13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3603)

91. mál, umferðarlög

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Mér finnst þetta alveg furðuleg röksemdafærsla hjá hv. þm. Páli Péturssyni. Ég er viss um að hann trúir því ekki sjálfur sem hann er að bera á borð fyrir okkur nú. Það að vera á móti einhverri ákveðinni tekjuöflun til Umferðarráðs þarf ekki endilega að þýða það, siður en svo, að við séum á móti því að umferðarslysavarnir séu efldar. Við skulum bara taka annað dæmi. Við skulum segja sem svo að einhverjum dytti það í hug hér á hinu háa Alþ. að sendinefnd sú, sem innan tíðar mun fara til Bandaríkjanna til að skoða þar freigátur eða einhver slík stríðsskip sem ég kann ekki að nefna, taki með sér í sínu farteski andvirði einnar slíkrar stríðsfreigátu og að í því skyni yrði lagður — ja, eigum við að segja skattur á landsmenn sem mundi nema nokkrum þús. millj. kr. ef maður hefur réttar upplýsingar um verð þessara skipa. Ég býst við að það mundu einhverjir hreyfa mótmælum hér á Alþ. En ætti þá að leggja það þannig út að þeir, sem hreyfðu mótmælum við slíkri aukaskattlagningu, væru á móti því að Landhelgisgæslan væri styrkt?

Þetta er svipuð röksemd eins og að ætla að halda því fram að þeir, sem hreyfa mótmælum við því að fjár til umferðarslysavarna sé aflað með þessum hætti, séu á móti því að efla umferðarslysavarnir í landinu.

Ég sé síður en svo eftir þeim fjármunum sem Umferðarráð kemur til með að fá ef þetta frv. verður samþ. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og við í minni hl. allshn. að það eigi að fá það eins og aðrar sambærilegar stofnanir með því að fjvn. taki erindi ráðsins fyrir vegi og meti í hvert sinn hversu mikið fé Alþ. og ríkisvald geta látið í té til þessa þarfa verkefnis og hversu mikið fé Umferðarráð eigi að fá. Ég tel það vera mjög varhugavert að ætla sér að taka upp eitthvert slíkt fordæmi eins og hér er verið að fjalla um, þó að mér sé að vísu kunnugt um að þeir hafi oft verið veikir fyrir því, framsóknarmenn, að notfæra sér alls konar markaða tekjustofna, eyrnamarka bæði tekjur og útgjöld til ákveðinna þarfa þannig að Alþ. og fjárveitingavaldinu sé oft sniðinn það þröngur stakkur að það sé varla að fjárveitingavaldið geti hreyft sig innan hans. En þessu vil ég vekja athygli á og leyfa mér að mótmæla mjög harðlega að ástæðan fyrir því, að við erum á móti þessari aðferð til að auka tekjur Umferðarráðs, sé sú að við séum á móti því að efla umferðarvarnir í landinu. Þetta veit ég að hv. þm. Páll Pétursson segir meira í gamni heldur en alvöru, og skil ég að hann skuli gera það, því að ég býst við að þann málstað, sem hann styður hér, sé heldur illt að verja með öðru móti en að tala meira í gamni heldur en alvöru, vegna þess að ég held að hann sé í raun og veru sömu skoðunar og bæði við í minni hl. og Samband ísl. tryggingafélaga og eins og Landssamband vörubifreiðastjóra, að það sé og muni verða afleiðingin af samþykkt þessa frv. að nýju skattgjaldi verði velt yfir á bifreiðatryggjendur í landinu. Hvort hann er mér og öðrum sammála um að þetta sé óeðlileg og óæskileg leið til þess að tryggja stofnun eins og Umferðarráði fé, að fá þeim einhvern markaðan, nýjan tekjustofn, í stað þess að um þeirra mál sé fjallað af fjárveitingavaldinu, fjvn. og Alþ. hverju sinni, veit ég ekki, en hitt veit ég, að a.m.k. hafa þm. og þá sérstaklega þm. Sjálfstfl. oft kvartað undan því hversu mikið væri að því gert að marka einstaka tekjustofna og einstök útgjöld ákveðnum eyrnamörkum. Þykir mér það kynlegt ef þeir ætla að snúast þannig í þessu máli að snúa baki við stefnu sinni þar um til þess að koma þessu máli fram. En það þykja víst ekki lengur tíðindi á Alþ. þó að Sjálfstfl. snúi öfugt við það, sem áður hefur verið í málum sem varða fjármál eða meðferð fjármuna.