13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Eins og flestum hv. þm. mun kunnugt er stjórn á fjármálum ríkisins heldur bágborin um þessar mundir. Útlit er fyrir að ríkissjóður komi út með miklum halla á þessu ári, og skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hefur vaxið gríðarlega. Láta mun nærri að ríkissjóður og ríkisstofnanir séu nú búin að herja út úr Seðlabankanum um 8100 millj. kr., en þessi óvenjulega og ábyrgðarlausa seðlaprentun á að sjálfsögðu sinn þátt í hinni miklu verðbólgu sem gengið hefur yfir. Nú eru uppi áform um að bæta stöðu ríkissjóðs, en eina úrræðið, sem núv. ríkisstj. virðist láta sér til hugar koma, er að skera niður útgjöld ríkisins til ýmissa nauðsynjamála sem alls ekki þola niðurskurð. Þannig er nú áformað að minnka lífeyrisgreiðslur til aldraðra, þó að staðreyndin sé að engin þjóðfélagshópur hefur farið jafnilla út úr viðskiptum sínum við núv. ríkisstj. og einmitt gamla fólkið og aðrir þeir sem rétt eiga á greiðslum almannatrygginga. Byggingu skólamannvirkja og sjúkrahúsa, sem víða er þegar orðin langt á eftir áætlun, á nú að seinka eða fresta til að bæta fjárhagsstöðu ríkissjóðs. En á sama tíma og þessi ósköp dynja yfir ætlar ríkisstj. að fleygja 800 millj. kr. í tollalækkanir nú um áramótin til að greiða fyrir innflutningi erlendra vara frá EFTA og Efnahagsbandalagslöndunum, þrátt fyrir mikil neyðaróp Seðlabankans um gjaldeyrisskort og þrátt fyrir það að efnahagsbandalagslöndin hafa neitað að lækka sína tolla. En það sem verra er er þó það, að stjórnendur ríkisfjármála virðast algerlega lokaðir fyrir því að unnt sé að auka tekjurnar til að mæta aðsteðjandi fjárþörf.

Það er staðreynd að tekjur, sem á þessu ári nema tugum þús. millj. kr., eru alls ekki skattlagðar vegna þess að meirihl. Alþ. fékkst ekki til þess á s. l. vetri að breyta skattalögunum eins og með þurfti. Ég hef fullyrt og fullyrði enn að vegna hinna fáránlegu ákvæða um skattlagningu fyrirtækja nemi tap ríkissjóðs á þessu ári milli 3 og 4 þús. millj. kr. Til viðbótar kemur tap ríkissjóðs af litlum skattgreiðslum einstaklinga sem hafa tekjur sínar af eigin rekstri. Þar er einnig um stórfellt tekjutap að ræða sem sjálfsagt nemur á annað þús. millj. kr. Til samanburðar er rétt að geta þess að allir einstaklingar í landinu greiða samtals um 4 400 millj. kr. í tekjuskatt á þessu ári.

Við alþb.-menn vöruðum við því á s. l. vetri að yrði tekjuskattslögunum ekki breytt yrði óréttlætið í þessum efnum meira en nokkru sinni fyrr. En aðvörunum okkar var ekki sinnt. Nú hef ég lagt hér fram þáltill. þar sem enn er reynt að knýja fram breyt. á tekjuskattstögunum. Till. þessi fjallar um endurskoðun fyrningarákvæða, hámark vaxtafrádráttar og áætluð lágmarkslaun þeirra sem hafa tekjur sínar af eigin rekstri.

Í fskj. með þessari þáltill. er birtur listi, sem ég hef tekið saman til skýringar og unninn er upp úr skattskrá Reykjavíkur fyrir 1975. Þetta er listi yfir öll stærri fyrirtæki í Reykjavík sem ekki þurfa að borga tekjuskatt á þessu ári. Eins og hv. þm. sjá, ef þeir fletta þessum lista, er hann býsna langur. Hér eru á blaði flest stærstu og voldugustu fyrirtæki landsins, samtals 432 félög. Hér eru þó aðeins meðtalin fyrirtæki, sem rekin eru í nafni einstaklinga, og ekki félög utan Reykjavíkur eða þau sem hafa litla veltu. En samanlögð er áætluð velta þessara skattlausu fyrirtækja yfir 20 þús. millj. kr. Það er tvöfalt hærri upphæð en í fyrra þegar sams konar könnun var gerð, enda eru skattlaus félög í Reykjavík nærri því tvöfalt fleiri nú en í fyrra, en þá voru þau 240.

