13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að varpa fram þeirri spurningu fyrir þingheim hvort það sé fjandskapur við íslenska verkalýðshreyfingu að óska þess að afkoma atvinnuveganna sé góð. Þá skil ég ekki íslensku ef það telst vera fjandskapur við íslenskan verkalýð. Það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu að ég teldi að það væri íslenskum verkalýð fyrir bestu að afkoma fyrirtækjanna væri góð vegna þess að við það væri svigrúmið meira til þess að verkalýður gæti tryggt sín kjör betur. En það er náttúrlega hægt að snúa út úr orðum manna hér og finna það út sem maður óskar eftir, og þannig hafa báðir hv. þm., 3. landsk. og 5. þm. Norðurl. v., hagað sínum orðum hér. Ég frábið mér að það sé verið að bera mér það á brýn, þótt ég segi það — og endurtek það, að það er verkalýðnum fyrir bestu að hv. Alþ. hagi störfum sínum þannig að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins hafi meira og betra svigrúm til samningsgerðar heldur en raun ber vitni og verið hefur á undangengnum árum. Því miður hefur Alþ. of oft gripið inn í tekjuskiptinguna með þeim hætti að það hefur verið verkalýðshreyfingunni mjög óhagkvæmt. Get ég vitnað í mörg dæmi þess. Þannig hefur samningsfrelsið verið óbeint takmarkað. Á það við um allar stjórnir, hvort sem þær eru hægri eða vinstri stjórnir.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þau fyrningarákvæði, sem verið er að ræða um, voru samþykkt í tíð vinstri stjórnarinnar. Sá þáttur í fyrningarreglunum, sem hér er sérstaklega til umr., er verðhækkunarstuðull fyrninganna, en hann var einmitt samþykktur í tíð vinstri stjórnar, eins og fram kemur í þáltill. hv. 5. þm. Norðurl. v. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, en þá hlýtur sökin að vera þeirra sem settu þessar reglur eða ákváðu lögin þannig.

Það er einnig alrangt og hrein ósannandi og útúrsnúningur að ég sé hér einhver talsmaður þess að fyrirtæki í landinu eigi ekki að borga skatta. Ég tók skýrt fram í minni ræðu að ef lögin eru þannig úr garði gerð frá tíð vinstri stjórnar, þá er það skylda okkar að breyta lögunum þannig að allir, fyrirtæki og einstaklingar, greiði þann skatt og skyldur sem þeim ber. Þetta tvítók ég í minni fyrri ræðu. Og ég vara við því alvarlega að formaður Alþb. fari með ósannindi úr ræðum manna hér á hv. Alþ. Það er nóg að hans „ágæta blað“ beri á menn ósannindi sem blaðið verður síðan að éta ofan í sig nokkrum dögum seinna, þó að það sé ekki einnig gert hér á þingi, að maður þurfi að óska eftir því að hv. þm. éti það ofan í sig sem þeir segja hér og hafa rangt eftir.

Það er svo mál til frekari umr. síðar að ræða hvernig íslensk stórfyrirtæki hafi komist á laggirnar. Ég vil svara því með einni setningu hér í dag, en mun væntanlega geta svarað því betur síðar ef umr. verða um það hér. Ef hv. þm. gefa sér tíma til að ræða ítarlega um íslenska atvinnuvegi, íslensk fyrirtæki, láta ekki allt snúast um það hvernig á að leggja aukna skatta og byrðar á þegnana og þar með verkalýðinn, þá skal ég reyna að leggja mitt af mörkum til þeirrar umr. En í einni setningu skal ég svara hv. þm. um það hvert er mitt mat á því hvernig íslensk stórfyrirtæki eru orðin til. Þau hafa orðið til fyrir vinnu og ég vil segja: fyrir vinnu heiðarlegra manna.

Ég leyfi mér hér að vera í vörn og verja íslensk fyrirtæki, þau eiga ekki svo marga málsvara á þingi að þeim sé það of gott að einn af verkalýðsforingjunum taki afstöðu með þeim, því að þar vinnur meginþorri þess fólks sem við erum í forustu fyrir, þeirra verkalýðsfélaga sem eru úti á hinum almenna vinnumarkaði. En varðandi það að fyrirtækin greiði ekki til samfélagsþarfa vil ég segja þetta: Aðstöðugjaldið fer allt til samfélagsþarfa. Ég vil benda á það. En ég ítreka það að ég skal vera þátttakandi í því með hv. 5. þm. Norðurl. v. að sé þörf á breytingum á skattalögum og fyrningarreglum, þannig að það verði tryggt að sérhver greiði sitt og þær röngu og vitlausu reglur, sem vinstri stjórnin samþykkti á sínum tíma, verði ekki áfram við lýði, þá skal ég taka þátt í því að breyta þeim.