13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4200 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

91. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að allir hv. þm. séu sammála um að það þurfi að gera allar tiltækar ráðstafanir til þess að stuðla að aukinni umferðarmenningu og þó ekki síður að stuðla að því að komið verði í veg fyrir þau tíðu umferðarslys sem átt hafa sér stað að undanförnu. Ég á ekki von á að nokkur hv. þm. sé andvígur þessu. Þetta frv., sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir því að nú verði Umferðarráði fenginn ákveðinn markaður tekjustofn og þannig verði séð fyrir fjármögnun á starfsemi Umferðarráðs. Nú hélt ég, eins og hv. síðasti ræðumaður vék aðeins að, að það væri stefna Sjálfstfl. og ekki síst hæstv. núv. fjmrh. að það ætti fremur að draga úr mörkuðum tekjustofnum á fjárl. heldur en þar ætti að auka við. Mér þykir verst að hæstv. fjmrh. er ekki staddur í salnum, en ég hefði gjarnan viljað spyrja hann að því hvort það væri svo í raun og veru að þetta væri hans skoðun, hvort þetta væri allt í einu orðið leiðarljós Sjálfstfl. í sambandi við fjármálin, að auka á fjárlögum markaða tekjustofna til þess að fjármagna hina ýmsu þætti sem þar er um að ræða.

Sem sagt, ég geri ekki ráð fyrir að neinn þm. sé andvigur því að stuðla að aukinni umferðarmenningu og auknum vörnum gegn umferðarslysum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það mætti ýmislegt gera í skipulagi umferðarmála án þess að það kostaði mjög aukin útgjöld hjá ríkissjóði, með því að samræma betur en nú er þá aðila undir einum hatti sem starfa að umferðarmálum og auknum slysavörnum. Ég er þeirrar skoðunar að það séu allt of margir aðilar sem um þessi mál fjalla og auk þess að leiða af sér skipulagsleysi, þá leiði það af sér að það er meira og minna um það í sambandi við upplýsingar um umferðarmenningu að tvíverknaður eigi sér stað hjá þessum mörgu aðilum.

Það kemur fram í áliti minni hl. allshn, að umsagnir frá aðilum eins og Landssambandi vörubifreiðastjóra beri það með sér að verði horfið að þessu ráði, þá hljóti það að þýða — a.m.k. gera þeir ráð fyrir — að það hljóti að þýða hækkun iðgjalda til tryggingafélaganna. Nú eru ekki nema nokkrir dagar síðan tryggingargjöld á bifreiðum voru hækkuð, held ég um 70% frá því sem var. Ef samþykkt þessa frv. á enn að auka á það sem bifreiðaeigendum verður gert að greiða í tryggingar, þá sýnist mér vera stigið æðistórt skref til skattlagningar á eigendur bifreiða í þessu landi. Ég held að það sé enginn vafi á því að nokkur hluti af þeirri iðgjaldahækkun, sem tryggingafélögin fengu heimild fyrir nú fyrir nokkrum dögum, var óþarfur. Það er enginn vafi á því. Ef á að fara nú inn á þessa braut með lagasetningu, a.m.k. auka möguleikana, að þeir séu fyrir hendi til enn þá frekari skattlagningar í gegnum þetta kerfi á bifreiðaeigendur, í gegnum tryggingafélögin, þá held ég a.m.k. að það sé nú þegar nóg að gert og ekki á bætandi með lagasetningu eins og hér er lagt til að gert verði, auk þess sem ég a.m.k. tel að það geti verið mjög varhugavert að ganga öllu lengra í því að auka markaða tekjustofna á fjárl. Það er miklu eðlilegra að fyrir þessum fjármunum til Umferðarráðs, ef menn eru um það sammála að nauðsynlegt sé að það fái þessa fjármuni, þá er miklu eðlilegra að það sé séð fyrir því máli gegnum fjárlög að fjárveitingavaldið ákveði það hverju sinni hversu miklu skuli varið til þessara mála, heldur en hér sé um að ræða markaða tekjustofna.

Af því að hæstv. fjmrh. er nú genginn í salinn sem ekki er of títt a.m.k., svo að ekki sé meira sagt þá vil ég ítreka þá spurningu til hæstv. fjmrh. hvort það sé virkilega svo að það sé nú orðin stefna Sjálfstfl. og hæstv. fjmrh. í fjármálum ríkisins að auka markaða tekjustofna á fjárl. frá því sem þeir nú eru. Ég hef talið og mér hefur skilist að það væri stefna Sjálfstfl. að draga heldur úr eyrnamerkingum á fjárveitingum í mörkuðum tekjustofnum. En ef þessi er orðin raunin á, þá er það ekki eina dæmið líklega um að Sjálfstfl. þurfi vist á heilsuhæli, eins og einn hv. þm. flokksins orðaði það í Ed. Alþ. Þá eru að koma upp fleiri dæmi um það að hv. þm. Sjálfstfl. og foringjarnir í fjármálum þess flokks í sambandi við ríkisfjármál séu komnir svo langt út fyrir þá mörkuðu línu flokksins upphaflega að það sé ástæða til þess, kannske jafnvel fyrir stjórnarandstæðinga, að gera tilraun til þess að leiða þá á rétta braut. Það á auðvitað að vera í og með verkefni stjórnarandstöðu að gera hæstv. ráðh., hverjum sem þeir eru og á hverjum tíma, grein fyrir því, ef þeir villast á leiðinni, og gera tilraun til þess að koma þeim á rétt skrið í þeim efnum. En ég trúi því varla með tilliti til þess, sem á undan hefur gengið, að t.d. hæstv. fjmrh. greiði þessu frv. atkv. eins og það er. Þá hefur eitthvað meira en lítið breyst í stefnunni. Ég vænti þess að áður en atkv. verða greidd um þetta hér í hv. d., þá fái ég a.m.k. leiðarljósið hjá hæstv. fjmrh., hvað það er sem hefur breyst og hvort hann ætlar sjálfur að leggja út á þá braut að fjölga mörkuðum tekjustofnum á fjárl. frá því sem nú er. Ef þetta verður gert í þessu tilviki með þessu frv. og þessu málefni, þá er enginn vafi á því að það er fjöldinn allur af málefnum og málaflokkum sem ekkert síður ættu rétt til þess að fá markaðar á fjárl. tekjur heldur en þetta, þannig að það kæmi meira á eftir.