13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér nú hljóðs utan dagskrár, er frásögn Tímans, málgagns dómsmrh. og utanrrh., af umr. utan dagskrár í Nd. í gær um landhelgismálið. Þar segir þingfréttaritari Tímans, Alfreð Þorsteinsson, orðrétt, með leyfi forseta:

„Það vakti athygli í þessu sambandi að Lúðvík Jósepsson nefndi sjálfur töluna 100 þús. tonn sem hugsanlegan aflakvóta fyrir útlendinga. Ekki verður önnur ályktun dregin af því en sú, að Lúðvík Jósepsson telji óhjákvæmilegt að leyfa veiðar erlendra skipa innan landhelginnar að einhverju marki.“

Nú hefur þingfréttaritari Tímans, Alfreð Þorsteinsson, ekki aðstöðu til þess að svara fyrir sig hér í þingsalnum og af þeim sökum veigra ég mér við því sem gamall fréttamaður — ég vann við fréttir í 25 ár — að gefa honum einkunn við hæfi fyrir þetta starf. En ég skírskota til hv. alþm. um það, hvort þeir hafi dregið þá ályktun af ræðu Lúðvíks Jósepssonar í gær að hann teldi að leyfa ætti útlendingum veiðar í fiskveiðilögsögunni og nefnt 100 þús. tonn til stuðnings þeirri skoðun sinni.

Við göngum út frá því sem vísu, að fréttaritarar blaðanna ljái frásögnum af umr. hér á Alþ. nokkurn lit af pólitískum skoðunum húsbænda sinna. Undan því kvörtum við ekki. En það verður tæpast þolað mótmælalaust að málgagn utanrrh. og dómsmrh. fari með rakalaus ósannindi í frásögnum af umr. á hv. Alþ. þegar rætt er um landhelgismálið á þessum tíma.

Nú vil ég hvorki kalla þann blaðamann, sem hér um ræðir, neinum ónefnum vegna hugsanlegs skorts á almennu siðgæði né heldur draga greind hans í efa. Ég ítreka það að ég kalla hann hvorki siðlausan ósannindamann né fífl. En ég vil beina þeirri hugmynd til hæstv. forseta hvort ekki komi til greina að æskja þess við þá, sem ráða menn til að segja fréttir af umr. á hv. Alþ., að þeir setji til þess fólk með góða meðalgreind, svo að þm. þurfi ekki að haga orðum sínum með sérstöku tilliti til bjána.