Þar sem listinn yfir þessi skattlausu fyrirtæki er það langur að hætt er við að hv. þm. gefist fljótlega upp við lesturinn þykir mér rétt að telja upp nokkur þau fyrirtæki sem bersýnilega hafa mesta veltu og stærst umsvif.

Efst á þessum lista verða tvö fyrirtæki með yfir 900 millj. kr. veltu, en það eru Eimskipafélag Íslands og Hekla hf. Þá koma Samvinnutryggingar með yfir 800 millj. kr. veltu og Kristján Ó. Skagfjörð hf. með um 700 millj. kr. veltu. Með yfir 600 millj. kr. veltu eru fyrirtækin Hafskip hf., Íslenskt Verktak hf., Silli og Valdi sf., Sláturfélag Suðurlands og Veltir hf. Önnur skattlaus fyrirtæki með veltu sem nemur 100–500 millj. kr. eru: Almenna bókafélagið, Bræðurnir Ormsson, Bifreiðar og landbúnaðarvélar, Endurtryggingarfélag Samvinnutrygginga, Brunabótafélag Íslands, H. Benediktsson hf., Hagtrygging hf., Hampiðjan hf, Eggert Kristjánsson & Co., Egill Vilhjálmsson hf., Fóðurblandan hf., Hótel Esja, Hótel Saga, Íslensk endurtrygging, J. Þorláksson og Norðmann hf., Mjólkurfélag Reykjavikur sf., Mjólkursamsalan, Penninn, Samábyrgð ísl. fiskiskipa, Samband ísi. samvinnufélaga, Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan, Sindrastál, Smjörlíki, Stefán Thorarensen, Steypustöðin, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Togaraafgreiðslan, Útgarður, Vífilfell og Völundur, timburverslun. Alls eru þetta sem sagt 39 fyrirtæki, sem ég hef hér nefnt sem mæla veltu sína í hundruðum milljóna, en borga ekki eina krónu í tekjuskatt.

Listi yfir félög, sem velta tugum og hundruðum milljóna og borga mjög lítinn tekjuskatt, en þó einhvern, þannig að þau komast ekki á þennan lista, sá listi hefur enn ekki verið gerður, en hann væri áreiðanlega ekki ófróðlegri yfirlestrar.

Ég hef nýlega nefnt hér á Alþ. eitt slíkt fyrirtæki sem dæmi. Það er Ármannsfell hf., margfrægt fyrirtæki sem hafði 275 þús. kr. í álagðar hreinar tekjur á s. l. ári, en hafði þó veltu upp á 236 millj. kr.

Ég mun nú snúa mér næst að því að gera grein fyrir því hvernig í ósköpunum á því stendur að fyrirtækin geta gert sig svo tekjulítil eða tekjulaus, sem raun ber vitni áður en að skattálagningu kemur. Aðferðirnar til að ná þessu marki eru að sjálfsögðu fjölmargar, bæði löglegar aðferðir og ólöglegar, en hér mun þó einungis fjallað um löglegar leiðir.

