13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4244 í B-deild Alþingistíðinda. (3625)

115. mál, íslensk stafsetning

Vilborg Harðardóttir:

Forseti. Þegar ég skoðaði lagafrv. hæstv. menntmrh., mál nr. 194, um setningu reglna um íslenska stafsetningu, þótti mér þar gert ráð fyrir fullþröngu úrvali manna í n. til að gera till., en þeir áttu allir að koma úr hópi sérmenntaðra manna í íslenskum fræðum. Þótt ég treysti mönnum í þeirri stétt til að gefa góðar ráðleggingar byggðar á sérkunnáttu sinni áleit ég hættu á að einmitt vegna sérþekkingarinnar kynni þeim að yfirsjást aðrir þættir tengdir þróun þjóðfélagsins almennt ef þeir ættu einir að vera í ráðum og því væri heppilegra að þarna sætu einnig fulltrúar fleiri stétta. Hitt þykir mér aftur á móti jafnfráleitt, að menn, sem alls enga sérþekkingu hafa á íslenskum fræðum, ætli einir sér hér á Alþ. að setja þjóðinni stafsetningarreglur í krafti meiri hl. í þessum 60 manna hópi. Mætti hv. þingheimur í þessu sambandi reyndar minnast þess álitshnekkis er Alþ. beið fyrir rúmum þrem áratugum þegar meiri hl. þm. ákvað og samþykkti, hver væri rétt stafsetning forn, og setti í lög að ekki mætti gefa út bókmenntir okkar fornar nema með þeirri samræmdu stafsetningu, er þeir töldu rétta, og alls ekki með nútímalagi. Til allrar hamingju beindist gerræðið í það sinn að þeim er við kunnu að snúast og svara fyrir sig, Halldóri Kiljan Laxness rithöfundi sem vann að útgáfu fornbókmennta með nútímastafsetningu og hafði að sjálfsögðu ráðfært sig við ýmsa helstu menntamenn og gáfumenn og ýmsa bestu málfræðinga landsins sem veitt höfðu honum stuðning og ráð við þetta verk sem alþm. þá kölluðu orðrétt, með leyfi forseta, „að þýða Laxdælu á það mál sem úrhrak þjóðarinnar ber á vörum sér.“ Ekki er þetta svo sem í eina skiptið, því miður, sem máli og stafsetningu er ruglað saman. Fyrir slíkan misskilning hefur íslenskukennsla í skólum landsins löngum mátt líða er meiri tíma hefur verið eytt í að kenna stafsetningu en raunverulega lifandi málnotkun. Halldór Laxness segir sjálfur frá þessu máli í blaðagrein sem hann skrifaði á þessum tíma, 1941, og prentuð er í Vettvangi dagsins. Ég tek tilvitnun úr henni, með leyfi forseta, þar segir Laxness:

„Leyfist mér enn fremur að taka fram í sambandi við þessa útgáfu að ég álít það íslenskt landvarnarmál að sá sannleikur sé innrættur þjóðinni að mál fornrita vorra sé í meginatriðum það sem vér enn notum. En ef sú skoðun er viðurkennd að 13. aldar ritin séu í meginatriðum á því máli sem vér notum, nútímamenn, hlýtur bein afleiðing hennar að vera sú, að rit þessi eigi að gefa út með nútímastafsetningu handa oss. Rökrétt niðurstaða hinna, sem álita fornritin ekki samin á sígildri íslensku, heldur gammelnorsk eða oldnordisk, hlýtur aftur á móti að vera sú að gefa bækur þessar út með hinni svokölluðu samræmdu stafsetningu (normalstafsetningu) sem upp var fundin af útlendum útgefendum þessara bóka, m.a. í þeim tilgangi, ýmist visvítuðum eða launvituðum, að afsanna að fornbókmenntir vorar væru ritaðar á Íslenska tungu. Það var tilraun til að slíta fornbókmenntir vorar úr tengslum við Ísland og einkum íslenska siðmenning. Með því að gefa út Laxdælu með opinberri íslenskri stafsetningu hef ég viljað færa sönnur á að mál þessarar bókar sé íslenska; jafnauðlesin hverjum íslendingi, ungum og gömlum, eins og bókin væri skrifuð í dag, sígilt mál íslenskt og ekkert annað en Íslenskt, en hvorki „oldnordisk“ né „gammelnorsk“. Þegar á hinn bóginn er talað um að fornrit vor skuli prenta með „samræmdri fornri stafsetningu“, eins og segir í skopfrv. því sem fram hefur komið á Alþ., þá er slíkt út í bláinn, með því að samræmd forn stafsetning er ekki til eldri en frá 19. öld. Hitt er hverju orði sannara, að stafréttar útgáfur fornritanna hafa einatt gildi fyrir málvísindamenn, en slíkar útgáfur eru torlæsilegar alþýðu manna. Normalstafsetningin, hin samræmda forna, á ekkert skylt við stafréttar útgáfur og er því hvorki vísindaleg né alþýðleg. Málvísindamenn líta ekki á slíkar útgáfur og almenningur er illfáanlegur til að lesa þær.“

Og enn svarar Halldór Laxness greinum í Tímanum og Alþýðublaðinu. Með leyfi forseta, fyrirsögnin er „Stafsetning enn“ og greinin er svo hljóðandi:

