13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4188 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að gera að umræðuefni þá tilkynningu hæstv. forseta í upphafi fundar í dag, þegar það var tilkynnt að 1. mál á dagskrá, íslensk stafsetning, yrði ekki hér til umr., heldur mun vera ætlunin að hafa umr. um það mál að loknum fundi í Sþ. í kvöld þar sem er um að ræða útvarp frá Sþ. á almennum stjórnmálaumr. Ég skal að vísu viðurkenna að ég er ekki mjög kunnugur þingsögunni langt aftur í tímann, en ég minnist þess ekki þann tíma sem ég hef verið hér á hv. Alþ. að boðað hafi verið til fundar í þd. að loknum fundi í Sþ. þar sem útvarpsumr. hafa átt sér stað, nema þá að þar hafi verið um að ræða áframhald umr. um það mál sem útvarpsumr. var um, en ekki tekið til umr. nýtt mál.

Ég vil einnig geta þess út af þessu að fyrir aðeins örfáum dögum óskaði forsrh. eftir því við stjórnarandstöðuflokkana að þeir greiddu fyrir því að þinghaldi yrði lokið nú innan mjög stutts tíma, þ.e.a.s. ekki siðar en um miðja næstu viku. Í tilefni af því var lögð fram skrá um frv. sem hæstv. ríkisstj. óskaði eftir að næðu fram að ganga. Á þessu plaggi var ekki um að ræða — það ég vil segja — hita- og deilumál sem allmjög hefur verið til umr, hér á þingi nú síðustu daga, þ.e.a.s. íslensk stafsetning. Ég er ekki með þessu — ég vil taka það sérstaklega fram strax — á nokkurn hátt að gera tilraun til þess að bregða fæti fyrir þetta mál, að það fái eðlilega meðferð og nái fram að ganga á þessu þingi. Það, sem ég er hér aðeins að gera að umræðuefni, er það, að ef svo mikill tími fer í umr. hér á Alþ. um önnur þau mál heldur en hæstv. ríkisstj. hefur óskað eftir samstarfi við stjórnarandstöðu um að næðu fram að ganga, þá dreg ég mjög í efa að það samkomulag, sem stjórnarandstaðan hefur gert við hæstv. ríkisstj., kunni að standast, því að auðvitað vildu þm. í stjórnarandstöðu í mörgum tilvikum halda uppi umr. um ýmis þau mál að engin tímapressa væri á, en draga sig að sjálfsögðu í hlé miðað við þá ósk sem fram hefur komið.

Auk þessa vil ég mjög eindregið fara fram á þetta við hæstv. forseta vegna þess að a.m.k. að því er mig áhrærir, þá stendur þannig á að ég mun tæpast geta verið hér við umr. í kvöld eða nótt þó að ég hefði undir eðlilegum kringumstæðum ekkert haft á móti því að sitja hér eina nótt undir umr. um það mál eða önnur. En það stendur þannig á og það er í tengslum við störf hér á Alþ. sem ég á a.m.k. mjög erfitt með að vera hér og hlýða á umr. eða taka þátt í þeim í kvöld. Mér finnst að með hliðsjón af þessu sé það á engan hátt óeðlilegt að óska eftir því að þessi umr. fari ekki fram hér í kvöld eða nótt. En ef lögð er gífurleg áhersla á að þetta mál nái fram að ganga, sem ég á engan hátt skal átelja, þá getur það þýtt að ekki standist sú beiðni sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram um að þinghaldi verði lokið á þeim tiltekna tíma, þá þyrfti að taka lengri tíma til þess að ljúka þingi að þessu sinni, og að sjálfsögðu hef ég ekkert á móti því. Ég vil ekki á nokkurn hátt leggja stein í götu þess að þetta mál eða önnur fái eðlilega meðferð hér í þinginu og eðlilega afgreiðslu. En út af þessari ósk, sem hæstv. forsrh. hefur borið fram, þá dreg ég mjög í efa að það geti staðist og með því að taka svona eitt mál út úr með nokkrum forgangi a.m.k., þá getur það þýtt það að sú ósk, sem forsrh. bar fram og ég og stjórnarandstaðan, held ég, öll hefur fallist á, geti úr skorðum gengið og gæti þýtt eðlilega lengra þinghald. Ég vildi því vænta þess að hæstv. forseti sæi sér fært að verða við þeirri beiðni minni að þingfundur verði ekki hér í hv. d. að loknum fundi í Sþ. í kvöld, vænti þess að hann geti tekið þá beiðni til greina.