13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4257 í B-deild Alþingistíðinda. (3626)

115. mál, íslensk stafsetning

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Við höfum nú verið að ræða hér á nokkuð löngum fundum þetta frv. sem hér er til umr. um íslenska stafsetningu sem hv. 9. þm. Reykv. er 1. flm. að, og verð ég nú að segja að nokkuð hefur það verið sótt af kappi að þetta frv. væri rætt og með helst til miklum hraða að mínum dómi. Ég held að þetta frv. sé þess eðlis að það væri nauðsynlegt að skoða miklu betur það efni sem í því felst. Sannleikurinn er sá, að jafnvel þótt það megi margt gott um efni þessa frv. segja og þó að það sé út af fyrir sig merkileg stafsetning sem fundin var upp árið 1929 og þá fest sem eins konar lög með reglugerð eða auglýsingu, eins og þá tíðkaðist, þá held ég að það sé, eins og nú er komið, ákaflega illa farið að flytja þetta frv. og ætla að fara að hverfa aftur til fyrri hátta í þessu efni.

Það hefur eðlilega og réttilega verið bent á að það sé mikils um vert að það ríki festa í sambandi við stafsetningu, en ekki glundroði. Þetta er vitanlega alveg rétt, og ég hygg að þessi orð hafi fallið af hálfu hv. flm. þessa frv., og ég býst við að þeir hafi einkum notað þessi orð um það bil sem auglýsing var gefin út á sinni tíð, eða 1973, um afnám, og eins 1974, þegar ný reglugerð gekk í gildi um stafsetningu almennt. Þá var mikið talað um það að þetta mundi leiða til glundroða. En hitt er jafnvist, að þetta eru þegar orðin lög, ef svo má segja. Það er búið að festa það að það skuli kenna í skólum landsins þá stafsetningu sem ákveðin var með auglýsingunni frá 1973 og 1974. Og ég verð að segja það, að það hlýtur þá að leiða til verulegs glundroða ef á að fara að hverfa aftur frá því, sem þá var ákveðið, og taka upp eldri stafsetningu og þvinga þetta upp á landslýð með löggjöf. Ef þetta leiðir ekki til glundroða, þá veit ég ekki hvað það er. Enda er það nú svo, að það hefur komið fram mikil andstaða og eðlileg gegn þessu frv., sem hér liggur fyrir, og gegn því, að það verði farið að hringla nú eftir tvö ár með stafsetningu á Íslandi. Þessi andstaða hefur auðvitað fyrst og fremst komið frá kennarastéttinni sem hefur það erfiða hlutverk að kenna börnum og unglingum réttritun eða stafsetningu. En þetta hefur einnig komið frá ýmsum öðrum. Ég efast um að hv. þm. hafi fyllilega gert sér grein fyrir því hvað hér er um að ræða og hversu margir það eru sem í reynd hafa áhyggjur af þessu meðal kennarastéttarinnar. Og ég kemst ekki hjá því að vísa til skjala sem ég hef hér í höndum og eru nýlega komin í mínar hendur og ég held að sé nauðsynlegt að kynna hér í hv. deild.

Ég hef hér t.d. meðferðis skeyti eða afrit af skeyti til menntmn. Ed. Alþ. Það mun vera sent 12. maí, þ.e.a.s. í fyrradag. Og með leyfi hæstv. forseta langar mig til að kynna þetta skeyti, sem hljóðar þannig:

„Við undirritaðir kennarar í Víðistaðaskóla, Hafnarfirði, lýsum okkur andvíga upptöku z í íslenska stafsetningu og treystum því að n.“ — þar er átt við menntmn. Ed. — „mæli gegn fram komnu frv. um z.“

Albert Már Steingrímsson.

Guðrún Halldórsdóttir.

Erla María Eggertsdóttir.

Jónina Ágústsdóttir.

Guðrún Petersen.

Ólafur Danivalsson.

Magnús Már.

Sigurður Óli Geirsson.

Sigrún Þórarinsdóttir.

María Eiríksdóttir.

Garðar Guðmundsson.

Hörður Zóphaníasson.

Rúnar Már Jóhannsson.

Jóhanna Harðardóttir.

Sigrún Arnórsdóttir.“

Þá hef ég einnig í höndum skeyti sem einnig er stílað til menntmn. Ed., og leyfi ég mér að lesa þetta skeyti, sem er stutt, með leyfi hæstv. forseta:

„Lýsum okkur andvíg upptöku z í íslenska stafsetningu. Treystum því að n. mæli gegn fram komnu frv. um z.

Kennarar við Lækjarskólann, Hafnarfirði.“

Og enn er hér eitt skeyti:

Menntmn. Ed. Alþingis,

Alþingi, Reykjavík.

Lýsum okkur andvíg upptöku z í íslenska stafsetningu. Treystum því að n. mæli gegn fram komnu frv. um z.