Áður en vikið er að aðalaðferðunum sem þáltill., sem hér er til umr., fjallar um er rétt að gera grein fyrir örfáum aðferðum sem hafa sérstöðu. Nefna má sem dæmi að mörg fyrirtæki hafa í hendi sér að mela vörubirgðir á lágu verði og með þessum hætti geta þau velt á undan sér mjög miklum tekjum. En það er að sjálfsögðu mjög hagkvæmt gagnvart skattayfirvöldum á slíkum verðbólgutímum eins og við lifum nú. Skyld aðferð þessari er sú aðferð sem tryggingafélögin nota meira eða minna eftirlitslaust, en það er heimild þeirra samkv. 17. gr. skattalaganna til þess að leggja til hliðar vegna ógreiddra tjóna eða bótagreiðslna. Þannig er vitað að tryggingarfélög geta skotið undan miklum tekjum sem oft eru ekki skattlagðar fyrr en löngu síðar. Þær eru að sjálfsögðu skattlagðar fyrr eða síðar, en verði um langan tíma að ræða, sem líður frá því að tekjurnar verða til og þar til skatturinn er álagður, þá er að sjálfsögðu um mikinn hagnað að ræða vegna þess að krónurnar hafa orðið verðminni í millitíðinni. En við skulum sleppa þessum sérstöku aðferðum sem að vísu eiga við býsna mörg fyrirtæki og þá sérstaklega sú aðferð að meta vörubirgðir lágt.

Aðalaðferðirnar til að sleppa undan að greiða tekjuskatt byggjast á heimildum skattalaganna sjálfra og þar ber einkum að nefna fjórar leiðir.

Í fyrsta lagi má nefna heimild í 17. gr. skattalaganna, sem fyrirtæki hafa, til að leggja í varasjóð 25% af hreinum tekjum félaganna áður en tekjuskattur frá árinu áður hefur verið frá dreginn. Þessi fjórðungur tekna er sem sagt skattfrjáls með öllu. Þess má geta hér að í svari fjmrh. við fyrirspurn hv. þm. Geirs Gunnarssonar á s. l. vetri kom fram að árið 1974 hefðu félög, —- þá er átt bæði við hlutafélög og aðrar félagseiningar sem með rekstur hafa að gera, þessi fyrirtæki höfðu dregið frá hreinum tekjum sínum, áður en skattur var á lagður, 511 millj. kr. á þessu eina ári. Nú er skattgjaldstofn félaga 53% og má því ætla að ríkissjóður hafi með þessu heimildarákvæði einu látið af hendi 271 millj. kr. til félaga á árinu 1974 og 781 millj. á 4 árum á tímabilinu 1971–1974. Því miður liggja ekki fyrir upplýsingar um notkun þessarar heimildar á árinu 1975, en vafalaust er þar ekki um lægri fjárhæðir að ræða en á árinu á undan.

Í öðru lagi ber að nefna almennar fyrningarreglur. Hámark fyrningar, er eins og kunnugt er, 15% á ýmsum tegundum lausafjár, þ. á m. vinnuvélum og flutningatækjum, svo sem skipum og vöruflutningabifreiðum, 12,5% á öðru lausafé, en af fasteignum frá 2 og upp í 8% eftir gerð byggingarefnis fasteignanna og tegundum þeirra. Þannig eru lægstar fyrningar á steinsteyptum verslunar- og skrifstofuhúsum, hæstar á verksmiðjum og verkstæðum eða vörugeymslum sem byggðar eru úr lítt varanlegu efni, eins og tré eða málmum. Ef við á annað borð viðurkennum þá hugsun sem liggur að baki almennum afskriftarreglum að eigendur eigi að geta lagt til hliðar á hverju ári nokkra fjárhæð sem ekki sé skattlögð og þannig safnist í sjóð jafnvirði eignarinnar á sama tíma og hún gengur úr sér eða verður ónýt, þá verð ég að játa að mér sýnist að þessar almennu fyrningarreglur séu í grófum dráttum ekki óhæfilegar, þ. e. a. s. 12–15% fyrir eignir, sem ekki hafa áætlaðan endingartíma nema 6–8 ár, en miklu lægri fyrir varanlegri eignir. Þó virðist mér augljóst að hæpnastar séu þessar almennu fyrningarreglur varðandi skip. Skip endast, eins og kunnugt er, að öllu jöfnu í 15–24 ár og eru yfirleitt í miklu hærra verði þegar þau eru seld eftir 4 ár, a. m. k. heldur en þegar þau voru keypt, og kemur þar fyrst og fremst til verðbólguauki.