„Fúkyrðaausturinn út af stafsetningu heldur áfram. Seinast hafa blaðstjórar Tímans og Alþýðublaðsins tekið upp þráðinn þar sem Halldóri Guðjónssyni í Vestmannaeyjum sleppir, að þessu sinni vegna þess að ég skuli rita stjórnarráðsstafsetningu. Tilefnið er uppskrift sú með þeirri stafsetningu er ég gerði s.l. vetur af Laxdælu og nú er í prentun. Hriflu-Jónas hét mér þrælkunarvinnu í einum af sínum alkunnu menntunarleysisskrifum, það er tukthúsi fyrir að nota lögskipaða stjórnarráðsstafsetningu á bókinni. Hann talaði með fyrirlitningu um, að HKL væri nú farinn að spilla málinu með því að nota þá stafsetningu sem höfð væri „á bréfum stjórnarráðsins“. En þegar ritgerð hans var orðin að almennu athlægi í bænum lét hann koma á gang þeirri sögu í Tímanum að ég hefði ætlað að þýða Laxdælu, en orðið svo hræddur við tukthúshótunina að ég hefði hætt við það. Eitt veitist mér erfitt að skilja: Ef þessir dánumenn halda að ég skrifi eftir því hverju þeir hóta í dagblöðunum í það og það skiptið, þá ætti að vera tiltölulega einfalt fyrir þá að fá mig til að skrifa eins og þeir vilja, aðeins með því að hóta mér nóg. Þrælkunarvinna er sú refsing sem næst gengur lífláti. Jónas minn, hvernig væri að prófa næst að hóta mér morði, kæri vin?

Kannske er ég of skaplinur maður, en óneitanlega rennur mér til rifja að sjá gamla kunningja, menn sem voru þó einu sinni með sæmilegu ráði, vera að leita uppi öll andstyggilegustu meiðyrði tungunnar, öskrandi og froðufellandi, í dagblöðum landsins, ef ekki út af því að ákveðinn höfundur skrifar aðra stafsetningu en stjórnarráðsins, þá út af hinu, að sami maður skrifar stafsetningu stjórnarráðsins. Jónas frá Hriflu og Stefán Pétursson eru þó varla þau börn að halda að ég taki svo mikið mark á þeim að ég fari að stefna þeim. Og ég hélt að þeir ættu að þekkja mig allt of vel til þess að vita að fúkyrðaaustur er nákvæmlega hið ólíklegasta til að hafa áhrif á mig. Sú öld, sem kemur eftir okkur, mun dæma milli þeirra og mín, milli míns nafns og þeirra nafns. En meðan við lifum allir munu þeir hafa skapraunina, ég skemmtunina.

Með því að gefa út Laxdælu samkv. íslenskri stafsetningu hef ég viljað færa sönnur á að mál bókar þessarar sé íslenska, jafnauðlesin hverjum Íslendingi ungum og gömlum, eins og bókin væri skrifuð í dag, sígilt mál íslenskt og ekkert annað en íslenskt, en hvorki „oldnordisk“ né „gammelnorsk“. Það er þetta sem fyrirsvarsmenn hins norsk-danska málstaðar gegn íslendingum, eins og Jónas Jónsson, hafa leyft sér að kalla: „að draga fornbókmenntirnar niður í forina“. Vitaskuld hef ég ekki ráðist í þetta verk án þess að ráðfæra mig fyrst við ýmsa helstu menntamenn landsins og gáfumenn og ýmsa bestu málfræðinga vora, þ. á m. dr. Jón Helgason prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og dr. Sigurð Nordal prófessor við Háskóla Íslands, og hefur hinn síðari stutt mig að þessu verki með góðum ráðum.

Annars er krafan um fornbókmenntirnar með vorri stafsetningu ekki ný. Í grein eftir dr. Björn frá Viðfirði í Skírni 1907, þar sem þessi nafnkunni öndvegishöldur íslenskrar málfræði gerir að till. sinni að snúa fornum rithætti sem mest til nútímamáls á alþýðuútgáfu fornbókmennta, er m.a. komist svo að orði:

Brýna nauðsyn ber til að ryðja braut milli fornra og nýrra bókmennta og þau hamratröllin, er fyrst ber að leggja að velli á þeim vegi, eru þessar gömlu sérviskukreddur er dylja fornöldina augum almennings í fornu stafsetningarmoldviðri.“

Og enn skrifar Laxness og nú um þá geðbilun sem fram fór á Alþ. um þetta leyti. Greinin nefnist „Hvað kemur næst?“ — með leyfi forseta:

„Það sem hefur auðkennt síðustu Alþingi vor eru hin svokölluðu geðbilunarfrv. sem flutt hafa verið með Kleppsræðum, langhundum, blámennskuköstum og öðrum herfilegum látum til alþjóðarathlægis. Veturinn 1939–1940 var bandormurinn sálugi skrípamál þingsins og geðveikimál, en í þeim bálki voru ákvæði um ólíklegustu hluti, frá því að hafa reiðvegi meðfram akvegum og akvegi meðfram reiðvegum niður í ráðstafanir um menningarsjóð sem því jafngiltu að gera stofnun þessa að nokkurs konar þrælakaupmannastassjón í eyðimörku með dauða menn og vofur innanbúðar. Í fyrra snerist geðbilunin um að löggilda eina þrælakaupmannastassjón í viðbót undir nafni „viðskiptaháskóla“, og fylgdi þeim málflutningi mikið af unaðslegri Kleppsræðumennsku og dýrlegir langhundar, sem enduðu á því afi þingeyskur barnakennari, sem langaði til að leika Hitler hér í bænum, skrifaði leikrit í Tímann um rektor háskólans, dr. Alexander Jóhannesson.

Síðasta geðbilunarfrv. á Alþ. var það að banna að prenta sígildar íslenskar bókmenntir með löggiltri Íslenskri stafsetningu, heldur skulu prenta þær með stafsetningu Wimmers frá þeim tímum að Íslendingasögur voru útgefnar í Danmörku til að sanna að þær væru ritaðar á „oldnordisk“ og afsanna að þær væru ritaðar á íslensku. Var þessi danska 19. aldar stafsetning á Íslendingasögunum vatni ausin á Alþingi og hlaut í skírninni nafnið „Samræmd Stafsetning Forn“, eins og þegar Don Quijote tók sápuskál rakarans og skírði hana með mikilli viðhöfn Riddarahjálm.