Stjórn Kennarafélaks Flensborgarskóla.“

Þessi skeyti segja sína sögu. Þau sýna það að starfandi kennarar hafa síður en svo áhuga á því að horfið verði til þeirrar stafsetningar, sem lögleidd var, ef svo má til orða taka, sem ákveðin var með auglýsingu ráðh. árið 1929 og gilti allt til ársins 1974. En það eru líka mörg fleiri bréf sem votta það að kennarastéttin hefur ekki áhuga á því að viðhalda z í íslenskri réttritun. Ég er hér með í höndum bréf sem er skrifað 4. apríl 1974, frá Sambandi ísl. barnakennara. Það bréf hefur verið kynnt hér, held ég, áður í hv. d., þannig að það er kannske óþarfi að ég sé að lesa það frá orði til orðs. En það er undirskrifað af Inga Kristinssyni, formanni stjórnar Sambands ísl. barnakennara, og þar leyfir stjórnin sér að vekja athygli á till. sem samþ. var á fundi stjórnar sambandsins 2. apríl 1974. Þar er þeim eindregnu tilmælum beint til menntmrh. og Alþ. að halda fast við ákvörðunina um að fella z niður úr íslensku ritmáli, og segir í þessu bréfi að þetta rittákn hafi alltaf verið óþarft í íslensku og ekki hnigi nein málfræðileg rök fyrir notkun þess, eins og sýnt hafi verið fram á af öðrum. Einnig segir í þessu bréfi orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Með því að einfalda stafsetninguna að skynsamlegu marki er verið að gefa kennurum tækifæri til þess að sinna betur málinu sjálfu og notkun þess.“

Ég tel mjög mikilvægt að menn festi sér í minni þetta bréf sem komið er frá samtökum íslenskra barnakennara. Og ég verð að segja að það er dálítið undarlegt ef bréfi af þessu tagi hefur engin áhrif á skoðanamótun hv. þm. í máli sem þessu. Ég veit að það mundi a.m.k. hafa stórmikil áhrif á mig ef ég væri ekki þess sinnis sem ég er, ef slík álitsgerð bærist mér í hendur. Og sem sagt, mig undrar það að hv. þdm. skuli ekki hafa kynnt sér betur afstöðu kennarastéttarinnar í þessu máli og þeir skuli ekki láta það ráða afstöðu sinni hvernig hún lítur á þetta mál, því að vissulega hvílir þetta mál, kennsla réttritunar eða stafsetningar, hún hvílir langsamlega mest á kennarastéttinni, og það eru kennararnir sem vita best hvernig það er að kenna þessa stafsetningu eða kenna stafsetningu yfirleitt, og þá sérstaklega þá stafsetningu sem í gildi var um 45 ára skeið og allir viðurkenna og vita að var mjög erfið — flókin og erfið. Ég get sagt það til gamans að ég hef það eftir reyndum háskólakennara hér við Háskóla Íslands að það sé í hans deild um það bil helmingur þeirra kandídata, sem taki próf, sem sér virðist að hafi haft á valdi sínu að stafsetja rétt eftir þeim reglum sem giltu frá 1929–1974. Hann taldi að það væri um það bil helmingur kandídata sem hefði þetta á valdi sínu. Ég skal nú ekki fullyrða neitt um hvað rétt er í þessu, en þetta var hans skoðun. Og einkum taldi þessi háskólakennari að misbrestur hefði verið á því að stúdentarnir kynnu að fara rétt með z og hefðu gert það bæði á þann veg að sleppa z, þar sem hún átti að vera, og setja hana inn í orð, þar sem hún átti ekki að vera, þannig að það er jafnvel svo að þessi merkilega stafsetning, sem nú á að fara að lögfesta sérstaklega, getur tæpast talist vera lærðra manna stafsetning. Það er þá kannske miklu fremur að hún sé hálærðra manna stafsetning.

Fleiri gögn hef ég hér í fórum mínum, sem nýlega hafa borist hingað, sem sýna það augljóslega að mörgum ágætum manni þykir það síður en svo til bóta að ætla að fara að lögfesta hinar eldri reglur. Ég er hér t.d. með afrit af bréfi Árna Böðvarssonar cand. mag., en það bréf hefur þegar verið kynnt hér í deildinni og er óþarfi að ég lesi það allt saman upp. En af ýmsu er þar að taka sem ég hygg að væri mjög hollt fyrir hv. þdm. að kynna sér, en því miður eru ansi fáir af þdm. staddir hér nú á þessum næturfundi, og er það í rauninni illt því að hér er verið að ræða mjög mikilsvert mál, og það hefði einkum og sér í lagi verið mikilsvert að hv. þdm. hefðu fengið aðstöðu til að kynna sér erindi Árna Böðvarssonar málfræðings. En sem betur fer er þetta bréf stílað til menntmn. Ed. Alþ., og fari nú svo mót von minni að þetta frv. gangi til Ed. og komi þar fyrir, þá er það þó a.m.k. bót í máli að þetta erindi Árna mun liggja fyrir d. eða a.m.k. fyrir menntmn. Ed., og kann að vera að þetta erindi ætti eftir að leiða þá, sem þar kunna að vera fylgjandi því frv. sem hér er til umr., til rétts skilnings á eðli þess og afleiðingum.

