13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4189 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Hv. þm., sem nú kvaddi sér hljóðs utan dagskrár, lét þess getið í ræðu sinni að hann ætti sér ekki langa þingsögu að baki.Ég hef hins vegar setið á Alþ. í 30 ár og er því orðinn nokkuð kunnugur meðferð mála hér á löggjafarsamkomu íslendinga. Ég veit ekki betur — og það held ég að hv. þm. hljóti að vita líka — en að í gær hafi verið gert samkomulag um það að kvöldfundur yrði ekki á venjulegum tíma í gærkvöld, samkomulag milli hæstv. forseta d., hæstv. forsrh. og formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Alþb., Lúðvíks Jósepssonar, sem hafði mjög eindregið óskað eftir því að ekki yrði kvöldfundur á venjulegum tíma í gærkvöld, þó að slíkt tíðkist mjög á síðustu starfsdögum, jafnvel starfsvíkum þingsins. Liður í því samkomulagi var að af hálfu Alþb. mundi engin tilraun verða gerð til þess með málþófi að tefja framgang þess þmfrv. um íslenska stafsetningu sem 6 þm. flytja úr öllum flokkum nema SF. En það er alveg augljóst mál hvað vakir fyrir hv. þm. sem lauk áðan máli sínu þegar hann óskar eftir því að þetta mál verði ekki tekið fyrir á kvöldfundi í kvöld. Það er eins og hann eða hans flokkur hafi ekki átt neina aðild að því samkomulagi sem gert var milli hæstv. forseta, ríkisstj. og Alþb. í gærkvöld varðandi meðferð mála hér á þingi.

Sannleikurinn er sá, að það er að gerast í þessu máli sem aðeins örsjaldan hefur gerst á þeim þrem áratugum sem ég hef átt sæti á Alþ., að gerð er tilraun til að hindra afgreiðslu máls með málþófi. Hv. þm. sagði að hæstv. forseti væri að taka þetta mál eitt sér út úr varðandi afgreiðslu mála. Þetta er algerlega ranglátur áburður á hæstv. forseta sem hefur stjórnað meðferð þessa máls eins og meðferð annarra mála af fyllstu réttsýni. Það, sem gerst hefur, er að annar af þm. SF. fyrrv. menntmrh. Magnús T. Ólafsson, hefur beitt ótilhlýðilegu og ósæmilegu málþófi, auðsjáanlega til að reyna að tefja framgang þessa máls. Þessi framkoma af hálfu hæstv. fyrrv. menntmrh. er þeim mæta manni vægast sagt til lítils sóma. Það er augljós tilraun til þess að tefja afgreiðslu máls þegar lesnir eru upp langir kaflar úr gömlum ritum á latínu og þegar lesnir eru kaflar úr fornsögum og þeim snúið upp á þm., svo að ég nefni ekki fleiri dæmi. Þegar slíkt á sér stað er það auðsjáanlega tilraun til málþófs sem ég segi að er þeim, sem slíkt viðhafa, til lítils sóma, vægast sagt. Hér er það því ekki hæstv. forseti sem er að skapa þessu máli sérstöðu, heldur er það þessi fyrrv. hæstv. menntmrh. sem á urðu þau óskaplegu mistök í ráðherratíð sinni að breyta meira en 40 ára gamalli hefð varðandi íslenska stafsetningu. Þegar ég segi að honum hafi orðið á þau hörmulegu mistök, þá segi ég það ekki aðeins fyrir hönd okkar sem flytjum frv., heldur vitna þar einnig og vil alveg sérstaklega vitna til orða hæstv. núv. menntmrh., eftirmanns hans, sem kvaðst aldrei mundu hafa gert þessa ráðstöfun ef hann hefði verið ráðh. á þeim tíma sem hæstv. fyrrv. menntmrh. tók ákvörðunina. Í reynd er því hæstv. núv. menntmrh. sammála okkur sexmenningunum sem að flutningi frv. stöndum þó að hann telji, eins og nú standa sakir, ekki eðlilegt að hann sem ráðh. geri breytingu á gerðum fyrirrennara síns. Skal ég út af fyrir sig ekki lá honum þá afstöðu.

