13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Út af þessari þáltill. vil ég segja örfá orð.

Ég vil taka undir orð hv. 12. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar, um að menn verða helst að vita um hvað þeir eru að tala ef hér eiga að vera alvöruumr. um atvinnufyrirtækin í landinu og skattamál þeirra. Því miður fyrir hv. 3. landsk. þm., Ólaf Ragnar Grímsson, hefur hann afar takmarkað vit á atvinnurekstri og þá alveg sérstaklega að mínu áliti fjármálahlið atvinnurekstrar í landinu. Það er ágætt að hafa góða menntun og gegna sínu starfi í Háskóla Íslands, en menn þurfa helst að hafa unnið úti í atvinnulífinu og fjallað um þann þátt mála, sem hér er til umr., svo að hægt sé að rökræða við þá um fyrningarreglur og skattamál almennt.

Varðandi þáltill. Ragnars Arnalds vil ég segja það, að mér finnst þessi þáltill. ekki nægilega vel ígrunduð. Það eru stórgallaðar forsendur sem hv. alþm. gefur sér þegar hann undirbýr þessa þáltill. Eins og fram kemur í grg. hjá honum, eru niðurstöður mjög ýktar og verð ég að segja að það er hörmulegt að einn af forustumönnum á Alþ. skuli koma með þáltill. og hamra á því hér í ræðum fund eftir fund, auk þess sem hann hefur túlkað mál sitt í sínu málgagni með þeim hætti sem hann gerir í grg., þegar hann er að leiða rök að því hvað skattsvik hljóti að vera mikil í landinu. Þetta er alvarlegur áburður gagnvart þeim, sem eru í atvinnulífinu, og mjög alvarlegt að leiða almenning, alþýðu landsins, út á rangar brautir í þeim efnum og gefa í skyn að stórfyrirtæki, sem raunverulega greiða sína skatta og skyldur samkv. lögum, séu hugsanlega skattsvikarar og hjálpi til við það að þrengja kjör almennings með þeim hætti sem hv. þm. hefur gefið í skyn.

Ég vil víkja að því sem kemur fram í grg. og fskj. þar sem er rætt um félög í Reykjavík sem ekki greiða tekjuskatt. Ég vænti þess að hv. þm. Ragnar Arnalds viti að t. d. fyrirtæki eins og Samband ísl. samvinnufélaga og Samábyrgð ísl. fiskiskipa, svo að einhver séu nefnd, að ég nefni nú ekki sölusamtök fiskiðnaðarins, þetta eru yfirleitt fyrirtæki sem eru þannig uppbyggð að í lok hvers árs er öllu skipt upp til aðildarfélaga þessara stóru samtaka eða fyrirtækja, þannig að sú skattgreiðsla, sem um er að ræða vegna þeirrar atvinnustarfsemi sem er á vegum þessara fyrirtækja og undirfyrirtækja þeirra, fer fram í þeim fyrirtækjum sem mynda þessar stofnanir. Það er því mjög villandi, þegar verið er að tala um heildarveltu, að draga svona fyrirtæki þar inn i. Þess vegna verð ég að segja það að mér finnst að hv. þm. hafi þarna dregið upp stórýkta og skakka mynd af þessum málum. Hins vegar tek ég undir það sjónarmið og tel það sjálfsagt, auk þess sem það hlýtur að vera skylda Alþ., að sjá til þess að skattalög séu með þeim hætti á hverjum tíma að tryggt sé að sérhvert fyrirtæki og einstaklingar greiði þá skatta og þær skyldur sem viðkomandi ber. Um það þarf að sjálfsögðu ekki að hafa langar umr. Það er þess vegna sjálfsagt að ræða um fyrningarákvæði, ræða um vaxtafrádrátt o. s. frv. og ræða yfirleitt um skattamál þannig að unnið sé að því að tryggja framgang skattalaga og innheimta skatta með eðlilegum hætti. En þá verða menn líka að gera það á réttum forsendum. Ég lýsi þess vegna stuðningi við sérhverjar hugmyndir sem miða í rétta átt í þessum efnum, en áskil mér allan rétt til þess að fara nánar ofan í það en gert hefur verið með þeirri þáltill. sem hv. þm. hefur lagt hér fram, því að það þarf að vinna betur að þeim efnisatriðum og þeim röksemdum sem eru á bak við till.

Ég tel mig einnig hafa svarað nokkuð því sem hv. 3. landsk., Ólafur Ragnar Grímsson, kom með áðan í ræðu sinni þegar hann talaði um pólitískt siðgæði, þegar hann talaði um skattleysi hundraða fyrirtækja, að hundruð fyrirtækja veltu fjármunum án þess að gjalda nokkuð til samfélagslegra þarfa. Ég hef þegar svarað því nokkuð að sú mynd, sem dregin er upp í grg. þessarar þáltill., er ekki rétt. Ég kannast ekki við það og vil ekki viðurkenna það að meginþorri þeirra, sem bera ábyrgð á atvinnurekstri á Íslandi, sé skattsvikarar og gegni ekki sinni borgaralegu skyldu sem þeim ber. Þetta eru mjög ómaklegar árásir á þá menn sem leggja það á sig og standa í því erfiði að hafa forustu fyrir atvinnurekstri á Íslandi, hvort sem um er að ræða menn í einkafyrirtækjum eða í fyrirtækjum sem rekin eru með félagsrekstri. Þetta er ómaklegt og óviðeigandi, að þannig skuli vera fjallað um þessa menn hér á hv. Alþ.

Um afstöðu verkalýðsforingja til þessara mála er þetta að segja: Það er ekkert keppikefli verkalýðsforingja að alþm. eða embættismenn ríkisins séu með gífuryrði eða till. sem ganga í þá átt að þrengja — ég segi: þrengja enn meira hag þeirra fyrirtækja sem eru í atvinnulífinu og ekki eru þjóðnýtt. Það er hagur verkalýðsins, það er hagur þeirra sem eru í forustu fyrir verkalýð, að þessi fyrirtæki hafi betri rekstraraðstöðu en þau yfirleitt hafa haft. Samningsaðstaða og möguleikar fólksins, sem vinnur í þessum fyrirtækjum, er þeim mun betri eftir því sem afkoma fyrirtækjanna er betri.

Varðandi það atriði, sem snýr að fyrningarákvæðum, er rétt að vekja athygli hv. 3. landsk. þm. á því að eftir því sem þrengt er meira að fyrningarákvæðum getur verið erfiðara að endurnýja þau atvinnufyrirtæki sem fólkið byggir líf sitt og afkomu á. Og það er rétt að hafa í huga að fyrningarákvæði eru ekki aðeins fyrir einkafyrirtæki, þau eru fyrir fyrirtæki í heild, í hvaða rekstrarformi sem þau eru. Þess vegna er það auðvitað skylda okkar, sem erum í forustu verkalýðshreyfingarinnar, að gæta þess sérstaklega að ríkið gangi ekki það langt í skattheimtu að að fyrirtækjum verði þrengt með þeim hætti að lífskjör og möguleikar fólksins sem þar starfar, versni að sama skapi.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um þessa þáltill. að svo stöddu. En ég vil taka það skýrt fram að auðvitað ber að hafa þessi mál jafnan í endurskoðun og athugun og auðvitað ber og það er sjálfsögð skylda okkar að gera þær ráðstafanir að allir greiði sína skatta og skyldur svo sem lög mæla fyrir og á eðlilegan hátt.