13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4179 í B-deild Alþingistíðinda. (3585)

90. mál, lántökuheimild til eflingar Landhelgisgæslunni

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram snemma á þingtímanum eins og lög gera ráð fyrir þar sem hér er um að ræða frv. til l. um staðfestingu á brbl., frv. um lántökuheimild til eflingar Landhelgisgæslunnar. Frv. var rætt í fjh.- og viðskn. þessarar d. fyrir jólin og kom þá fram að allir nm. voru ákveðnir í því að mæla með því að frv. yrði samþ. Það hefur hins vegar dregist að leggja fram nál. þar sem til greina gat komið að taka inn í þetta frv. aðrar heimildir til að leysa fjárþarfir Landhelgisgæslunnar. Til þess þurfti þó ekki að koma.

Fjh.- og viðskn. flytur brtt. við frv. þess efnis, að í stað 450 millj. kr. heimildar til kaupa á gæsluflugvél fyrir Landhelgisgæsluna komi 600 millj. eða jafngildi allt að 8 millj. gyllina. Það er nauðsynlegt að hækka þessa upphæð af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að gengi gyllinisins hefur breyst, þannig að þessi upphæð ætti þess vegna að vera 470 millj. nú, en auk þess hefur ekki verið aflað heimildar til þess að greiða það sem greiða þarf þegar flugvélin verður afhent, væntanlega seint á þessu ári. Það eru 15% af kaupverðinu. Þá þarf að afla heimilda vegna 5% af kaupverðinu sem greidd voru við undirskrift samningana, Auk þess er eftir að kaupa nokkurn tækjabúnað í vélina. Þegar þetta er allt talið saman kemur út talan 600 millj. kr.

Fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþ. með þessari breytingu.