Hvað á nú að vera geðbilunarfrv. næsta þings? spyrja menn. Út af hverju megum við eiga von á Kleppsræðum, langhundum og blámennskuköstum næst? Þeir, sem gerst mega vita, segja að frv. muni vera í smiðum eða a.m.k. þurfi ekki að kvíða að á því verði nein tangarfæðing. Það kvað eiga að lögskipa ákveðinn móðurmálsframburð um land allt. Menn, sem kunnugir eru uppruna sams konar frv. á síðustu árum, telja sig ekki þurfa að gera því á fæturna hverju framburður sá verður líkur. A.m.k. mun ekki verða talið til lýta í þeim mælanda þótt hann verði í köflum dálítið sundurslitinn af kjöltri og kæmti. Þó mun verða lögfestur sérstakur „samræmdur framburður forn“ þegar upp eru lesin rit á „samræmdri stafsetningu fornri“ og verður þá stuðst við framburðarreglur Árna Pálssonar þegar hann fór að lesa upp fornsörur í útvarp og sagði hánum og vápn málfræðingum til mikils yndisauka.

Þegar búið verður að lögleiða þennan prýðilega framburð um allt land kemur röðin að göngulaginu, og munu nú enn verða saman skrifaðir miklir langhundar og haldnar þrútnar Kleppsræður. Verður brýnd fyrir þjóðinni nauðsyn þess að lögfest sé göngulag þess flokks hér á landi sem stendur að því leyti utan við íslenskt þjóðlíf og íslenska menningu að í honum hefur þrátt fyrir endalausa þrælakaupmennsku aldrei verið til neinn menntafrömuður né vísindamaður, varla einu sinni pokaprestur, enginn listamaður á neinu sviði, ekkert skáld né rithöfundur og yfirleitt enginn maður með fullu viti sem hefur getað haldið á penna. Með því að lögleiða göngulag þessara barna eyðimerkurinnar á að veita þeim nokkrar sárabætur fyrir þá hluti sem þeir hafa af náttúrunni verið öðrum íslendingum afskiptari, þeim er sögur fara af fyrr og síðar. Þá munu í lög um þetta verða sett ströng fyrirmæli um að menn gangi með „samræmdu göngulagi fornu“ í grafreit þeim á Þingvöllum sem hlúir beinum hins ágæta höfundar þessarar vísu: „Illa er komið Íslending“ o.s.frv.“

Ég hef eytt nokkrum tíma í að segja frá máli Halldórs Laxness, vegna þess að það minnir um margt á það geðbilunarmál sem við erum að fjalla um núna, og eins lesið orð skáldsins, vegna þess að þau sýna og sanna að það er ekki stafsetningin sjálf, heldur málið og málnotkunin sem máli skiptir fyrr jafnt sem nú.

Málalok þessa leiðindamáls eru kunn. Hæstiréttur úrskurðaði að lögin brytu í bága við stjórnarskrá landsins, og atburðurinn varð Alþ. til ævarandi háðungar. Af þessu tilefni orti Steinn Steinarr þekkt kvæði sem ber nafnið „Samræmt göngulag fornt“, grg. með samnefndu frv., og tel ég rétt að vitna í það hér núv. hv. þm. til viðvörunar, með leyfi forseta:

„Í því margs konar harki og umróti, er yfir stendur,

varð uppvíst því miður ei fátt um vorn þjóðrækniskort.

Sá menningararfur, sem oss var til varðveislu sendur,

er ekki hvað síst hið þjóðlega göngulag vort.

Það tengdi oss saman sem heild í hugsun og verki og hafði að engu hvern nýjan og framandi sið, það var stolt vort og dyggð, það var aðals- og einkennismerki ónafngreinds stjórnmálaflokks, sem menn kannast við.

En guð sé oss næstur, það gerist margt hér á landi, nú ganga menn uppréttir jafnvel um hábjartan dag.

Skal dotta í geðlausri deyfð sem á sama standi,

skal draga í svaðið hið íslenska göngulag.

Nei, aldrei skal takast þeim ættjarðarlausu bjánum

að eyða þeim siðferðismætti sem hér stendur vörð. Álútir skulu menn ganga og hoknir í hnjánum og horfa með stilling og festu á íslenska jörð.

Það er skylda hvers leiðandi manns á verði að vaka til verndar, ef þjóðlegt einkenni í háska er statt. Ef Alþingi lætur nú mál þetta til sín taka, má telja að til gagns hafi það verið saman kvatt.“

