13.05.1976
Efri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4164 í B-deild Alþingistíðinda. (3500)

7. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Með vísun til þess, að í fyrri þd., Nd., þar sem þetta mál hefur þegar hlotið afgreiðslu, flutti ég framsöguræðu og gerði grein fyrir einstökum atriðum málsins, sú ræða hefur verið prentuð, þá mun ég ekki hafa þetta langt mál. En löggjöf um almenningsbókasöfn hefur verið nokkuð lengi á döfinni. Meginnýmæli í frv. fyrr og nú um þetta efni hafa verið varðandi fjármálin. Styrkir eða greiðslur til almenningsbókasafna hafa mjög gengið saman að kaupmætti, ef svo mætti segja, á undanförnum árum, þannig að þar sem sveitarfélög tóku ekki málið í sínar hendur, þar var bókasafnsþjónustan mjög ófullnægjandi. Ýmis fleiri atriði hafa verið í þeim frv., sem fram hafa verið lögð á Alþ. um þetta efni, einkum á fyrri þingum þar sem frv. voru þá ítarlegri.

Það frv., sem hér liggur fyrir nú, er í raun og veru rammalöggjöf aðeins, en þar er þó kveðið á um tiltekin fjárframlög til safnanna. Um áramótin var, eins og kunnugt er, gerð sú tilfærsla að sveitarfélögunum er nú einum ætlað að standa undir rekstri bókasafna. Nd. hefur breytt þessu frv. með tilliti til þessara breyttu aðstæðna og raunar gert á því fleiri breytingar sem ég tel smávægilegar og ýmsar til bóta. Og ég sætti mig við aðrar breytingar, sem þar hafa verið gerðar, og geri enga aths. við þær hér við umr. málsins í þessari hv. d. Ég vil hins vegar minna á að það er mjög aðkallandi að afgreiða þetta frv. og beinlínis aðgerðirnar í vetur kalla á afgreiðslu þess.

Ég held að það sé óhætt að segja að almennt er í landinu vaxandi áhugi og skilningur á starfsemi almenningsbókasafna. Að vissu leyti hafa orðið ný viðhorf með setningu grunnskólalaganna og ákvæðum þeirra laga um skólabókasöfn og um samstarf skólabókasafna og almenningsbókasafna.

Sem sagt, herra forseti, með vísun til þeirrar grg., sem frv. fylgir, og til framsöguræðu minnar í Nd. 15. okt. s.l., þá lýk ég þessum orðum og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til menntmn.