Ég hef nú rætt hér nokkuð um það, að það sé mjög óeðlilegt og hljóti að leiða til glundroða ef nú á að fara að breyta til um réttritunarreglur hér hjá okkur eftir að nýjar reglur hafa verið í gildi aðeins í tvö ár. Ég held, að menn hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir því hver vandamál stafsetningar eru almennt og hafa ætíð verið. Ég óttast því miður að hv. þdm. hafi yfirleitt ekki kynnt sér það hversu vandamál stafsetningar eru margvísleg. En þó er það nú svo auðvitað að kennarastéttin og ýmsir aðrir hafa hugleitt þetta bæði fyrr og síðar og menn hafa flutt um þetta erindi og ritað um þetta greinar, og ég held að það væri mjög nauðsynlegt að menn vildu kynna sér, þótt í litlu væri, nokkuð af því, hvernig menn hafa velt þessum málum fyrir sér.

Ég hef hérna meðferðis grein eftir Halldór Halldórsson sem nú er prófessor í málfræði við háskólann. Þetta er orðin nokkuð gömul grein, þetta er í rauninni erindi, prentað erindi, sem var flutt á þingi norðlenskra barnakennara 9. júní 1950 á Akureyri. Og í þessu erindi fer Halldór Halldórsson málfræðingur og núprófessor almennum orðum um íslenska stafsetningu og nefnir þetta: Rabb um íslenska stafsetningu. Þetta erindi Halldórs Halldórssonar gefur góða innsýn í ýmislegt varðandi stafsetninguna eins og hún var þá og raunar um stafsetningu eins og hún er á hverjum tíma og þau vandamál sem fylgja stafsetningu og stafsetningarreglum, stafsetningarkennslu. Ég vil nú leyfa mér, hæstv. forseti, að fá að glugga dálítið í þessa grein og leyfi mér þá að að vitna til hennar beinum orðum og lesa upp úr henni.

Það segir svo í upphafi þessarar greinar: „Eiríkur Sigurðsson kennari fór þess á leit við mig fyrir hálfum öðrum mánuði að ég flytti hér fyrirlestur um íslenska stafsetningu. Ég get ekki láð Eiríki að hann skyldi fara á fjörurnar við mig um þetta, því að mér er ógerningur að neita því að ég er nokkuð við stafsetningarmál riðinn. Ég hef um alllangt skeið stundað íslenskukennslu og þá um leið stafsetningarkennslu, og ég hef samið tvær bækur er varða íslenska stafsetningu. Ég ætti því að geta og get sagt ýmislegt um þetta efni, en þó er mér nær að ætla að Eiríkur hafi verið seinheppinn í vali sínu. Ef satt skal segja hefur mér alltaf virst árangur af stafsetningarkennslu minni ömurlega lítill.“

Þetta eru orð Halldórs Halldórssonar um árangur af kennslu sinni í stafsetningu, og var Halldór Halldórsson þó talinn með allra bestu kennurum. Og hann heldur áfram:

„Þetta hefur orðið til þess að ég hef e.t.v. hugsað meira um þennan þátt námsefnisins en aðra. Það er sagt að ýmsir merkir uppeldisfræðingar hafi verið misheppnaðir uppalendur. Ástæðan gæti verið sú að lélegur árangur í uppeldi barna þeirra hafi orðið þeim tilefni til spaklegra hugleiðinga er notagildi höfðu fyrir aðra sem lag höfðu á að hagnýta sér tillögur þeirra og vísdómsbendingar. Við skulum vona að ég sé undir svipaða sök seldur, þ.e. að ég geti leiðbeint öðrum á þessum hálu brautum þótt árangur af stafsetningarkennslu minni hafi virst mér lítill.

Mér hefur stundum dottið í hug, ef þunglega hefur sótt róðurinn í stafsetningarkennslu,“ segir Halldór Halldórsson, „hvernig ég hafi sjálfur lært stafsetningu. Þó að ég reyni af fremsta megni að rifja þetta upp fyrir mér er mér ógerningur að muna með nokkurri nákvæmni hvernig ég hef farið að þessu. Ég á enn nokkuð af stílabókum mínum úr barnaskóla og ég sé í þeim að þar eru fáar villur. Aðalvillurnar eru fólgnar í því að ég ritaði g í stað k eða d í stað t. t.d. taga, gada enda var ég alinn upp við þess konar framburð. Auk þess gætir nokkuð y-villna eins og eðlilegt er. N-villur sé ég þar yfirleitt ekki. En ég skal geta þess að fyrsti kennari minn í íslensku var óvenjulega vel menntaður kennari og miklu meira en það, því að hann var afburðakennari, einn af þessum fáu mönnum sem eru kennarar af guðs náð. Þessi maður var Hans Einarsson frá Guðrúnarstöðum í Eyjafirði. Einhvern veginn hefur Hans tekist að rista hinar torráðnu stafsetningarrúnir fastlega í huga mér. En ég man mjög óljóst hvernig hann fór að þessu. Þó minnist ég þess að hann lét okkur gera mjög mikið af endursögnum, en það mun ekki hafa verið neitt einstakt um hann, heldur almennt tíðkað um þessar mundir. Stafsetningaræfingar eins og nú tíðkast lét hann okkur aldrei gera.

