13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4175 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Á s.l. sumri skipaði iðnrn. 7 manna n. til þess að vinna að orkumálum Vestfjarða og kanna viðhorf sveitarfélaga á Vestfjörðum til stofnunar Vestfjarðavirkjunar. Í skipunarbréfi var vísað til ályktunar Alþ. frá 1971 um orkumál Vestfjarða, og var þessari n. falið að gera till. um hvernig staðið verði að stofnun Vestfjarðavirkjunar sem verði sameign ríkisins og sveitarfélaganna þar og hafi það verkefni að annast framleiðslu og dreifingu raforku og hagnýtingu jarðvarma í þessum landshluta. N. starfaði mjög vel að þessum málum, skilaði ítarlegri grg. sem fjallaði um hvort tveggja, sjálft skipulag þessara mála og svo yfirlit um framkvæmdir á næsta áratug í raforku- og jarðvarmamálum.

Þetta frv. fjallar um hið fyrra atriði, þ.e.a.s. sjálft skipulagið. Er gert ráð fyrir að ríkissjóði Íslands og sveitarfélögum á Vestfjörðum sé heimilt að koma á stofn orkufyrirtæki sem nefnist Orkubú Vestfjarða. Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja vatnsafl og jarðhíta á Vestfjörðum þar sem hagkvæmt þyki. Skal Orkubúið eiga og reka vatnsorkuver og dísilraforkustöðvar til raforkuframleiðslu ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar. Þá skal fyrirtækið eiga og reka jarðvarmavirki og nauðsynlegt flutningskerfi og dreifikerfi fyrir heitt vatn. Skal fyrirtækið og eiga og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi. Fyrirtækið skal annast virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni. Er gert ráð fyrir að þetta Orkubú verði sameignarfélag ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum, eignarhluti ríkisins sé 40%, en eignarhluti sveitarfélaganna samtals 60%.

Sú tilhögun, sem hér er gert ráð fyrir að verði lögfest, er í samræmi við óskir bæði Fjórðungssambands Vestfjarða, Sambands Ísl. rafveitna og Sambands ísl. sveitarfélaga.

Ég vil að öðru leyti vísa til ítarlegrar grg. með frv. Það var lagt fyrir hv. Ed. og var afgreitt þaðan. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.