En það, sem gerir mál þetta að alvarlegu máli, er að fyrrv. ráðh. skuli með augljósu málþófi gera tilraun til að hindra það að þingmeirihl. fái vilja sínum framgengt. Það veit hver einasti þm., það veit nú orðið þjóðin öll að það er meirihlutavilji fyrir því í báðum deildum Alþ. að ákvörðun fyrrv. menntmrh. verði hrundið og sú stafsetning, sem í gildi var í meira en fjóra áratugi, verði tekin upp aftur. Það að þetta gerist með flutningi þmfrv. er einfaldlega vegna þess að núv. menntmrh. var of svifaseinn í viðbrögðum sínum gagnvart þeim þingvilja sem honum var ljóst á síðasta þingi að var fyrir hendi með undirskriftum 33 þm., sem allir vita að hefðu þó getað verið fleiri. Það liggur raunar líka fyrir, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur bent á hér í umr., að á því sama þingi sem fyrrv. menntmrh. gerði breytingar á stafsetningunni var ekki þingstuðningur á bak við þá ákvörðun. Meiri hl. þm. fyrir síðustu kosningar var sömu skoðunar og meiri hl. eftir kosningarnar 1974 er nú, og kom það fram í því að till. um áskorun á hann að falla frá ákvörðuninni var samþ. En hann virti þá áskorun að vettugi, vitnaði til þess að það hefði ekki verið meiri hl. þm. sem samþykkti till. Eins og þá stóð á var engan veginn hægt að draga í efa réttmætt vald ráðh. til þess að gefa út slíka ákvörðun meðan engin lög voru til um málið. En það er rétt að ég skjóti því hér inn að gefnu þessu tilefni að einn af lögfróðustu mönnum landsins hefur sagt mér að það sé mjög hæpið að á sínum tíma, 1929, þegar þáv. menntmrh. gaf út tilskipun, reglugerð, stjórnarráðsúrskurð um stafsetningu, þá hafi það verið heimilt án lagasetningar, þá hefði ráðh. átt að leita lagaheimildar fyrir gerð sinni. En síðan hefur verið lítið þannig á að hægt væri að breyta stafsetningu með einfaldri stjórnarráðsauglýsingu. Þess vegna var ég einn í þeim hópi sem á síðasta þingi staðfesti það að ég teldi menntmrh. hafa haft fullan rétt til að taka þá ákvörðun sem hann tók og vefengdi að engu leyti réttmæti ákvörðunar hans.

Úr því sem komið er, þá er ég þeirrar skoðunar að rétta afgreiðslan á málinu sé ekki sú að núv. menntmrh. breyti með annarri tilskipun þessari ákvörðun, heldur að þingvilji varðandi málið fái að koma í ljós. En það er einmitt það sem fyrrv. menntmrh. er að reyna að koma í veg fyrir, og það er háttalag sem ég minnist ekki að nokkurt fordæmi sé fyrir í 30 ára þingsögu minni. Þessi framkoma hæstv. fyrrv. menntmrh. er atburður sem á eftir að geymast í þingsögunni.

Ég skal ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Ég er forseta alveg sammála um að síendurteknar fsp. og umr. utan dagskrár umfram það sem nauðsynlegt og eðlilegt er eru ósiður sem hefur færst mjög í vöxt. Ég hef ekki staðið að slíku á þessu þingi né heldur fyrri þingum, en í þessu tilfelli hlaut ég að rísa upp til andsvara gegn stuðningi hv. ræðumanns við ósæmilegan málflutning flokksbróður hans. Og ég lýk máli mínu með því að óska eindregið eftir því að hæstv. forseti standi við úrskurð sinn um að 3. umr. um þetta mál ljúki á þessum sólarhring.