13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

270. mál, ábúðarlög

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. N. hefur rætt þetta mál á fundum sínum. Meiri hl. mælir með að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl., hv. þm. Benedikt Gröndal, skilar séráliti.

Frv. til ábúðarlaga var lagt fram hér í hv. Nd. 1972, en hlaut þá ekki afgreiðslu og var endurflutt árið eftir, Frv. var þá sent til umsagnar til mjög margra aðila, t.d. til allra hreppsnefnda í sveitahreppum í landinu og til búnaðarsambanda, og bárust þá ýmsar ábendingar og brtt. sem hafa svo verið athugaðar og tekið verulega tillit til í sambandi við endursamningu á þessu frv. sem fór fram á s.l. vetri.

Þetta frv. er fyrst og fremst til þess að samræma ábúðarlög, en nú eru í gildi ábúðarlög frá 1884, frá 1933, frá 1951 og frá 1961, þannig að það veitir ekki af að samræma þessi mál og koma fyrir í einum lagabálki.

Í sambandi við endurskoðun á þessu núna var tekið mjög mikið tillit til hagsmuna leiguliða og í sjálfu sér var mjög gott samkomulag í n. Þó að hv. þm. Benedikt Gröndal skili séráliti, þá er það vegna þeirrar stefnumörkunar sem hv. þm. Alþfl. hafa tekið í þessum málum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða hér einstakar brtt. því að þessi mál eru búin að vera svo oft hér til umfjöllunar, — ekki nema sérstakar ástæður verði til þess.