Eins og fyrr getur er það frv., sem nú liggur fyrir framan okkur, ekki hið eina um stafsetningarmál sem fyrir þinginu liggur, og hefði vitaskuld verið langeðlilegast fyrir deildina að fá að fjalla um bæði samtímis, ekki síst þar sem samþykkt annars mundi í rauninni útiloka þá málsmeðferð sem gert er ráð fyrir í hinu. Er óskiljanlegt með öllu að meiri hl. allshn. skuli hafa vísað á bug samhliða afgreiðslu. Frv. hæstv. menntmrh. mundi, ef að lögum yrði, stuðla að ákveðinni festu í stafsetningarmálum, og eru áreiðanlega allir sammála um nauðsyn hennar, meira að segja z-liðið sem flutt hefur frv. á þskj. 140, eftir því sem segir í grg. þess, og hlýtur því að vekja furðu að þessir hv. þm. skuli ekki sjá að með samþykkt þessa frv. nú mundi opnuð leið til breytinga á stafsetningarreglum á hverju þingi að geðþótta þm. hverju sinni. Hljóta allir að sjá hvílíkum glundroða og vandkvæðum í starfi skólanna slíkt mundi valda, svo að ekki sé minnst á kostnaðinn við útgáfu námsbóka sem sífellt þyrfti að breyta til og frá. Hve stórt þetta dæmi er má marka af þeim upplýsingum Ríkisútgáfu námsbóka, að þótt ekki hafi verið breytt samkv. stafsetningarreglunum frá 1973 og 1974 þeim bókum sem ætla má að falli út á næstu 3–4 árum vegna endurskoðunar á námsefni, þá hefur nú þegar verið breytt stafsetningu á 35 kennslubókum og nær 100 nýjar kennslubækur hafa verið gefnar út með núgildandi stafsetningu. Og samkv. upplýsingum, sem fengist hafa, mun þetta samsvara því að um helmingur af úthlutunarbókum sé nú þegar með stafsetningu 1973 og 1974 og fjórðungur af öðrum bókum útgáfunnar. Ríkisútgáfan nær þó aðeins yfir grunnskólastigið og inni í þessu dæmi eru ekki íslenskar kennslubækur á hærri skólastigum. Hætt er við að kennarar eigi eftir að bregðast hart við því aukaálagi sem á þá er lagt með því að taka upp svona fyrirkomulag. Má minna á bréf stjórnar Sambands ísl. barnakennara frá 4. apríl sem dreift hefur verið hér á Alþ. Það er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ísl. barnakennara leyfir sér hér með að vekja athygli yðar á eftirfarandi till. sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar 2. þ.m.“ — þ.e.a.s. 2. apríl:

„Stjórn Sambands ísl. barnakennara beinir þeim eindregnu tilmælum til menntmrn. og Alþ. að halda fast við ákvörðunina um að fella z niður úr íslensku ritmáli, Rittákn þetta hefur alltaf verið óþarft í íslensku og engin málfræðileg rök hníga að notkun þess, eins og stafsetningarnefndin hefur sýnt fram á með ljósum rökum í grg. sinni. Stjórn Sambands ísl. barnakennara leggur áherslu á að gífurlega löngum tíma hefur verið eytt í að kenna z-reglurnar í efstu bekkjum skyldunámsins og í framhaldsskólunum, — dýrmætum tíma sem þarfara hefði verið að verja til raunhæfs málnáms. Stafsetningin er ekki málið sjálft, heldur búningur þess í riti. Með því að einfalda stafsetninguna að skynsamlegu marki er verið að gefa kennurum tækifæri til þess að sinna betur málinu sjálfu og notkun þess.“

Þá hafa hv. þm. þegar heyrt hér bréf Árna Böðvarssonar, en ég vil þó til frekari áherslu endurtaka lok þess. Árni segir, með leyfi forseta:

„Af því, sem hér hefur verið rakið, tel ég mér skylt að vara eindregið við því að lögbjóða z í íslenskri stafsetningu eða taka aðrar skjótráðnar ákvarðanir um einstök atriði í búningi ritaðs máls, — ákvarðanir sem óhjákvæmilega hefðu í för með sér sterka andúð flestra nemenda í íslenskum skólum og sóun á mörgum starfsdögum allra íslenskukennara landsins öll skólaár sem þær væru í gildi, án nokkurs árangurs fyrir kunnáttu þjóðarinnar í móðurmálinu nema þá til að fæla menn frá því að skrifa það.“

Z-menn hampa mjög í málflutningi sínum undirskriftum 100 manna, menntamanna og yfirmanna ýmissa stofnana, sem syrgja z-una. Þetta úrval undirskrifara er eins og hvert annað úrval og væri auðvelt að fá úrval annarra 100 manna eða 1000 af líkri gráðu eða öðrum sem mundu undirrita skjal með algerlega öndverðri skoðun. Má enda minna á í því sambandi að við skoðanakönnun í Félagi ísl. fræða kom í ljós að meiri hl. félagsmanna reyndist fylgjandi núgildandi stafsetningarreglum, og hefði z-málið verið tekið út sér hefði meiri hl. áreiðanlega orðið enn stærri. Þarna í hópi eru margir færustu málvísindamenn okkar og móðurmálskennarar. Vil ég nú — með leyfi forseta — vitna í ummæli nokkurra þeirra, sem birtust í Þjóðviljanum 17. júní í fyrra undir sameiginlegri fyrirsögn: „Íslensk tunga í samtíðinni.“ Dr. Jakob Benediktsson, sá mikli og viðurkenndi málvísindamaður, ritstjóri Orðabókar háskólans, segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Ég held þó að ofstopinn í garð Laxness á sínum tíma hafi verið mest út af réttritun. Það er undarlegt hvað stafsetning verður mönnum mikið tilfinningamál. Z er óþurftarstafur og ég er ákaflega feginn að vera laus við hana. Ritun z var merki um misskilin upprunasjónarmið og hún gerði málið ekki skiljanlegra. Z hefur stutta hefð í málinu, enda var hún ekki notuð frá 14. öld og fram á þá 19. með þeim hætti er síðar varð. Það var annað með y, því að þann staf reyndu menn alltaf að skrifa þótt misjafnlega tækist til. Og svo er sú röksemd, sem e.t.v. er veigamest, að það er löngu búið að fella z niður úr rithætti alls almennings með því að kenna hana ekki í barnaskólum. Því skyldu menn ekki gleyma, að stafsetning er ekki málið sjálft, heldur praktískt samkomulag um hljóðtáknun. Alþ. hefur einu sinni sett stafsetningarlög sem fjölluðu um rithátt á útgáfu fornrita og var stefnt gegn Halldóri Laxness, en með hæstaréttardómi var Halldór sýknaður og Alþ. gert ómerkt orða sinna og gerða. Þetta ætti að vera víti til varnaðar.“

Ásgeir Blöndal Magnússon cand mag., starfsmaður Orðabókar háskólans, segir svo, með leyfi forseta:

