13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

237. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv. var lagt fyrir Ed. og hefur verið afgreitt þaðan. Aðalefni þess er að rýmka heimild til þess að greiða aukaframlag úr Jöfnunarsjóði og stendur það í sambandi við frv. sem samþykkt var hér fyrir jól. Það frv., sem varð að lögum, fjallaði um flutning nokkurra verkefna og gjalda og tekjuliða frá ríki til sveitarfélaganna. Í því sambandi kom til orða að sum sveitarfélög teldu að þau mundu verða fyrir meiri útgjaldaauka heldur en tekjuauka næmi af þeim lögum, og var því þá lýst yfir í þeim umr. að yrði eitthvert sveitarfélag fyrir tjóni vegna þessara laga, þá mundi það verða bætt úr Jöfnunarsjóði í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Aðalefni þessa frv. er því að fullnægja þessu fyrirheiti og kemur það fram í 1. gr. þessa frv.

2. gr. þessa frv. fjallar svo um nokkra breytingu á ákvæðum laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga varðandi fólksfækkunarframlag.

Þetta frv. var einróma samþ. í hv. Ed. Ég vænti þess, að það fái jafngóðar undirtektir hér, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og félmn.