13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4196 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

91. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Virðulegi forseti. Allshn. hafði til meðferðar þetta mál. Það fjallar um það að vátryggingarfélög þau, sem fengið hafa viðurkenningu samkv. 70. gr., skuli greiða 11/2% af iðgjaldatekjum þeirra vegna lögboðinna ábyrgðartrygginga ökutækja til umferðarslysavarna og renni það til Umferðarráðs. Skulu framlög þessi greidd ársfjórðungslega og miðast við iðgjaldatekjur ársins á undan. Endanlegt uppgjör fer fram þegar ársreikningar hvers félags liggja fyrir. Það, sem á kann að vanta til þess að þessar tekjur nægi til að standa undir rekstri Umferðarráðs, greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Meiri hl. allshn. lét frá sér fara svo hljóðandi nál. á þskj. 623:

N. hefur athugað frv. þetta og umsagnir þær er borist höfðu. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Svava Jakobsdóttir og Sighvatur Björgvinsson skila séráliti. Meiri hl. n. vonast til þess að starfsemi Umferðarráðs komi að nokkru gagni og telur að þar sem auknar umferðarslysavarnir ættu að verða tryggingarfélögum til hagsbóta sé eðlilegt að þau beri af þeim nokkurn kostnað og alls ekki ástæða til þess að ætla að þau gætu rökstutt beiðnir um iðgjaldahækkanir vegna þessa gjalds. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ.

Meiri hl. n. skipa Ellert B. Schram, Gunnlaugur Finnsson, Páll Pétursson, Ingólfur Jónsson og Friðjón Þórðarson.

Ég vil undirstrika sérstaklega það sem sagði í nál., að við teljum að þetta gjald til Umferðarráðs geti ekki orðið til þess að tryggingarfélögin rökstyðji iðgjaldahækkunarkröfur sinar, vegna þess að við lítum svo á að með bættum umferðarslysavörnum ætti rekstur þeirra að verða enn blómlegri heldur en hann er núna.