Sigurður Guðmundsson skólameistari, sá mikli töframaður í kennslulist, reisti síðar á þeirri undirstöðu, er Hans lagði. Ég minnist þess stundum nú og brosi þá jafnan í kampinn að Sigurður tók síg stundum til, ef einhver hafði gerst illilega brotlegur við reglur um stafsetningu, og þuldi yfir okkur hinar margbrotnustu reglur um það hvar rita skyldi eitt n og hvar tvö. Gekk hann að þessu með þeim einstaka áhuga og þeirri makalausu elju sem honum var lagið.“

Og enn segir Halldór Halldórsson: „Ég hafði að vísu mjög gaman af því hve skólameistaranum var hugleikið að við nemendur hans vissum skil á mjög torlærðum reglum hans. En ég hugsaði ávallt sem svo, að ég legði það ekki á mig að læra þetta. Þeir, sem gerðu villur af þessu tagi, bættu að gera það, en ég væri undanþeginn þar sem slíkt henti mig aldrei. Heilbrigðir þurfa ekki læknis við, hugsaði ég.

Oft hef ég hugleitt þetta síðan og alltaf komist að þeirri niðurstöðu að í rauninni hafi ég haft rétt fyrir mér. Nemandi, sem gerir n-villur, á ekki að læra n-reglur, vegna þess að reglurnar eru til þess að nemandinn læri hvar rita skuli eitt n og hvar tvö, en þær hafa ekkert gildi í sjálfu sér. Þær hafa aðeins hagnýtt gildi, en eru á engan hátt menntandi eða a.m.k. er hægt að finna margt annað sem miklu fremur er menntandi að læra. Samt iðraði mig þess síðar, en því ollu alveg sérstakar aðstæður sem ekki eiga við alla. Ég gerðist íslenskukennari og þá komst ég í kast við fjöldann allan af nemendum sem ekki höfðu átt því láni að fagna að njóta í bernsku tilsagnar slíks kennara sem Hans Einarssonar og þurftu á reglunum að halda, og þá öfundaði ég þá sem kunnu reglur skólameistarans. Þegar þetta gerðist kunni ég að vísu íslenska stafsetningu til nokkurrar hlítar, en ég kunni engar stafsetningarreglur og þá varð ég að byrja að læra þær.“

Nú heldur Halldór Halldórsson áfram hér og hann spyr m. a. þessarar spurningar eftir að hafa rætt nokkuð um stafsetningarreglur og þá sálarkvöl sem þeim stundum fylgir. „En þá kynni einhver að spyrja: Er ekki unnt að koma fram með einhverjar breytingar sem orðið geti til bóta? Slík spurning er eðlileg og hún er meira en það. Við megum aldrei gleyma þeirri spurningu eða öðrum sem ganga í svipaða átt. Það er ávallt bráðnauðsynlegt að hafa hugann opinn fyrir nýjungum, jafnt í þessum efnum sem öðrum. Á hinn bóginn er einnig jafnnauðsynlegt að láta ekki nýjungagirnina hlaupa með sig í gönur, heldur vega og meta rök á báða bóga. Að þessu verður óbeint vikið síðar,“ segir Halldór Halldórsson í þessu merka erindi sínu, þar sem hann fer almennum orðum um stafsetningu og þá erfiðleika sem henni fylgja.

Nú er það svo að ég skal ekki lesa hér þetta allt saman, allt þetta erindi hér upp frá orði til orðs, en mun kannske aðeins vitna til einstöku setninga. Hann hefur á undangengnum blaðsíðum, sem ég hef nú flett yfir, viljað gera, eins og hann segir, ljósa örðugleika við stafsetningarnámið, og hann vill biðja menn að minnast þess að það megi fleira um það segja heldur en hann hafi þarna tínt til þó í nokkuð löngu máli sé. „Og niðurstaða mín,“ segir Halldór Halldórsson, „er í aðalatriðum sú, að námsefnið sé of þungt fyrir mikinn fjölda nemenda, og þó að segja megi að nokkur ávinningur sé að því að miða stafsetninguna svo mjög við upprunann, aðallega vegna þess að þá læra menn þó nokkuð í málssögu jafnframt stafsetningarnáminu, þá hygg ég að einsætt sé að breyta um stefnu, þ.e. færa stafsetninguna nær nútímaframburði með sérstakri hliðsjón af því hvort breytingarnar gera stafsetninguna auðveldari til náms og þá jafnframt til kennslu.“

