. Spurði ekki annars einu sinni lítill drengur fyrir vestan ömmu sína hvað væri menning. „Æ, það er víst eitthvað sem þeir hafa fundið upp þarna fyrir sunnan, rímorð á móti þrenning.“

Kannske skiptir það líka engu máli hvort svör finnast við svona spurningum? Kannske skiptir það eitt máli að ákvarðanataka og staðarval sé á faglegum hagkvæmnisgrundvelli? Og sjálfsagt munu gömlu göturnar hans Kúlu-Glúms reynast lítils virði metnar á slíkan kvarða. Ég geri mér grein fyrir því að frv. það, sem ég hef hér verið að mæla fyrir, verði einnig léttvægt fundið sé það metið á faglegum hagkvæmnisgrundvelli. En allt um það þá gleður það huga minn að geta verið þess fullviss að ef til úrslíta drægi, þá muni Kúlu-Glúmur standa kyrr í sinni götu og hreyfa sig hvergi þótt um hann flæði. Það gott að vita af þó ekki nema einum íslendingi sem sé þess albúinn að fórna lífi sínu fyrir það helgasta sem honum hefur verið trúað fyrir.

Herra forseti. Ég vil svo mælast til þess, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr.