13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirra n., hv. menntmn. Nd., sem fá mun þetta mál til umfjöllunar og mun því ekki að þessu sinni, nú við 1. umr., hafa um það mjög mörg orð. Þó vil ég láta í meginatriðum álit mitt í ljós.

Það fer ekki milli mála vegna hvers þetta frv. til l. um námslán og námsstyrki er borið fram nú. Það er einfaldlega vegna þess að námslánasjóðurinn er algerlega fjárvana, og sú fjárvöntun stendur að sjálfsögðu í beinu sambandi við það að samkv. gildandi lögum er endurgreiðslukerfi sjóðsins óhæfilega slappt þannig að sjóðurinn hefur ekki fengið neitt af sínu lánsfé til baka. Eins og hv. dm. mun kunnugt um, giltu þær reglur áður að lánin voru vaxtalaus meðan á námstíma stóð eða stendur, því að enn eru þessi lög í gildi, síðan komu jafnar ársgreiðslur á allt að 15 árum með 5% ársvöxtum. Endurgreiðslur hefjast 5 árum eftir námslok, en vextir af lánunum reiknuðust frá námslokum. Það er allra manna mál og stúdenta og námsmanna sjálfra að hér hafi verið um sannkölluð gjafalán að ræða og við svo búið gæti ekki lengur staðið ætti sjóðurinn í framtíðinni að geta gegnt hlutverki sínu.

Frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir verðtryggðum, vísitölubundnum lánum, en vaxtalausum og hefjist endurgreiðslur á þriðja ári frá námslokum. Ég er ekki frá því að þessar endurgreiðslureglur um fulla vísitölutryggingu séu nokkuð ósanngjarnar miðað við hvað almennt gerist á hinum almenna lánamarkaði. Þó hygg ég að endurgreiðsluhlutfallið, jafnvel þótt það færi í 70–30%, væri ekki óeðlilegt né ósanngjarnt sé ekki of hart af þeim gengið sem einhverra hluta vegna eiga bágt með að standa í skilum. En þetta mun ég athuga nánar við umfjöllun í nefnd.

Það, sem er námsmönnum nú hvað mestur þyrnir í augum, er þetta ákvæði í 3. gr. frv., að stefnt skuli að því að námsmenn samkv. lögum fái fjárframlög sem nægja þeim til framfærslu. Ég dreg enga dul á það að ég er algerlega mótfallin því að lögbinda það ákvæði að námsmönnum skuli tryggð, hvernig sem á stendur, full framfærsla meðan á námi stendur. Þar ber margt til, auðvitað fyrst það að aðstoð hins opinbera við námsmenn hlýtur að fara eftir efnahagsástandi í okkar þjóðfélagi. Við erum örfámenn þjóð í erfiðu og strjálbýlu landi. Við eigum svo til alla okkar lífsbjörg komna undir fiskinum sem er í sjónum, og öll vitum við, hvernig ástandið í þeim málum er nú. Þarf ég ekki að fara út í það frekar, svo mikið sem um það er búið að ræða hér í sambandi við okkar landhelgismál. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd og þeirri nauðsyn að við munum sjálfir vegna hættuástands okkar meginfiskstofna þurfa að takmarka mjög eigin sókn á fiskimiðin, og það hefur verið hreyft þeirri tölu að sú takmörkun, sem við sjálf þurfum að viðhafa á þessu ári, kunni að nema um 8–9 milljörðum kr. í útflutningsverðmætum á yfirstandandi ári. Það er því skiljanlegt og sjálfsagt að við þurfum nú að gera ýmsar kannske nokkuð sársaukafullar ráðstafanir til þess að mæta þessum neikvæðu aðstæðum sem að okkur steðja.

Kjarabaráttumenn námsmanna telja að ef vel ætti að vera þyrftu lán til námsmanna að nema um 2600 millj. kr. í ár Nefnd hefur verið sem lágmarkstala til að mæta þörf þeirra um 1700 millj. Mig langar til í því sambandi að benda á að í fjárl. yfirstandandi árs nema framlög ríkissjóðs til almennra fiskihafna á öllu landinu, — þar eru landshafnir ekki meðtaldar, — framlög til fiskihafna á öllu landinu, í öðru lagi fjárframlög til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og læknisbústaða og í þriðja lagi til byggingar allra grunnskóla á landinu, þessi fjárframlög til samans nema 2452 millj. kr., þ.e.a.s. þessir þrír liðir samanlagðir til þessara nauðsynjaframkvæmda nema um 150 millj. kr. lægri upphæð heldur en sú fjárupphæð sem námsmenn telja sig þurfa svo að vel væri til framfærslu á árinu.

Násmenn eru ekki myrkir í máli um skýlausan rétt sinn til þessarar aðstoðar. Það gæti skeð að það væru sumir aðrir þegnar þjóðfélagsins sem hefðu ekki minni rétt til samfélagslegrar aðstoðar heldur en námsmenn, með allri virðingu og viðurkenningu á þeirra þörf. Ef við lítum til aldraðs fólks í landinu sem öllum ber saman um að við gerum miklu miður við en okkur bæri, þetta gamla aldamótafólk okkar sem vann hörðum höndum, sumir hverjir án þess að fá nokkurn tíma tækifæri til að ganga í skóla, hversu mikla hæfileika sem þeir höfðu til þess, — þetta fólk, sem hefur byggt upp okkar velferðarþjóðfélag, á kannske ekki síður skilið að það væri virt í einhverju af samfélaginu þeirra framlag á liðnum árum og það fengi að njóta ávaxta sinna verka í einhverju er það eyðir sínu ævikvöldi nú.

Það er staðreynd að við erum 218 þús. sálir á okkar stóra og harðbýla landi, og það eru þessar 218 þús. sálir sem þurfa að standa undir nútíma velferðarþjóðfélagi. Það hefur stundum verið talað um það sem fullkomið kraftaverk að við skulum yfirleitt geta — þó stundum með nokkrum áföllum — staðið undir rekstri þess þjóðfélags sem við rekum í dag. Því er það vitað mál að við þurfum á öllum vinnandi höndum að halda. Peningar, sem við þurfum til hinna margvíslegu samfélagslegu framkvæmda sem okkur ber skylda til að sjá fyrir, þeir peningar vaxa ekki á trjánum né heldur falla þeir af himnum ofan. Þeir eru ávextir af vinnu vinnandi fólks í landinu.

Það hefur mikið verið talað hér í kröfum námsmanna um jafnrétti til náms og öll viljum við viðurkenna það meira en í orði. Við viljum viðurkenna það í verki einnig. Ég sé ekki betur en hörðustu kröfumenn í hópi námsmanna geri kröfur um meira en jafnrétti til námsins. Þeir ætla sér að hafa áhrif á efnahag fólks í þjóðfélaginu löngu eftir að námi lýkur. Ég fæ ekki betur séð en þarna fari námsmenn út fyrir sitt verksvið með þessari kröfu sinni, sem er ein af þeirra skýlausustu kröfum, að endurgreiðslur að námi loknu skuli vera í fullum tengslum við tekjur fólks. Þetta mundi koma út þannig í raun, og það viðurkenna þeir og fara ekkert dult með, að sumir námsmenn, sem þegið hafa eðlileg námslán, gætu losnað með öllu við nokkrar endurgreiðslur á sínum lánum.

Mig langar til í því sambandi að lesa upp úr bréfi því sem alþm. fengu frá kjarabaráttunefnd námsmanna, dags. 8. maí, en þannig hljóðar kafli úr því, með leyfi forseta:

„Þar sem eina viðbáran gegn þeirri kröfu“ þ.e.a.s. að stefnt skyldi að, en ekki lögbundin full framfærsla — „var fjárskortur ríkissjóðs lýstu námsmenn sig reiðubúna til að fallast á að aukið yrði það fjárstreymi til Lánasjóðs námsmanna sem kemur í gegnum endurgreiðslur. Af hálfu námsmanna var þetta bundið því skilyrði að endurgreiðslur væru í ströngu samræmi við tekjur manna að námi loknu, þannig að þá fyrst kæmi til endurgreiðslna þegar tekjur manna færu umfram eðlilegan framfærslukostnað.“

Nú er það svo og ég vil taka undir það, að að sjálfsögðu er ekki góð atvinna og háar tekjur tryggðar með háskólanámi. Það er rétt. Það er mjög misjafnt í hvaða launaflokkum og í hvaða tekjuaðstöðu háskólamenntaðir menn lenda. En þetta sjónarmið, að námsmaður geti, ef hann er þannig innstilltur, stefnt að námi og þegið námslán' fyrir nám sem hann veit að muni ekki leiða til tekna til hans lífsframfæris, það tel ég ákaflega hættulegt sjónarmið. Að sjálfsögðu verðum við að gera ráð fyrir því að í háskólamenntun felist möguleikar til að sjá sér farborða að námi loknu. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt. Það er auðvitað ekki eingöngu háskólamenntun. Það er framhaldsmenntun hvers konar: kennaramenntun, nám í stýrimannaskóla og nám í vélskóla o.fl., svo að það er villandi, ég tek það fram, hafi ég talað eingöngu um háskólamenntun, en önnur menntun jafngild og jafnnýt kemur þar auðvitað einnig til. Mér finnst að við verðum að ætlast til og gera ráð fyrir að þeir, sem eru búnir að hljóta milljónir í námslán, ætlist til að geta endurgreitt það samfélaginu og geta orðið þjóðfélaginu að líði frekar en vera því áfram til byrði.

Ég held að í frv. sé fyllilega tekið tillit til þess að niðurfelling niðurgreiðslna geti átt fullkomlega rétt á sér. Ég vil vísa í því sambandi til vissra greina frv. Það er þá fyrst í 12. gr., en þar segir í 2. mgr., þá er raunar átt við námsstyrkina, ég kem að endurgreiðslunum seinna, en ég ætlaði að benda á þær greinar frv. sem taka tillit til sérstöðu námsmanna, en í 12. gr. segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum að dómi sjóðsstjórnar illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánaheimild má veita honum styrk úr sjóðnum, enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkv. gildandi tryggingalöggjöf.“

Hér er tekið tillit til sérþarfa námsmanna meðan á námi stendur. Framar í frv., í 8. gr., segir í 5. mgr., og sú gr. tekur til endurgreiðslnareglnanna, með leyfi forseta:

„Ráðh. getur sett reglur er heimila stjórn Lánasjóðsins að gefa undanþágur frá endurgreiðslureglum ef sérstakar ástæður eru til. Stjórn sjóðsins er og heimilt að leyfa örari endurgreiðslur sé þess óskað“

Ég held að við hljótum að fara inn á þá braut að reyna að taka til meðferðar og skoðunar mál sem flestra námsmanna með tilliti til einstaklingsþarfa heldur en veita ótakmarkað lán yfir heildina án þess að rýna eftir því sem kostur er í raunverulega þörf umsækjenda. Ég held að við hljótum að setja okkur það sem meginmarkmið að enginn námsmaður þurfi vegna fjárskorts að hverfa frá því námi sem hann hefur áhuga og vilja til að leggja stund á. Það er staðreynd að þessi almenna krafa um síaukna opinbera forsjá fær ekki staðist. Við hljótum að verða að reyna að sníða okkur stakk eftir vexti í þessu máli sem öðrum. Nú er talið að um 3000 manns séu í hópi þeirra er rétt eiga til námslána. 3000 skattgreiðendur eru ekki lítill hópur er hér dregst frá þeim hópi íslendinga sem eiga að sjá ríkissjóði fyrir fjármögnunarfé til þess að halda okkar þjóðfélagi gangandi. Enginn neitar því, og síst skyldi ég vilja gera það, að menntun er góð. Mennt er máttur, segjum við oft þegar við viljum vera dálítið háfleyg, og menntun er góð fjárfesting í sjálfu sér. Við skulum þó ekki missa sjónar á því að það gæti farið svo, að við misstum of marga af okkar ungu mönnum, körlum og konum, út í langskólanám þannig að sjálf framleiðslustörfin hefðu ekki nógan mannafla til þess að vinna það sem vinna þarf á hinum almenna vinnumarkaði.

Á árinu 1968 gerði n, innan háskólans, svokölluð háskólanefnd, könnun á fjölda háskólagenginna manna. 1968' voru rúmlega 2800 íslendingar háskólamenntaðir. Við áramót 1975–1976 var þessi fjöldi 5000, og áætlað var þegar þessi n. starfaði að um áramót 1980–1981 yrði þessi tala 7400. Þetta er mun meiri fjölgun, þ.e.a.s. með töluna 5000 í huga við áramótin 1975–1976, heldur en gert hafði verið ráð fyrir, og þetta er mun örari fjölgun heldur en t.d. bræðraþjóð okkar í Danmörku á við að búa í sínu landi. Þess vegna held ég, og tala þá hreinskilnislega, — ég held að við megum vara okkur á því að gera langskólanám það miklu fýsilegra heldur en vinnu á hinum almenna launaða vinnumarkaði að þangað flykkist óeðlilega margt fólk, jafnvel fólk sem hefur takmarkaða hæfileika og takmarkaðan áhuga til að stunda sitt nám í háskóla eða öðrum framhaldsskólum, en gerir það hugsanlega fyrst og fremst af því að ríkissjóður býður það góð lánakjör. Ég held að í þessu felist hætta sem við verðum að hafa augun opin fyrir.

En ég endurtek, og það skulu vera mín lokaorð hér: Ég tel að ríkissjóði og almenningssjóðum beri skylda til þess með lagasetningu og fyrirgreiðslu að sjá til þess að enginn íslenskur námsmaður þurfi að hætta við nám vegna fjárskorts. Það hlýtur að vera okkar meginmarkmið. Þess vegna þurfum við líka, til þess að við getum gert vel til þeirra námsmanna sem raunverulega þurfa hjálpar við, að gæta þess að reglum sjóðsins sé þannig hagað að lánin lendi á réttum stað. Ég vil benda á að það hefur verið kvartað yfir að námslánasjóðurinn væri illa mannaður, það væri ekki nokkur leið fyrir það takmarkaða starfslið, sem hann hefur yfir að ráða, að hafa æskilegt eftirlit og aðhald með lánaumsóknum og lánagreiðslum. Ég held að hæfilega ríflegt starfslið til þessa sjóðs sem væri þess umkomið að rýna betur í einstakar umsóknir og sjá um að þessi dýrmæti sjóður færi til þeirra er raunverulega þurfa hjálpar með, — ég held að sú starfsmannaaukning, sem af því kynni að leiða, mundi borga sig margfaldlega í betri og réttlátari nýtingu þeirra fjármuna sem til námslána eru ætlaðir í heild.