13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

91. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég lít svo á að n. eigi að taka sínar ákvarðanir sjálfar. Það er að sjálfsögðu rétt að skoða umsagnir sem aflað er, en þær eiga engan veginn að ráða alfarið afgreiðslu mála hjá n. og um það hélt ég að við hv. þm. værum gersamlega sammála, því að það hefur borið við að við höfum verið sammála um það í hv. allshn. að hlaupa ekki eftir hverju kvaki sem n. kann að hafa borist.

Þar sem hv. frsm. minni hl. talaði um umsögn frá hinum tryggðu, þá vil ég taka það fram til skýringar að vörubilstjórar eru náttúrlega ekki allir hinir tryggðu. Það eru miklu fleiri sem þar er um að ræða. Hann las upp úr umsögn tryggingafélaganna. Mér var kunnugt um afstöðu þeirra. Það er hins vegar skoðun okkar í meiri hl. að þetta séu ekki rök, og þó að tryggingafélögin telji sig geta sent frá sér beiðnir um eitt og annað, þá er ekki þar með sagt að við teljum að það eigi að líta svo á að það séu haldgóð rök, jafnvel þó að þau vélriti það á pappír og sendi viðskrn. seinna meir. Spurningin er náttúrlega þessi, meginspurningin, hvort það er gagn að starfi Umferðarráðs. Við leyfum okkur að vona að það sé a.m.k. eitthvert gagn að því. Ég hef ekki kringumstæður til þess að dæma það alfarið og það er mjög erfitt að meta það tölulega. En mér líst svo á að það sé eðlilegt, ef Umferðarráð gæti stuðlað að bættum slysavörnum og aukinni umferðarmenningu, að verja til þess fjármunum. Ég sé ekkert athugavert við að nota þessa leið. Mér finnst þetta eðlilegri leið heldur en hin, að láta innheimta gjaldið til þessara mála frá vátryggingafélögunum sem vafalaust hljóta eðli málsins samkvæmt að hafa hag af því ef slysum fækkar og umferðarmenning eykst. Ef hins vegar menn fá um það staðfestan grun að það sé ekkert gagn að Umferðarráði eða lítið gagn, þá þarf þetta náttúrlega ekki að verða eilífur tekjustofn. Þá er opin leið að breyta lögunum aftur.