Atvinnurekendur hafa löngum kvartað yfir því að vegna verðbólgunnar væri endurnýjunarverðmæti eignanna langtum hærra, þegar framleiðslutæki væri endurnýjað, en numið hefði upphaflegu kaupverði og fyrningarverðinu á notkunartímanum og þar af leiddi að þeir bæru skarðan hlut frá borði. Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram að þessi umkvörtun atvinnurekenda sé ekki að öllu leyti rökrétt. Flest atvinnufyrirtæki eru, eins og kunnugt er, keypt fyrir lánsfé a. m. k. að hálfu leyti og oft að 70–90%. Það er að sjálfsögðu ekki rökrétt að fyrirtæki fái aðstoð úr ríkissjóði til þess að fyrna þann hluta af eignum sínum sem er keyptur fyrir lánsfé, enda má að sjálfsögðu ætla að þegar atvinnurekandi kaupir næst atvinnutæki fái hann hlutfallslega ekki minna lánsfé en hann fékk í hið fyrra sinn og hann þurfti því raunverulega aðeins að fyrna eignarhluta sinn í atvinnutækinu. Þannig fyndist manni a. m. k. að löggjafinn ætti að lita á málið, en svo er ekki eins og kunnugt er.

Þá er ég kominn að þriðju stóru skattaívilnunarreglunni sem einmitt snertir þetta atriði, en það er reglan í 15. gr. skattalaganna, 6. mgr., um svonefndan verðhækkunarstuðul sem svari til hinna almennu verðbreytinga er átt hafa sér stað á skattárinu. Í 15. gr., 6. mgr., segir að verði almennar verðbreytingar til hækkunar á eignum sé skattþegni heimilt að fyrna slíkar eignir sérstakri óbeinni fyrningu sem skuli reiknuð af krónutölu þeirra fyrninga sem hann notaði á árinu og skuli hún ákveðin eftir verðhækkunarstuðli sem svari til hinna almennu verðbreytinga sem átt hafa sér stað á skattárinu. Samkv. þessu ákvæði ákvað hæstv. fjmrh. með auglýsingu nr. 381 1974 að verðhækkunarstuðull fasteigna á árinu 1974 skyldi teljast 60% af fasteignum og 70% af lausafé. Þetta eru langsamlega hæstu tölur sem hafa verið ákveðnar í samhandi við verðhækkunarstuðulinn, og til samanburðar má nefna að á árinu 1973 var verðhækkunarstuðullinn 10%. Eftir allharða gagnrýni sem fyrningarreglur sættu á Alþ. í fyrravetur gerði hæstv. fjmrh. ofurlitla bragarbót á þessu ákvæði með því að í lögum um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara, eins og frv. hét á sínum tíma og lögin eftir að þau tóku gildi, þau tóku gildi í aprílmánuði s. l., þá var ákveðið m. a. að við álagningu tekjuskatts fyrir skattárið 1974 skyldi þessi heimild, sem ég hef nú hér gert að umtalsefni, takmörkuð við 70% af þeirri hækkun sem ákveðin var með verðhækkunarstuðlum þeim sem fjmrn. auglýsti 23. des. 1974, eins og komist var að orði í ákv. til brb., e-lið, þessara laga. Þessi breyting á verðhækkunarstuðlinum þýddi það að verðhækkunarstuðullinn fyrir lausafé varð 49% í stað 70% áður, og þessi breyting hefur þær afleiðingar að fyrning á lánsfé, sem ella hefði að hámarki náð 15%, gat orðið 22.35% að þessu viðbættu.

Fjórða verulega skattaívilnunarreglan í þágu atvinnurekstrarins er í skattalögunum í d-lið 15. gr„ og hún kveður svo á að til viðbótar fyrrnefndum fyrningarreglum sé heimilt að fyrna eignir um 30% af heildarfyrningarverði þeirra á 5 árum eða um 6% á ári. Þetta er hin margumrædda flýtifyrning og hún er komin inn í löggjöfina árið 1971. Þetta var eitt af seinustu verkum viðreisnarstjórnarinnar sálugu og þá var heimildin ótakmörkuð, hún gat orðið allt að 30% á einu ári, en í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar kröfur voru uppi m. a. af hálfu Alþb. að þessi heimild yrði með öllu afnumin, varð niðurstaðan að flýtifyrningin var bundin að hámarki við 6% á ári hverju.