Ég held að það væri mjög hollt fyrir hv. þdm. að festa sér í minni þessi orð Halldórs Halldórssonar sem hann ritar árið 1950, fyrir 26 árum, þar sem hann segir að niðurstaða hans þá sé sú, þó að það sé ávinningur að því á ýmsa vegu að miða stafsetninguna svo mjög við upprunann, þá sé einsætt að það eigi að breyta um stefnu, færa stafsetninguna nær nútímaframframburði með sérstakri hliðsjón af því hvort breytingarnar gera stafsetninguna auðveldari til náms og þá jafnframt til kennslu. Ég tel að þetta sé mjög merkileg niðurstaða hjá Halldóri Halldórssyni og sýni það, að það er orðið langt síðan, það er orðið ærið langt síðan menn fóru að hugleiða í alvöru að það væri nauðsynlegt að breyta stafsetningunni frá 1929. Þetta gerist árið 1950 og þá eru aðeins liðin 21 ár frá því að stafsetningin frá 1929 var sett. Og þessar hugleiðingar Halldórs Halldórssonar frá 1950 eru allar í rauninni endurómur af því að menn hafa haft frá upphafi áhyggjur af þessum þungu stafsetningarreglum sem settar voru í lög, svo að ég noti það orð, — settar voru í lög árið 1929. Það er því engin furða og þarf engum að koma á óvart þó að þessum reglum hafi verið breytt eftir 45 ár, árið 1973 og 1974. Það þarf engum að koma á óvart þó svo hafi verið gert.

Þetta erindi Halldórs Halldórssonar er miklu lengra heldur en þetta. Ég hef aðeins drepið hér á örfá atriði í þessu sambandi, en e.t.v. mætti vitna til margs annars sem stendur í þessu ítarlega erindi þó að ég geri það ekki að þessu sinni, a.m.k. ekki að sinni. En ég hef líka hérna við höndina aðra grein sem er skrifuð um svipað leyti, þ.e.a.s. árið 1949, og birtist í tímarit kennarasamtakanna, Menntamálum, og er rituð af gömlum manni austur á Seyðisfirði, má segja gömlum alþýðumanni, Sigurður Sigurðsson hét hann og stundaði kennslustörf fyrir austan lengi, hafði lært nokkuð, og þó að hann væri ekki út af fyrir sig lærður í íslenskum fræðum, þá hafði hann eigi að síður góða þekkingu á íslensku og reynslu sem kennari og m.a. af því að kenna móðurmálið. Það er fróðlegt að lesa þessar greinar þeirra Halldórs Halldórssonar og Sigurðar Sigurðssonar saman. Þarna eru tveir menn að hugleiða það sama. En Sigurður Sigurðsson ritar grein í Menntamál árið 1949 sem hann kallar „Rithátt íslenskunnar“, og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — vísa hér örlítið í þessa grein. Sigurður Sigurðsson segir þannig:

„Ég minnist þess frá æskuárum mínum að ég heyrði svo að orði komist um móðurmál vort að það væri lítt vandritað, orðin væru rituð eins og þau væru sögð. En þó að ummæli þessi séu ekki fjarri sanni ef ensk tunga er t.d. borin saman við íslensku að rithætti og framburði, þá hefur mér smám saman orðið það ljóst að íslenskan er allmjög vandrituð. Sú er reynsla mín í þessu efni. Þó að ég sé ekki lærður málfræðingur, rithöfundur eða stílsnillingur, þá hef ég fengist mikið við fræðslu byrjenda í málfræði og stafsetningu um hálfrar aldar skeið. Hef ég stuðst við flestar byrjendabækur í þessum efnum allt frá réttritunarreglum Halldórs Friðrikssonar til nýjustu kennslubóka í málfræði og stafsetningu. En þó að ég telji mig hafa grætt allmikið á þessum bókum, þá er ég langt frá því að vera fullnuma í stafsetningu móðurmálsins. Má það teljast léleg útkoma eftir 60 ára námsiðkanir þó að þær hafi verið í molum með köflum.

En hvers vegna er útkoman ekki betri en þetta?“ segir þessi gamli kennari. „Algengt mun það vera að léleg útkoma eða árangur af fræðslu og notkun fræðslugagna sé að einhverju leyti sök þeirra sjálfra er við námið fást. Svo mun einnig hér. Um það ræði ég ekki. En með því að hér er einkum um sjálfsnám að ræða sem framhald af undirstöðufræðslu í Möðruvallaskóla á árunum 1893–1895 verður hér rætt um nokkur stafsetningaratriði með hliðsjón af fræðslugögnum þeim, sem ég hef notað, og þá einkum þau af þeim er núgildandi stafsetning er miðuð við. Ætlast ég til að spurningunni hér á undan verði óbeinlínis svarað q eftirfarandi athugasemdum.“