„Ég hef jafnan verið fremur andvigur z og raunar ýmsum fleiri atriðum sem tekin voru upp með stafsetningarbreytingunni 1929. Ég sakna því ekki z-unnar. Hins vegar gat það verið álitamál hvað koma ætti í staðinn, hvort menn áttu að binda sig við s eingöngu eða taka upp ts í tilteknum orðmyndum.“

Finnur Torfi Hjörleifsson, langreyndur kennari á gagnfræðastiginu og menntaskólastiginn, segir svo, með leyfi forseta:

„Í endurskoðun námsefnis og kennsluhátta síðustu ár hefur orðið nokkur stefnubreyting. Námsskrár gera ráð fyrir aukinni kennslu í málnotkun. Enn situr þó að mestu við orðin tóm. Það er litlum vanda bundið að auka við námsskrár ákvæðum um nýtt efni. Miklu erfiðara reynist að skera niður úrelt, gagnslaust og jafnvel skaðlegt námsefni. Forheimskandi málfræði og óskynsamleg stafsetning stendur móðurmálskennslu fyrir þrifum, tekur tíma frá gagnlegu námi og mun halda áfram að gera það. Að sjálfsögðu ber að fagna allri viðleitni til að skera niður úrelt og skaðlegt námsefni. Niðurfelling z var þeirrar ættar. Að mínu viti hefði þurft að ganga mun lengra í að einfalda stafsetninguna, ganga t.d. í skrokk á tvöföldum samhljóða í stofni orða og í viðskeyttum greini. Við það hefði unnist dýrmætur tími.“

Jón Böðvarsson cand. mag., menntaskólakennari, þrautreyndur móðurmálskennari í mörg ár, bæði á menntaskólastigi og gagnfræðastigi, nefnir ýmis dæmi um málfarslegan vanda sem tæknilegar og félagslegar aðstæður í samfélaginu valda og segir síðan, með leyfi forseta:

„Hér hefur verið staldrað við ýmsa váboða, en úr þeim vil ég þó ekki of mikið gera. Mér virðist menningararfleifð þjóðarinnar nægilega sterk til þess að vega hér á móti, einkum ef íslenskukennsla í landinu er með skynsamlegum hætti. Undanfarin ár hefur talsvert áunnist í þeim efnum vegna þess að menn, sem vit hafa á, hafa ráðið ferðinni og ýmsu breytt í skynsemdarátt. En þeir eiga furðu erfitt uppdráttar af ýmsum sökum. Sem dæmi nægir að nefna þessa alkunnu hörmungarstaðreynd: Þegar leggja skal aukna rækt við málnotkunarkennslu í stað z-reglna rísa upp alþm. úr öllum flokkum, sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa enga heildarsýn yfir það sem verið er að framkvæma, og hyggjast með valdboði tryggja að áfram verði hismið látið skyggja á kjarnann.“

Og Jón Gunnarsson mag. art., sem ég ætla að leyfa mér að fullyrða að sé einn mesti samanurðarmálfræðingur okkar núlifandi, lektor í málvísindum, hefur þetta að segja, með leyfi forseta:

„Það er einungis til einn mælikvarði sem máli skiptir um það hvort stafsetning hentar tungumáli vel eða illa. Stafsetning gegnir hlutverki sínu best ef hún er við það miðuð að tjá einungis þau hljóð sem málið byggist á, hvorki fleiri hljóð né færri. Það hlýtur því að teljast skref í rétta átt að z er horfin úr íslenskri stafsetningu, nema til séu einhver þau rök sem mæli sérstaklega með því að halda við þessum margumrædda bókstaf. Svo er að heyra á þm. 33 að slík rök séu til og er þá helst skírskotað til þeirrar hefðar í stafsetningu sem á komst 1929. Z-reglurnar, sem þá voru settar, eiga því ekki langa sögu, og vert er að minna þm. á að z-leysi í íslenskri stafsetningu á sér a.m.k. 600 ára hefð, svo að ekki þarf að amast við afnámi z þess vegna. Þm. vilja að börn okkar stafsetji“ — nú kemur feitletrað: „í samræmi við uppruna og láti z þar sem tannhljóð hefur farið á glæ á undan s. Hræddur er . ég um að þeim mundi vefjast tunga um tönn ef þeir ætla að fylgja þessari kröfu eftir með einhverjum röksemdum, því að hvað eiga þeir við með uppruna í þessu sambandi. Halda þeir að hann sé alltaf jafnljós? Það er a.m.k. víst að nokkuð skortir á að staffræðingunum 1929 væri uppruni orða eins ljós og þeir létu, og það er því miður staðreynd, að ekki er mikið um heilar brýr í z-reglunum þeirra. Og samt á að troða þeim í unglingana hvað sem tautar og raular, finnst verndurum málsins á Alþ. Hvers eiga blessuð börnin að gjalda?

Þegar ég var móðurmálskennari kom það fyrir að ég varð að gefa skynsömum og sjálfstæðum nemendum mínum heldur bágt fyrir þegar þeir glæptust til að halda að eitthvert vit væri í reglunum sem ég kenndi þeim og vildu stafsetja t.d. viz — vis, sess — sezz, — hvass — hvazz og beiskur — beizkur í samræmi við það.

Mikið er rætt um að móðurmál okkar sé í hættu og móðurmálskennslu beri að bæta. Ég held að lítil von sé til að unga kynslóðin fái aukinn áhuga á málinu svo lengi sem því er haldið að henni með þeim hætti sem hér hefur allt of lengi tíðkast. Hlutir eins og z-reglur, y-reglur og kommusetningarákvæði hljóta alltaf að bera vondan þef í nösum heilbrigðra unglinga og fæla þá frá vangaveltum um mál sitt fremur en laða þá að því. Hitt kynni að glæða áhuga nemenda, sem fallið hefur í stafsetningu, að vita að með honum hefðu einnig fallið þeir Snorri, Jónas og Kiljan og margir aðrir sem ekki eru beinlínis taldir hættulegir íslenskri menningu. Og hræddur er ég um að stafsetningin á handritunum okkar ætti þá heldur ekki upp á pallborðið.

Krafa þm. væri sjálfsagt sanngjörn ef þeir væru að beiðast þess eins að fá að skrifa z sjálfir þegar þá langar. En þeir fara fram á meira. Þeir heimta að þessum vandræðareglum sé áfram haldið að börnunum í landinu, og mætti ætla af málflutningi þeirra að hér sé um þvílíkt stórmál að ræða að með því standi íslensk menning eða falli. Mér finnst krafan fúlmennskuleg þegar ég hugsa til þeirra nemenda sem ég hef þurft að fella á prófi og skerða möguleika þeirra til meiri menntunar vegna prjáls á við z, y og kommusetningu. Z er vitaskuld fundið fé fyrir þá menntamenn sem vilja hreykja sér yfir aðra landsmenn, og hún er einnig eitt þeirra atriða sem vekja óverðskuldaða vanmetakennd gagnvart málinu hjá þorra almennings. Varla getur þm. þótt það heppilegt í lýðræðisþjóðfélagi að viðhalda atriði sem er jafnvel fallið til að auka á stéttaskiptingu. Og í því sambandi vil ég taka undir orð Jóhanns S. Hannessonar um hlut málfræðinga í þessum efnum. Málfræðingar hafa ekki meiri hæfni en hver annar til að setja náunganum reglur um málnotkun, og ef þeir halda því fram eru þeir að villa á sér heimildir og færa sér hrekkleysi fólks í nyt. En verði z innleidd á ný vona ég að börnunum okkar gangi jafnilla að læra hana og áður, því að annars væri ástæða til að efast um heilbrigði þeirra.

Loks er hér málamiðlunartill. til z-liðsins: Leggjum niður s og skrifum z alls staðar. Þá sláum við tvær flugur í einu höggi: varðveitum z-una og kosti stafsetningarreglnanna nýju.“ Þetta sagði Jón R. Gunnarsson.

Eftir þennan lestur er ekki úr vegi að huga að ummælum annars málvísindamanns, frægasta málfræðings okkar fyrr og síðar þótt nafn hans sé glatað. En þar á ég við höfund fyrstu málfræðiritgerðarinnar svokölluðu sem varðveitt er í Codex Wormianus af Snorra-Eddu og talin skrifuð um miðja 12. öld eða fyrr. Hún er fyrst í röðinni af fjórum málfræðiritgerðum í sama handriti og jafnframt elst. Ég hef hana hérna hjá mér, í ljósriti að vísu. En höfundur fyrstu málfræðiritgerðarinnar hefur eftirfarandi um z-una að segja, með leyfi forseta:

„Z. Hann er samsettur af deletu, ebreskum staf og settur er fyrir d, og af öðrum er heitir fate. Sjálfur er hann ebreskur stafur, þó sé hann í latínustafrófi og hafður, því að ebresk orð vaða oft í latínunní. Honum vísa ég heldur úr voru máli og stafrófi.“ Ég endurtek: „Honum vísa ég heldur úr voru máli og stafrófi, því að þó verða fyrir nauðsynja sakir fleiri stafir í þar en ellegar vilda eg hafa. Vil ég heldur rita þeim hinum fáum sinnum er þarf d og s.“

Ég vil vekja athygli hv. þm. á þessum ummælum elsta þekkta íslenska málfræðingsins, ekki síst þeirra hv. þm. sem vilja halda dauðahaldi í stafsetninguna frá 1929, en hún er í rauninni byggð á tilbúningi danskra málfræðinga á 19. öld, Rasks og fleiri ágætra manna, sbr. formála prófessors Jóns Helgasonar að Tveim kviðum fornum. Prófessor Jón segir m.a.:

„Íslendingar eru því vanastir úr bókum sínum að sjá fornaldarkvæði með annarri stafsetningu en nú er höfð. Að vísu er sú stafsetning tilbúin á 19. öld, ekki er nú meira að láta. Eigi að síður er hún góð og gild á sína vísu. Hún er studd vandlegum rannsóknum og hnitmiðuð af mikilli nákvæmni. Hún er gerð handa útlendingum sem vilja nema málið án þess að láta tefjast af margvíslegum ófullkomleik hinna fornu skrifara sem sjálfir töluðu þetta mál.“

Og þar sem margt er í rauninni álíka óvíst um framburðinn og stafsetninguna er því fróðlegt að heyra, hvað meistari Jón hefur að segja um framburðinn í þessum sama formála, með leyfi forseta:

