13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (3605)

91. mál, umferðarlög

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Aðeins örlítið innlegg í þær umr. sem hér hafa farið fram um þetta mál. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson tók hér dæmi áðan um stríðsfreigátur. Það er nú því miður svo að það ber allt of mikið á því að menn vilji vera með vinsælum þætti í ákveðnu máli, en gegn hinum óvinsæla þætti þar sem þættirnir fara báðir saman. Menn vilja vera með eflingu einhvers ákveðins málefnis, en vilja alls ekki standa að tekjuöflun fyrir viðkomandi málefni.

Það hefur komið fram í þessum umr. af hálfu minni hl. að menn telja að Umferðarráði beri að starfa og hafa starfsfé og það beri að veita Umferðarráði nægar tekjur á fjárl., en ekki eftir þessum leiðum. Jafnframt hefur það komið fram að með því að fara þessa leið mundu gjöldin á bifreiðaeigendur hækka. Ég geng út frá þeirri forsendu sem vísri að menn meti störf Umferðarráðs og að þau beri árangur. Ef við tryðum því ekki, þá væri engin forsenda til fyrir auknu framlagi til ráðsins.

En þá er það spurning hvort á heldur að leggja á gjöld til Umferðarráðs eftir þeirri leið að leggja þau á bifreiðaeigendur í landinu eða fara þá leið að leggja þau á hinn almenna skattborgara án tillits til þess hvort hann greiðir gjöld af bifreiðum eða ekki. Það kom hér fram í sambandi við hækkun iðgjalda nú í vor hjá hv. 5. þm. Vestf., sem hér talaði á undan mér, að hækkunin í vor væri óþörf að allmiklu leyti.

Í þessu sambandi vil ég segja það, að hann virðist hafa fyllri upplýsingar um þetta heldur en allshn. hafði. Hún hafði ekki í höndum nein gögn þannig að hún gæti lagt mat á gerðir verðlagsnefndar. Verðlagsnefnd varð að kröfum tryggingafélaganna. Ég veit að hún varð ekki við þeim að nálægt því öllu leyti né hvort það hefur verið rétt mat eða ekki. En ég vil leggja áherslu á það fyrst og fremst, og þess vegna kom ég hingað upp, að aukið fé til Umferðarráðs þýðir ekki endilega aukna skattheimtu. Verðlagsnefnd hlýtur í ákvörðunum sínum að meta hve hækkunin er mikil miðað við þau tjón sem verða á næstliðnu ári. Og ef aukið starf Umferðarráðs leiðir til þess að tjónin verði færri og minni, þá þýðir þetta ekki aukna skattheimtu. Á þetta eitt vildi ég leggja áherslu.