Síðan fer hann ýmsum orðum um fræðslugögn sem hann hefur undir höndum, vísar til málfræði Björns Guðfinnssonar og ritgerðar eftir Magnús Finnbogason um stafsetningu móðurmálsins og leggur út af þessu og skrifar hér býsna langt mál um þetta og ber saman stafsetningu eins og hún var, eins og hann hefur kynnst breytingum, þeim breytingum sem orðið hafa á þessu á langri ævi hans. Þetta er ritgerð

sem vissulega væri æskilegt að þm. kynntu sér vel, ein af þeim ritgerðum sem mundu auðvelda mönnum að kynnast því máli, sem hér er um að ræða, og þeim vandamálum, sem við er að stríða í sambandi við stafsetningu, stafsetningarreglur og stafsetningarkennslu. Finnst mér eðlilegt, að menn kynntu sér vel þessa grein. Ég hef lesið þessar tvær greinar mér til mikillar ánægju samtímis og orðið sýnu fróðari af því að kynnast viðhorfum manna sem hafa að ýmsu leyti ólíka þekkingu eða menntun á sínu sviði, en a.m.k. sama áhugann og komast að mörgu leyti að sömu niðurstöðu. Og þannig er það, að ef við flettum í gegnum rit kennarastéttarinnar, Menntamál, raunar öll þau mörgu ár sem þetta rit hefur verið gefið út, þá er alltaf meira og minna, næstum að segja árlega, fjallað um stafsetningarmálin, um þá erfiðleika sem það er að kenna stafsetningu og stílagerð, og það skín yfirleitt í gegn að þær reglur, sem settar voru 1929, hafa reynst erfiðar í kennslu of þungt námsefni, þannig að það hefur ekki veríð möguleiki á því fyrir alla nemendur, þó að þeir væru annars sæmilegir nemendur, að tileinka sér það nám fullkomlega eða ná fullu valdi á stafsetningunni.

Í Menntamálum frá því í mars 1948 ritar Guðjón heitinn Guðjónsson skólastjóri í Hafnarfirði langa grein í blaðið eða tímaritið um réttritunarkennslu í barnaskólum og greinir frá kynnum sínum af þeirri kennslu á Norðurlöndum, eins og hún fer fram annars staðar á Norðurlöndum þar sem hann þekkti til, einkum í Svíþjóð og Danmörku, og það er augljóst af þessum greinum að réttritunarkennslan í barnaskólunum hefur tekið mjög mikinn tíma og verið kennurunum erfitt viðfangsefni og nemendunum sömuleiðis. Enda er það svo, eins og hefur verið margtekið fram í þessum umr., að stafsetningin frá 1929 var í reynd og að lögum, ef svo má segja, eins konar lærðra manna stafsetning. Hún var aldrei kennd í barnaskólunum. Það var ekki byrjað að kenna stafsetninguna að fullu, þ.e.a.s. z-reglurnar, — það var ekki byrjað að kenna þetta fyrr en kom upp í gagnfræðaskóla, og þetta eitt út af fyrir sig sýnir að þessar reglur, sem hv. flm. þessa frv. sem hér er til umr., vilja nú lögfesta að nýju, — þetta eru í raun og veru óhæfar réttritunarreglur, óhæfar stafsetningarreglur, því að það hlýtur að vera óeðlilegt að hafa hina lögbundnu stafsetningu svo þunga og flókna og erfiða að það þyki ekki möguleiki á því að kenna hana á barnaskólastigi. Það er algerlega óeðlilegt. Og ég held að flestir hafi verið farnir að koma auga á að þarna var maðkur í mysunni þegar stafsetningarreglunum var breytt 1973 og 1974.

Ég hef nú farið hér nokkrum orðum um afstöðu kennarastéttarinnar um þetta og bent á greinar og ritgerðir, sem sýna það að kennarar hafa haft áhyggjur af því hversu miklir erfiðleikar voru á því að kenna stafsetninguna og hversu mikill tími fór í það. En mig langar til þess að lesa hérna upp úr Menntamálum dálítinn skrýtinn samsetning sem heitir Stafsetningarbögur eftir Örn Snorrason kennara. Örn Snorrason hefur á langri ævi stundað barnakennslu og þ. á m. að kenna börnunum stafsetningu, og Örn hefur löngum haft sinn sérstaka hátt á því að kenna. Hann hefur víst oft fundið til þess að það var erfitt að festa börnunum reglur í minni, og hann hefur þá hér gert það að gamni sínu að setja saman það sem hann kallar Stafsetningarbögur og á að vera til þess að auðvelda nemendunum að læra stafsetninguna. Og ég ætla að lofa mönnum að heyra hvernig einn duglegur og ágætur kennari fer að þegar hann er að kenna börnum flóknar stafsetningarreglur, með leyfi hæstv. forseta, þetta eru aðeins örfáar vísur. Þær heita Stafsetningarbögur og hljóða svo:

„Ræ ég út á sérhljóðasæ

á sjálfri málfræðinni,

breiðir hafa brodd nema æ,

bara að ég þá finni.

Ge, gi, gí, gæ,

góða reglan engan villi,

ke, ki, kí, kæ,

kemst hér ekkert j á milli.

Efna, tefla, hafna, höfn,

hefna, skefla, kafna,

nefna, kefla, safna, söfn,

sofna, efla, dafna.