„En óbreyttur íslenskur lesandi nú á dögum hefur lítið við hana að gera. Ef hann fer að streitast við að lesa eftir henni mundi hann ekki einungis gera sig beran að afkárahætti, heldur lenda í ógöngum þegar í fyrstu setningu. Sumir halda að ef þeir segja ok og ek og mjök fyrir og og ég og mjög eða at og hvat og vatnit fyrir að og hvað og vatnið, þá sé komið fornmál, ég tala nú ekki um ef þeir segja líka maðr fyrir maður og vár fyrir vor. Róðu betur, lagsmaður. Ef þú heldur áfram að rugla saman í-um og y-um þá talar þú ekkert fornmál. Löngu eftir að allir voru farnir að segja og og mjög og að og vatnið og maður var ekki til sá vesalingur á öllu landinu að hann bæri rýður fram eins og ríður. Ef þú berð æ fram eins og nú er gert, þá talar þú ekkert fornmál. Þar átt þú að hafa e-hljóð og þó frábrugðið e-i, því að aldrei hafa orð eins og geta og gæta runnið saman. Ef þú berð orð eins og fætur og nætur fram með sama æ-i í báðum, þá er hæpið að unnt sé að segja að þú hangir í því að tala fornmál. Og umfram allt, ef þú kannt ekki að gera greinarmun á löngum samstöfum og stuttum, ef þú teygir þau hljóð sem ekki mátti teygja að fornu, þá ertu langar leiðir frá því að tala fornmál. Og þetta dregur meiri slóða en allt hitt, því að það hefur í för með sér að öll sú íþrótt, sem í fornum kveðskap er tengd við mismun dreginna hljóða og ódreginna, fer hjá þér fyrir ofan garð og neðan. Nei, vilji menn tala fornmál, þá dugir ekki neitt hálfverk. Þá verður heldur en ekki að taka til lærdómsins og bera allt fram að fornum hætti, og þá fer málið að vandast, því að sá lærdómur er ekki til í veröldinni að hann hrökkvi nándar nærri til. Menn þykjast vita í höfuðatriðum hvernig hljóðkerfi íslensks máls hafi verið á 12. öld (af því að fornar málfræðiritgerðir veita góðan stuðning og þó hvergi nærri nógan). En enginn er svo lærður að hann muni treystast til að lesa fornt kvæði eða sögukafla með framburði 12. aldar án vitundar um að ef maður frá þeirri öld mætti heyra mundi honum virðast kominn stamandi og málhaltur útlendingur. Svo að einungis eitt sé nefnt: engin vitneskja er varðveitt um tóna málsins, hvar farið var upp og hvar niður. Jafnvel hinn lærðasti má þakka sínum sæla að hann þarf ekki að ganga undir slíkt próf nema ef vera skyldi í eilífðinni (en þar getur hann þá gengið í tíma á undan). Og enginn þarf heldur að gera því skóna að þegar til að mynda skrásetjandi eddukvæða á 13. öld fór með þessi kvæði, hafi tungutak hans verið allt að einu sem skáldanna sjálfra, látum okkur segja á 9. eða 10. öld. Það er ekki háttur tungumála að standa í stað í þrjár eða fjórar aldir, þó að þess séu að vísu dæmi. Ef við svitnum við þá tilhugsun að eiga að fara í íslenskupróf hjá Snorra Sturlusyni, þá má vera að Snorri hefði líka mátt ókyrrast hefði hann átt að þola yfirheyrslu hjá Agli Skallagrímssyni.

Af því, sem nú hefur verið sagt, leiðir að við eigum engan skárri kost en lesa forn kvæði með þeim einum framburði sem við kunnum til hlítar, þeim sem við höfum alist upp við, nema auðvitað hreinsaðan af ósóma (það dugir ekki að segja: varði kvítan háls Völundur). Allt annað verður kák. Það er sagt að allt víravirki fornra hljóðfæra spillist, en við því verður ekki gert. Þess vegna er hér notuð nútíðarstafsetning og verða menn að láta sér nægja .þá forneskju sem í henni er (hún er ekki neitt smáræði).

Hitt er jafnsjálfsagt og eðlilegt, að útlendir menn, sem þessi kvæði lesa, láti sér ekki koma til hugar að vera að elta ólar við íslenskan nútímaframburð, heldur búa sér til annan, lagaðan eftir því, sem menn vita framast um 12. aldar mál, en þessu fylgja engir táldraumar um að hann sé „réttur“ nema til hálfs. Hann þokast aðeins dálítið í áttina. Sumir skammsýnir íslendingar hafa stundum verið að fetta fingur út í þetta, en það er misskilningur; erindi þessara manna er að kynnast kvæðunum og skilja þau, en íslensk síðari tíma hljóðfræði liggur þeim í léttu rúmi, og ef þeir vilja stunda hana eru flestir aðrir textar betur fallnir. Þessi tilbúni samræmdi framburður er bróðir hinnar tilbúnu samræmdu stafsetningar sem enginn neitar að geti verið mjög hentug við byrjandakennslu.

En enda þótt stafsetning sé hér færð í nútímahorf er jafnframt haldið fast við að sjálfur textinn skuli óbreyttur í öllum greinum. Þetta er engin þýðing. Fornar endingar og beygingarmyndir eru látnar standa. Þær heyra þessu forna málstigi til og þeim getum við hæglega haldið þó að við kunnum ekki að stæla fornan framburð til neinnar hlítar. Eitt er að allt hljóðkerfi einhvers máls hnikist til og færist í nýjar skorður eins og orðið hefur í íslensku; annað er hvort ein og ein orðmynd hefur geymst eða hlotið að þoka fyrir annarri. Hér endar til að mynda 1. persóna þátíðar á a: ég hvessta, allt fram á 19. öld mun ég sagða, ég heyrða hafa verið til í mæltu máli. Hér er haldið myndunum Slagfiður, í þolfalli Slagfinn, og lukla, eignarfall fleirtölu af lykil; hvorug myndin getur verið okkur annarleg meðan við beygjum maður — mann og ketill — katla.“

Ég ætla nú ekki að vitna lengra í meistara Jón, en dreg þetta fram til þess að sýna að margt gildir hið sama um stafsetninguna og framburðinn.

Það er rétt að minna hér á að z-reglurnar, sem upp voru teknar 1929, hafa fram á þennan dag í reyndinni aldrei verið kenndar nema hluta þjóðarinnar, þ.e.a.s. þeim hluta sem farið hefur í framhaldsnám. Má því segja með réttu að hér sé um eins konar yfirstéttarstafsetningu að ræða og vel við hæfi að það skuli einmitt helst hafa verið yfirmenn stofnana sem skrifuðu undir z-plaggið, en þeim og öðrum t.a.m. 33 þingmanna hópnum frá í fyrra, má benda á að ekki fyrirfinnst neitt það í lögum sem banni þeim að kenna börnum sínum einhverja heldri manna stafsetningu ef þeir vilja, þótt skólarnir kjósi stafsetningu alþýðunnar.

