13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4174 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

238. mál, ferðamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 728 er frv. til l. um ferðamál og skipulag þeirra eins og það er eftir 3. umr. í Ed. Í hv. Ed. var þetta frv. lagt fram og gerði ég þá grein fyrir helstu breytingum sem í því eru frá eldri lögum og einnig frá þeim frv. sem áður hafa verið lögð fram á hv. Alþ. um ferðamál. En eins og kunnugt er ber mikla nauðsyn til þess að setja lög um ferðamál eins og þau ern farin að vera stór þáttur í nútímaþjóðfélagi.

Helstu breytingarnar í þessu frv. frá þeim frv., sem hafa verið hér til meðferðar, eru að gera yfirstjórnina einfaldari og málin einfaldari heldur en þau hafa áður verið. Ferðamálaráðið er nú æðsta vald fyrir utan samgrn., sem fer með yfirstjórn þessara mála, um stefnumótun í sambandi við ferðamál í landinu, og er með þessu frv. aðskilin starfsemi þess og Ferðaskrifstofu ríkisins. Ferðamálaráð skipa auk ráðh. þeir aðilar sem fást við ferðamál hér á landi og einnig er gert ráð fyrir því að ef fleiri Flugfélög en Flugleiðir verða hér mynduð sem mynda með sér samtök, þá geti þau fengíð fulltrúa í þessu ráði.

Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir því hver séu verkefni ferðamálaráðsins, en það er skipulagning og áætlunargerð um íslensk ferðamál, Íandkynning og fleiri þess háttar þættir.

Ég vil vekja athygli á því í sambandi víð Ferðamálaráð og þessa starfsemi, að þá er tekið upp það sem leitað hefur verið eftir áður fyrr, annars vegar að Náttúruverndarráð er orðið aðili að Ferðamálaráði og einnig Félag ísl. leiðsögumanna, en það fólk hefur einnig leitað eftir því að fá aðild að Ferðamálaráðinu.

III. kafli frv. fjallar svo um Ferðaskrifstofu ríkisins og starfsemi hennar og er fyrst og fremst miðað við að hún reki starfsemi til þess að fá fólk til að ferðast um Ísland og skipuleggja ferðir hér innanlands, en sé ekki að annast skipulagningu á ferðum til útlanda.

III. kaflinn er svo um almennar ferðaskrifstofur og það sem að þeim snýr. í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að það er gert ráð fyrir að tryggingarfé, sem ferðaskrifstofur verði að setja, sé 7 millj. kr. og á þriggja ára fresti skuli endurskoða þetta og færa það þá til þess verðlags sem þá er orðið. Fyrst og fremst á hlutverk þessa fjár að vera það, að ef ferðaskrifstofu ber upp á sker, þá sé notað af þessu fé til þess að koma því fólki heim aftur sem kynni að vera erlendis í ferðalagi á vegum þeirrar ferðaskrifstofu er um væri að ræða.

V. kaflinn er svo um Ferðamálasjóð. Það er rýmkað hans fjárframlag og einnig eru rýmkuð verkefni hans frá því sem hann hefur nú og gert ráð fyrir að útlánareglur hans verði svipaðar og eru hjá öðrum fjárfestingarlánasjóðum.

Þessi atriði eru meginatriði í þessu frv., auk þess sem í frv. er ákvæði um það að mega taka þátt í því með heimavistarskólum að leggja þeim til fé ef ákveðið er að hafa þar sumarhótel. Ferðaskrifstofa ríkisins mun annast þann þátt hér eftir sem hingað til og vonandi þá í enn þá ríkari mæli.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál að þessu sinni, vil hins vegar geta þess að það mun hafa farið út úr hv. Ed. shlj. Ég vonast því til að það fái svipaðan byr hér í þessari hv. d. og treysti því að það fái afgreiðslu á þessu þingi, Það er búið að vera til meðferðar á 3–4 þingum og nauðsyn ber til að koma þessu máli í fast horf.

Ég legg því til, hæstv. forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. samgn.