Eins og ég hef þegar tekið fram bætist þessi fyrningarheimild við allar fyrri afskriftaheimildirnar, sem ég hef nú rætt um, og því má sjá af þessum tölum að fyrning mjög margra eigna, þ. á m. vinnuvéla, bifreiða, krana, skipa, bæði fiskiskipa og flutningaskipa, og sem sagt annars lausafjár, getur orðið hæst 28.35% á einu einasta ári. Afleiðingin verður sú að vel er hugsanlegt og beinlínis líklegt að lausafé sé í mjög mörgum tilvikum að fullu fyrnt á 4 eða 5 árum.

Nú kynnu menn að segja að þetta kunni allt að vera gott og blessað og ekki sé kannske hægt að neita þessum tölulegu staðreyndum sem teknar eru beint upp úr löggjöf okkar. En þá skjóta menn því fram á móti að þegar 5 ár séu liðin og atvinnurekandinn sé búinn að hagnýta sér til fulls allar þessar fyrningarheimildir, þá sé hann búinn að taka út allan þann forða, sem hann hafði af að taka, og nú verði hann loksins að sæta því að fá engar afskriftir á eignir sínar á árunum sem fylgja í kjölfarið og hann fari því loksins eftir nokkurra ára skeið að borga mikla skatta og standi sem sagt algerlega berskjaldaður gagnvart tekjuskattsálagningunni, svo fremi hann hafi ekki verið búinn að hlaða einhverri nýrri fjárfestingu utan á þær eignir sem fyrir voru. En þá skal hér fram tekið að þetta er hinn mesti misskilningur. Ef eignin, sem búið er að afskrifa, er þess eðlis að auðvelt er að selja hana, þá á atvinnurekandinn enn einn leik á borði.Hann þarf ekki annað en að selja eignina og kaupa sér aðra eign jafnverðmæta eða dýrari, og þá gildir það að hvort sem þessi eign, sem hann kaupir í staðinn, er notuð eða ný, þá heimilast honum að byrja afskriftirnar á nýjan leik af fullum krafti eins og ekkert hafi í skorist.

Ég spurðist fyrir um það fyrir einu ári hjá skattayfirvöldum hvort það væri virkilega hugsanlegt að tveir útgerðarmenn, ef tekið væri dæmi, sem báðir hefðu eignast fiskiskip fyrir t. d. 150 millj. kr. hvor um sig fyrir fáeinum árum og báðir hefðu afskrifað skip sín á 4–5 árum allt að 90% og þannig sloppið hugsanlega við að greiða tekjuskatt sem nemur 135 millj. kr. hvor fyrir sig, — hvort það gæti virkilega verið að þessir menn kæmust upp með að hafa bara einfaldlega skipti á skipum í þeim tilgangi að geta byrjað að afskrifa hvor um sig sitt skip á nýjan leik. Ég spurði ríkisskattstjóra um þetta og ég fékk það svar að ekkert væri því til fyrirstöðu að þetta gæti gerst, ekki væru lögin því til fyrirstöðu a. m. k. því að samkv. e-lið 7. gr. skattalaganna um skattskyldan ágóða af sölu fyrnanlegs lausafjár er skattskyldan aðeins bundin við 4 ár. Sá, sem ætlar að leika þennan leik, þarf því ekki annað en að biða í 4 ár með að selja skipið og skipta á því við einhvern annan. Eftir 4 ár er hann búinn að fyrna fyrra skipið um 90% og þá getur hann skipt og byrjað svo af fullum krafti að fyrna næsta skip sem væntanlega er þá allmiklu dýrara en það fyrra.