Gaman er að brjóta boð

sem berast mér í hendur,

ég ætla samt að setja j

í sækjendur og fjendur.

Upphafsstaf í Íslandshaf,

eins og kennir skólinn,

en laugardag með litlum staf

og líka blessuð jólin.“

Og svo kemur síðasta vísan og hún er nú best af þeim öllum:

„Blessaður, sagði Bangsímon

og bauð mér kaffi,

það er aldrei ufsilon

á eftir vaffi.“

Þetta voru Stafsetningarbögur Arnar Snorrasonar, og þetta eru ákaflega skemmtilegar og vel kveðnar vísur og hafa sjálfsagt verið börnunum mjög til gagns við þetta erfiða nám sitt. Ég efa það ekki að þetta hefur stórauðveldað börnunum að læra stafsetninguna eftir þessum ágætu vísum Arnar Snorrasonar. En þetta sýnir líka hvað kennararnir hafa orðið að leggja mikið á sig til þess að geta kennt börnum þokkalega þessa erfiðu stafsetningu sem gilti á þeim tíma þegar Örn orti þetta. Þetta var nákvæmlega þegar öld z-unnar stóð sem hæst, 1953, og sú stafsetning sem þá gilti yfirleitt.

Ég held sem sagt að það sé ekki til bóta að hverfa aftur til fyrri hátta. Ég held að það væri afturför, en ekki framför, að fara að taka upp þessa flóknu stafsetningu sem eiginlega öllum kennurum, má segja, ber saman um að hafi verið mjög erfitt að kenna og reynslan mun sýna að nemendur hafa átt erfitt með að tileinka sér. Þess vegna held ég að það hafi verið tímabært þegar þáv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, beitti sér fyrir því að breyta stafsetningarreglunum á árunum 1973 og 1974, og má segja raunar að þetta hafi verið vonum seinna. Eins og ég var að benda á áðan, þá ræddi Halldór Halldórsson þetta fyrir mörgum árum, að það væri full ástæða til þess að einfalda stafsetninguna, þannig að mönnum hefur lengi verið það ljóst að þetta var nauðsynjamál. Ég verð að segja það, að þetta frumkvæði þáv. menntmrh. var mjög þakkarvert. Hann átti þakkir skildar fyrir þetta frumkvæði um breytingu á stafsetningarreglum. Hins vegar finnst mér að það sé hið mesta óþurftarverk að fara nú að leggja það til að nú skuli aftur breytt til. Ég held að það mundi leiða til glundroða og hefur kannske þegar gert það. Þær umr., sem staðið hafa, hafa e.t.v. leitt til glundroða í þessu máli þegar, en alla vega er það ljóst að það mun leiða til fullkomins glundroða ef á nú að fara að skipta enn um, eins og kemur fram eða kom fram í bréfi Árna Böðvarssonar sem hér hefur verið lesið. Bendir hann á það að einhverrar andstöðu hafi gætt um tíma hjá hluta kennarastéttarinnar t.d. og e.t.v. hjá öðrum, en hann telur að þessi mótstaða, þessi andstaða gegn þessum nýju reglum, sem settar voru 1973 og 1974, sé nú hverfandi meðal kennarastéttarinnar og hjá ýmsum öðrum. Ég hygg að þetta muni rétt vera, enda er Árni Böðvarsson mjög vel kunnugur kennarastéttinni og sjálfur kennari. Þess vegna furðar mig á því að þeir hv. þm., sem flytja þetta frv., skuli flytja sitt mál af slíku offorsi eins og raun ber vitni. Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós undrun mína yfir því hversu ákafir þeir eru í þessum frumvarpsflutningi sínum, þannig að það má næstum óvenjulegt heita. Það er vissulega algengt hér að einstakir þm. hreyfa áhugamálum sínum og þeir fylgja þeim duglega eftir, en hins vegar er það ekki algengt hér í þinginu, að þm. fylgi frv. sínum eftir með offorsi og án þess að málið sé fullkannað og fullrætt.

Ég verð að segja það, að það er út af fyrir sig ekkert að sjá eftir því þó að Alþ. taki skorpur af og til um stafsetningarmál og um mál sem snerta íslenska tungu og um menningarmál yfirleitt, því að sannleikurinn er nú sá að þau mál ræðum við of lítið, og það er spegilmynd af áhuga þm. á þeim efnum hversu fáir hafa verið hér í kvöld og fram eftir nóttu við þessar umr. Og að ýmsu leyti verð ég að segja að menn hafa ekki sýnt þessu nægilegan áhuga almennt talað, heldur hafa þeir látið hina dugmestu og áköfustu af flm. þessa frv. leiða sig í hálfgerðar ógöngur í þessu máli og ekki verið nógu vel á verði fyrir ákafa þeirra og offorsi. Þykir mér miður að svo skuli hafa farið. En þetta sýnir einmitt hvað þm. eru lítið vakandi t ýmsum svona málum: menningarmálum, félagsmálum, kirkjunnar málum og ýmsu slíku. Það virðist vera nokkuð landlægur hugsunarháttur hér, því miður, á hv. Alþ. að þessi mál, ef á góma ber, þá séu þau einhvers konar sérviskumál tiltölulega fárra manna, en tilheyri tæpast þingmálum eða almennum landsmálum. Þetta tel ég mjög illa farið. En eigi að siður er þetta staðreyndin, og ég hef áður minnst á þetta atriði í umr. um önnur mál í vetur.