Ein af röksemdunum, sem z-liðið hefur fært fram máli sínu til stuðnings, hefur verið að með z-unni tækist betur að varðveita vísbendingar um uppruna orðanna og auka þannig málþekkingu almennings. En sé það eitthvað sérstaklega eftirsóknarvert að varðveita þetta atriði í stafsetningu, því þá ekki að hafa skrefið stærra og lögleiða um leið að ritaðar verði tvær gerðir af æ-i eins og gert er í hinni frægu samræmdu stafsetningu fornri, þ.e.a.s. samsett óe, t.d. í færi af fórum og samsett áe, t.d. í þræðir af þráður. Þetta gefur ekki síður og reyndar enn fremur vísbendingu um uppruna orða heldur en z-an, og legg ég eindregið til, að flm. frv. hugi að þessu og leggi sér hið fyrsta til þekkingu á uppruna orða með æ-i og jafnvel líka tvenns konar ö-i og temji sér rithátt samkv. því. Munu þeir þá enn um sinn, a.m.k. í eigin hugarheimi, geta risið hátt yfir sauðsvartan almúgann hvað stafsetningu snertir, því að enginn getur neitað því að mismunandi stafsetning eftir lengd skóla göngu kallar á aukna stéttaskiptingu, eins og starfsmenn Skólarannsókna benda m.a. á í sínu bréfi sem hér hefur verið áður lesið. En ég ætla að endurtaka það atriði til frekari áherslu, með leyfi forseta. Þeir segja um stéttaskiptinguna:

„Eðlileg þróun stafsetningar felst í einföldun. Megineinkenni þeirra breytinga, sem gerðar voru á stafsetningu með auglýsingu frá menntmrn. frá 4. sept. 1973, var einföldun gerð að ráði n. er skipuð var sérfræðingum og kennurum. Meðan reynt var að kenna ritun z í skyldunámsskólum tókst aðeins litlum hluta nemenda að læra það að gagni og miklum tíma og fjármunum var einnig eytt til einskis í þá kennslu í framhaldsskólum á kostnað þarfari viðfangsefna. Krafa um að ritun z skuli kennd í skólum og z skuli notuð í kennslubókum og opinberum plöggum felur því í sér kröfu um, að skólar og opinberir aðilar stuðli að menntunarlegri stéttaskiptingu í landinu, skiptingu í minni hluta, sem kann hina opinberu stafsetningu, og meiri hluta, sem ýmist kann hana ekki eða kærir sig ekki um að nota hana.“

Og þeir segja enn fremur, með leyfi forseta: „Lög, sem fela í sér að z skuli kennd í skólum, mundu dæma meiri hluta nemenda í skyldunámi til að tapa í glímu sinni við viðfangsefni sem þeir hvorki geta né vilja tileinka sér.“

Það mætti reyndar líka taka þá setningu með sem þeir benda á um glundroðann. Hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Það hlýtur einnig að valda óánægju sem gæti valdið glundroða í starfi skólanna ef Alþ. samþykkir lög er fyrirskipa kennurum að kenna stafsetningu sem mörgum þeirra er þvert um geð að nota og þeir telja hafa skaðleg áhrif á árangur og áhuga nemenda sinna.“

Eðlilega er það mönnum oft mjög kært, og ég skil það vel að þeim sé það ákaflega kært sem þeir hafa þurft að þræla mikið fyrir, stritast við að ná í sveita síns andlits, hvort sem þar er um að ræða fjármuni, fasteignir, stöðu eða annað. Því læðist óneitanlega að manni sá grunur að ástæðan til fastheldni sumra z- liðsmanna nú sé a.m.k. að hluta til þessarar ættar, þeir sjálfir hafi átt bágt með á sínum tíma að tileinka sér fyrrum lögbundna notkun þessa umdeilda bókstafs og líti á það eins og hvert annað tap að þetta stöðutákn falli í verði með nýjum reglum. Og nú á að reyna að hækka gengi þess á ný. En það er mikill misskilningur hjá þessum mönnum að þeir geti ekki eftir sem áður ljómað í skyni umframþekkingar sinnar á þessu sviði ef þeir vilja. Það er nefnilega hvergi bannað að skrifa áfram z í eigin ritum, málgögnum eða þingræðum. Það eru aðeins skólabækur og opinber gögn sem skrifast verða með lögboðinni stafsetningu. Hitt er ekki annað en óbilgirni af þessum sömu aðilum, að ætlast til að til þess að þeir geti borið betur af öðrum skuli eytt dýrmætum tíma kynslóða skólanemenda í að læra óþörf rittákn sem engin málfræðileg rök mæla með, í stað þess að nýta meira af tímanum til raunhæfs málnáms. Og að ætla nú að breyta þriggja ára skynsamlegum reglum aftur til fyrra forms með valdboði frá Alþ. og gefa þannig það fordæmi að þessi stofnun geti að geðþótta breytt stafsetningu, til og frá frá ári til árs tel ég glapræði sem seint verður bætt. Ég er þess enda fullviss að jafnvel þeir, sem fylgjandi eru fyrri rithætti og vilja halda honum sjálfir, bæði meðal undirritaranna 100 og þm. 33 og annarra, vilja ekki láta græða botnlangann í skólanemendur aftur. Þetla má Alþ. ekki gera, og skora ég á hv. þm. deildarinnar að fella þetta frv. og taka fremur til umr. fyrirliggjandi frv. hæstv. menntmrh. um framtíðarskipan á setningu reglna um íslenska stafsetningu.

Læt ég svo lokið máli mínu að sinni.