13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3611)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þegar við 1. umr. þessa máls lýsa stuðningi víð þá niðurstöðu sem þar með er fengin af löngu starfi samninganefnda ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að koma samskiptum þessara aðila á nýjan og að beggja dómi heppilegri og heillavænlegri grundvöll en hingað til hefur verið fyrir hendi. Þetta samkomulag er í sjálfu sér að mínum dómi ánægjuefni þótt vera megi auðvitað að á báða bóga séu uppi mismunandi skoðanir á tilteknum atriðum. Ég vil einnig segja við þetta tækifæri að ég tel það hina einu réttu stefnu í kjaramálum opinberra starfsmanna, hina einu heillavænlegu stefnu fyrir kjör þeirra og aðstöðu að kjör þeirra séu metin og aðstaða þeirra mörkuð sem næst því sem er á svokölluðum frjálsum vinnumarkaði, þ.e.a.s. vinnumarkaði utan stofnana og fyrirtækja ríkisins. Það þýðir ekki að loka augum fyrir því að ákveðinn munur, sem þar hefur ríkt, hefur orðið til þess að valda nokkurri tortryggni, ég býst við á báða bóga, og þannig orðið til þess að torvelda viðleitni tveggja stórra launþegahópa að koma málum sínum í ákjósanlegt horf. Ég vil láta í ljós þá von að þessi grundvöllur, sem hér liggur fyrir, verði stórt skref í áttina til þess að launþegahreyfing Íslands, hvort sem er hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum, geti orðið samstiga og samhent í kjarabaráttu sinni fremur hér eftir en tekist hefur hingað til.