Ég hef verið að ræða um þetta frv. og bent á að það sé síst til bóta að fara að samþykkja það eða taka upp þær reglur sem þarna á að lögfesta, vegna þess að reynslan hafi skoríð úr um það þau 45 ár, sem þessar stafsetningarreglur giltu, að þetta var ótæk stafsetning á íslenskri tungu og þetta var ekki annað en gáfuleg uppfinning lærðra manna eða lærðs manns, hvort sem fleiri en einn hafa staðið að því að búa til þessa stafsetningu eða ekki. Og reynslan skar úr um það þau 45 ár sem þessar reglur voru í gildi að það var erfitt að kenna þessar reglur og það var erfitt fyrir nemendur að læra þær. Því miður hef ég ekki við höndina neina vísindalega niðurstöðu á þessum fullyrðingum mínum. En ég hef þó grun um að það muni vera til rannsókn á þessum efnum, gerð fyrir nokkrum árum, en einhvern veginn tókst mér ekki að afla gagna um það, hygg þó, að þetta hafi verið gert. Ég skal ekki fara frekar út í það, en það hefði sannarlega verið fróðlegt að hafa það plagg í höndunum. En það, sem ég hef lesið mér til um þetta, og það, sem ég hef fylgst með um þessi efni, þá sannar það mér algerlega að þessar stafsetningarreglur, sem hér á nú að lögfesta og við þekkjum frá fyrri tíð, voru, eins og hefur verið margtekið fram, erfiðar og flóknar og þess vegna ótækar sem kennslugrein og sem lögbundin stafsetning á íslenskri tungu. Og ef ég man rétt úr bréfi Árna Böðvarssonar, þá segir hann það beinlínis að þessi stafsetning hafi verið svo flókin, svo lærð, að ýmislegt það fólk, sem ekki hafði aðstöðu til þess að læra hana, t.d. á skólabekk, hafi veigrað sér við að skrifa greinar eða skrifa opinber bréf. Sjá allir að ef slíkt er útbreitt meðal fólks, þá er þetta beinlínis stórhættulegt íslenskri menningu, íslenskri þjóðmenningu, ef við búum við stafsetningu sem er svo flókin og svo lærð að venjulegur alþýðumaður veigrar sér við að skrifa bréf eða skrifa grein af ótta við það að verða sér til minnkunar vegna vankunnáttu í stafsetningunni. Og þó kann svo að vera að þessir sömu menn séu vel ritfærir og vel að sér í máli og frásagnarmenn góðir.

Ég held því að við ættum að hafna þessu frv., sem hér er til umr. Ég held að við ættum að halda okkur við þær reglur sem settar voru með auglýsingu nr. 132 3. maí 1974, þar sem settar eru reglur um nýja íslenska stafsetningu og megingildi þeirrar stafsetningar er það að einfalda stafsetninguna, afnema z sem var ekki annað heldur en lærðra manna uppfinning og hefur í raun og veru ekkert hljóðgildi í íslensku, borin fram sem s, eins og allir vita, og er líkleg til þess hins vegar að rugla margan í ríminu um rétt og rangt í stafsetningunni. Ég hygg fyrir mína parta að það sé vel séð fyrir íslenskri stafsetningu með því að láta þær reglur gilda, sem finna má í þessari auglýsingu frá 1974, og það væri síst til bóta og raunar stórkostleg afturför ef við færum nú að afnema þessar reglur, en taka aftur upp vandræðastafsetninguna frá 1929.

Ég skal nú ekki að sinni, herra forseti, hafa þetta mál öllu lengra. Ég hef reynt að halda mig fyllilega við efnið í ræðu minni og ekki teygt lopann svo lengi að neinn bagi þurfi að vera af fyrir þingstörfin. En vissulega er margt ósagt enn um þetta mál og einkum er þó það ósagt að rekja viðburði síðustu ára nánar um þessi mál og þá alveg sérstaklega að rekja viðburði þessa vetrar í þessum efnum, þó að ég hafi minnst á það nokkrum orðum þar sem ég lagði þunga áherslu á að þetta frv., sem nú er til umr. hér, hafi verið flutt af offorsi. Það er kannske stórt orð, en ég nota það og með vilja, það hefur verið flutt af einstökum ákafa þannig að ég tel að óvenjulegt sé, og það hefði verið nauðsynlegt fyrir þingheim að kanna þetta mál miklu betur. Í rauninni er ég sannfærður um það og hef reynt að beita mér af alefli gegn því að þetta mál næði fram að ganga af því að ég hef sannfæringu fyrir því að þetta sé óþurftarverk.