Kjarni málsins er sá að seljandi skips þarf ekkert að greiða í skatt af söluhagnaði eftir 4 ára eignarhald. Nú mun einhver skjóta því fram að ekki sé þetta alls kostar rétt hjá mér því að lögum samkv. eigi hann að greiða skatt af flýtifyrningunni, sem er 30% af þessum 90% sem maðurinn er hugsanlega búinn að fyrna, og hann eigi að skila til baka þeim skattaívilnunum sem liggi í því að hann hafi notað flýtifyrninguna til þess að sleppa við skattgreiðslu. Þannig er þetta einmitt hugsað í ákvæðinu sem snertir flýtifyrninguna. En ég verð enn að hryggja menn með því að þetta er samt sem áður ekki svona. Það er nefnilega séð fyrir því í enn einni smugu skattalaganna að viðkomandi maður þurfi ekki að standa nokkurn tíma skil á þessum skatti sem snertir flýtifyrninguna. Hann þarf ekki annað en að kaupa nýja eign, í þessu tilviki annað skip sem væntanlega er í verðbólguþjóðfélagi miklu, miklu dýrara en skipið sem hann var að fyrna, og þá heimilast honum að láta þær afskriftir, sem hann átti að greiða skattinn af, ganga upp í nýjar fyrningar sem geta numið, eins og ég hef áður sagt, allt að 28,35% á árinu 1975. Þegar verðbólgan er eins mikil og hún er þessi árin er því harla ólíklegt að viðkomandi maður borgi nokkurn tíma nokkurn skatt, ekki heldur af flýtifyrningunni.

Þessi fáránlegu fyrningarákvæði verða að sjálfsögðu enn fáránlegri í ljósi þess, sem ég hef áður nefnt, að lánafyrirgreiðsla til skipakaupa er 85–90% og lánin eru veitt til allt að 18 ára, meiri hlutinn af lánunum til 18 ára. Eftir 4 ár, þegar skipið er að fullu fyrnt, hefur eigandinn sjálfur greitt um það bil 30–34% af andvirði skipsins. Þá selur hann skipið, og það er engin tilviljun að það er mjög algengt, næstum því að segja regla, að menn selji skip sín eftir 4–5 ár. Skýringuna þarf ég ekki að nefna, ég hef þegar nefnt hana. En þegar hann selur skipið hefur hann sem sagt þegar greitt 30–34%. Afgangurinn af andvirði skipsins er í raun og veru eign opinberra sjóða, en samt sem áður hefur útgerðarmaðurinn, áður en hann selur skipið, fengið tækifæri til þess að fyrna einnig þann hluta skipsins sem hann raunverulega á ekkert í.

Ég orðlengi ekki frekar um þennan fáránleika allan. Reglur um álagningu tekjuskatts á fyrirtækin eru mikið hneyksli og afleiðingin er sú að tekjur ríkissjóðs af atvinnurekstri eru mjög óverulegar, eru aðelns tæpar 1000 millj. kr. af samanlögðum skatttekjum sem nema um 57 þús. millj. kr. á fjárlagafrv. fyrir 1976. Það er því augljóst að hlutfall gjalda atvinnurekstrarins af tekjum ríkissjóðs fer stöðugt minnkandi.

Í þeirri þáltill., sem hér er til umr. er ekki aðeins fjallað um skattgreiðslur félaga heldur einnig um tekjuskatt einstaklinga. Að undanförnu hafa heyrst miklar kvartanir um óréttláta álagningu tekjuskatts. Það, sem fyrst og fremst hefur stungið í augu, er hvað þeir aðilar, sem einhvern rekstur hafa með höndum, sleppa vel frá greiðslu tekjuskatts. Skýringarinnar hef ég þegar getið að nokkru leyti og þar á ég við fyrningarreglurnar. Það er sem sagt staðreynd að aldrei fyrr hafa verið leyfilegar jafnmiklar fyrningar og einmitt á þessu ári sem nú er að líða. En í öðru lagi hafa meðalvextir í þjóðfélaginu verið hærri á þessu ári en sennilega nokkru sinni fyrr. Rekstraraðilar hafa því haft óvenjulega háa frádráttarliði við álagningu tekjuskatts að þessu sinni og þeir eru því mjög skattlitlir ef ekki skattlausir. Víða úti um land hefur athygli manna sérstaklega beinst að einstaklingum sem reka fyrirtæki á eigin ábyrgð. Þegar reksturinn skilar tillitlum hagnaði, m. a. vegna fyrningarákvæða skattalaga, eru einstaklingum reiknaðar að sama skapi tillitlar tekjur. Í því tilviki er því um hvort tveggja að ræða, að hvorki reksturinn né einstaklingurinn borgar skatt. Þetta er afar ranglátt og óheilbrigt, enda þarf auðvitað enginn að efast um að í flestum slíkum tilvikum hafa laun verið greidd þrátt fyrir allt, hvað sem bókhaldinu líður. Ekki lifa menn á loftinu einu saman. Þegar þannig stendur á er því óhjákvæmilegt að fela skattstjóra að áætla mönnum laun. Og það er einmitt það sem gert er ráð fyrir í e-lið þeirrar þáltill. sem hér er til umr.

Annað nauðsynlegt úrræði til þess að tryggja eðlilegar skattgreiðslur til ríkissjóðs er að settar verði nýjar reglur um leyfilegan frádrátt frá tekjum vegna vaxtagreiðslna. Um þennan frádráttarlið á skattframtali má margt segja, og vafalaust kemur til álita, þegar skattalögin verða einhvern tíma síðar meir gerð einfaldari og komið verður á staðgreiðslukerfi skatta, að þá verði þessir mörgu frádráttarliðir felldir niður og skattprósentan lækkuð að sama skapi. Eins er ljóst að á miklum verðbreytingatímum, verðbólgutímum, er réttmæti skattfrádráttarins vegna vaxta mjög hæpið og umdeilanlegt.

Í þessari þáltill., sem ég er að mæla fyrir, er ekki gert ráð fyrir því að vaxtafrádrátturinn verði með öllu felldur niður. Í till. er ríkisstj. falið að undirbúa lagafrv. um breyt. á tekjuskattslögum sem m. a. feli það í sér að því verði takmörk sett hve mikla vexti megi draga frá tekjum, þannig að hámark vaxtafrádráttar sé ákveðið árlega með hliðsjón af meðalvöxtum í þjóðfélaginu, almennu íbúðaverði og fjölskyldustærð viðkomandi skattþegns. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að þeir, sem hafa stofnað til skuldar vegna venjulegra íbúðakaupa, fái áfram að draga frá eðlilega, venjulega vexti sem þeir hafa stofnað til vegna slíkra kaupa. Hugsunin er sú, að settar yrðu eitthvað svipaðar reglur og eru í gildi varðandi lán húsnæðismálastjórnar í þessu sambandi.

Herra forseti. Í framsöguræðu fyrir fjárlögum 1976 vék hæstv. fjmrh. að þeim málum sem þessi till. fjallar um, þ. e. a. s. að ákvæðum um fyrningu eigna í atvinnurekstri, að skattmeðferð söluhagnaðar af eignum og álagningu tekjuskatts á einstaklinga sem reka atvinnufyrirtæki fyrir eigin reikning, eins og hæstv. fjmrh. sjálfur orðaði þessi atriði. Hann viðurkenndi í þessari ræðu að núverandi lagaákvæði hefðu sætt mikilli og vaxandi gagnrýni, en hann vildi þó engum úrbótum lofa fyrr en við álagningu skatta 1977. Hæstv. fjmrh. ætlar sem sagt að láta hneykslið endurtaka sig einnig á næsta ári, og hann eða flokkur hans þarf því ekki að óttast reiði þess hluta stuðningsmanna sinna sem myndar kjarna þess flokks. Þeir, sem njóta þeirra einstöku hlunninda að hafa miklar tekjur, en greiða af þeim lítinn eða engan skatt, eiga sem sagt að fá að gera það áfram a. m. k. eitt ár í viðbót. Hver verður svo fjmrh. á skattárinu 1977 og stjórnar álagningu skatta það er að sjálfsögðu spurning sem enginn getur svarað í dag.

Herra forseti. Þótt svo virðist að hæstv. fjmrh. og flokkur hans ætli að halda dauðahaldi í hin fáránlegu fyrningarákvæði og aðra verstu vankanta skattalaganna þykir mér satt að segja ótrúlegt að meiri hl. Alþ. sé sama sinnis. Þess vegna er þessi till. borin hér fram, og ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að þessari till. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjvn.