13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4268 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

115. mál, íslensk stafsetning

Gils Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Enda þótt þingbekkir séu ekki ýkja-fjölsetnir um þessar mundir, þá langar mig til þess að leggja hér nokkur orð í belg og skal þó reyna að takmarka mál mitt og ræða um það efni sem hér er til meðferðar.

Það er í sjálfu sér ekki nýtt að deilt sé um stafsetningu á Íslandi. Stafsetning hefur lengi verið eitt af þeim málefnum sem bæði lærðir og leikir hafa látið síg allmiklu skipta og oft deilt um, stundum af miklu kappi og fjöri svo sem öllum er kunnugt.

Það, sem um er að ræða í sambandi við það mál sem hér er til umr., er það, hvort og með hverjum hætti Alþ. á að marka stefnu að því er varðar stafsetningu íslenskrar tungu. Á Alþ. að taka það verkefni að sér að setja löggjöf um þetta atriði, um þetta mikilvæga atriði, og hvernig á þá sú löggjöf að vera? Á Alþ. að fara inn á þá braut, sem ráð er fyrir gert í þessu frv., að ákveða með löggjöf í einstökum atriðum hvernig stafsetja skuli íslenskt mál? Eða á Alþ. á hinn bóginn að setja um það rammalög hvernig með þessi mál, stafsetningarmál íslenskrar tungu, skuli fara?

Fyrir Alþ. nú í vetur hafa legið tvö frv. um þetta efni, og ég vil ræða þau nokkuð saman, þar sem þau fjalla um sama málefnið og benda á tvær leiðir í sambandi við lausn þess. Það er í fyrsta lagi þmfrv. það sem hv. 9. þm. Reykv. og nokkrir aðrir hv. alþm. flytja um það hvernig íslensk tunga skuli stafsett í einstökum atriðum. Og það er á hinn bóginn frv. hæstv. menntmrh. þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum reglum um það hvernig fara eigi að við ákvörðun stafsetningar íslenskrar tungu. Ég skal láta þess getið nú þegar í upphafi míns máls að ég er eindregið fylgjandi þeirri stefnu sem mörkuð er í frv. hæstv. menntmrh., að það eina, sem Alþ. eigi að gera í stafsetningarmálum ef það á annað borð getur þar um löggjöf, það eigi að vera þetta, að setja um það eðlilegan og skynsamlegan og hóflega rúman ramma hvernig standa beri að því að endurskoða og breyta gildandi ákvæðum um stafsetningu íslenskrar tungu. Hitt tel ég að mörgu leyti mjög varhugavert, og ég vil láta það koma fram að ég efast um að það sé nægilega vel hugsað, þrauthugsað af hv. flm. og stuðningsmönnum frv. til l. um íslenska stafsetningu sem hv. 9. þm. Reykv. og fleiri flytja, — ég efast um að það sé þrauthugsað til hvers það getur leitt og til hvers það leiðir víslega ef sá háttur verður tekinn upp að ákveða með löggjöf frá Alþ. hvernig skuli stafsetja í einstökum atriðum íslenska tungu. Og mun ég koma að því síðar hvað ég hygg að af þessu geti leitt og af þessu hljóti að leiða.

Ég verð, áður en lengra er haldið, að láta í ljós nokkra undrun á því hver verið hefur málsmeðferðin hjá meiri hl. hv. menntmn. þessarar d. í sambandi við þau tvö frv. sem fyrir liggja um stafsetningarmál. Ég fæ ekki betur séð á nál. meiri hl. n. heldur en málin bæði, og raunar kemur það í ljós í hæði meirihluta- og minnihlutaáliti, að málin bæði virðast hafa legið mjög lengi hjá n. án þess að hún sendi þessi frv. til umsagnar eins einasta aðila, að því er séð verður. Ekki veit ég hversu oft hefur verið fjallað innan n. um þessi frv. hvort um sig, en svo virðist sem þau hafi legið hjá n. býsna lengi án þess að hafa verið send til umsagnar aðila, svo sem venja er, og því síður kemur það fram að menn hafi verið kvaddir á fund n. til þess að ræða um þau efni, sem frv. þessi taka til, og um þær tvær stefnur, sem þar er verið að marka. Svo sé ég ekki betur heldur en nú fyrir skömmu, — 10. maí eru bæði nál. undirrituð, 10. maí koma fram nál. um annað þessara mála, þ.e.a.s. frv. hv. 9. þm. Reykv. o.fl., og svo virðist sem tækifærið sé notað þegar formaður n., hv. 1. þm. Norðurl. e., er fjarverandi, — þá er þetta mál afgreitt frá n., en hitt málið, mál hæstv. menntmrh., skilst mér að liggi þar enn.

Nú á allra síðustu dögum þings er verið að reyna að knýja þetta mál fram með nokkrum ákafa, svo að ég komist vægilega að orði. Hv. 1. þm. Norðurl. e., sem talaði hér á undan mér, sagði: „Með offorsi“, og við nánari athugun sýnist mér að það orð geti fyllilega staðist þegar tillit er tekið til þess hvernig allt er í pottinn búið og hvernig mál þetta er nú undir þinglok rekið áfram. Ég held fyrir mitt leyti að þetta sé ekki á neinn hátt viturleg málsmeðferð. Ég held að hv. alþm. ættu að gefa sér betra tóm heldur en þeir hafa gert til þess að kanna þetta mál nokkuð niður í kjölinn og þeir eigi ekki láta það eitt duga að hafa einhvern tíma á örskotsstund án þess að leiða hugann svo mjög að málinu, undirritað eitthvert plagg sem þeir telji sig síðan bundna af um alla framtíð í sambandi við afstöðu til þess máls sem hér er um að ræða. Ég held að ef menn gæfu sér verulegan tíma til þess að hlýða á rökræður um málið og ekki síst til þess að leggja það dálítið alvarlega niður fyrir sér til hvers samþykkt þessa frv. gæti leitt, þá kynnu þeir að breyta nokkuð um skoðun frá því sem þeir kunna að hafa látið í ljós, sumir hverjir e.t.v. án þess að hafa gefið sér nægan tíma til þess að brjóta þetta margslungna mál til mergjar og lesa það, ef svo má segja, niður í kjölinn.

Ég mun nú, án þess að lengja mál mitt um of, til nokkurs fróðleiks og til að auðvelda hv. þdm., þeim sem á mig hlýða væntanlega svona árla dags, svona snemma á nýjum vinnudegi, þá þykir mér rétt að rekja nokkuð sögu z-unnar í íslensku stafrófi án þess þó að fara út í hin smærri atriði, svo sem raunar kynni að vera tilefni til að gera nánar síðar ef svo vildi verkast.

Eins og ég sagði í upphafi, þá er það engin ný bóla og síst að lasta þó að umr. verði um stafsetningu íslenskrar tungu. Að vísu er stafsetning ekki annað en umbúðir, en þó mikilsverðar, og margt annað í sambandi við íslenska tungu er að sjálfsögðu öllu frjórra til umr. og líklegra til þess að alþm. geti almennt lagt þar einhvern verulegan skerf til mála heldur en e.t.v. í sambandi við það að setja reglur í einstökum smáum atriðum um stafsetningu. Þessar umr. um stafsetningu, sem nú hafa farið fram ná, að ég hygg, með nokkurra ára millíbili og sjaldan með margra ára millíbili um nálega hálfrar annarrar aldar skeið. Þær hafa m. a. leitt það í ljós, og að því mun ég færa rök hér á eftir, að það er allmikið vandamál að setja skynsamlegar og heppilegar stafsetningarreglur og það er ekki gert á mjög skammri stundu, fleygri stundu, þegar menn eru e.t.v. að hugsa um allt aðra hluti og gefa sér ekki tíma til að brjóta til mergjar aðalatriði stafsetningarmála. Þessar umr., sem ég mun nú rekja að nokkru, hafa oft verið málefnalegar sem betur fer. Stundum hefur þar að vísu gætt töluverðs hita og menn hafa flutt mál sitt af kappi, jafnvel í einstökum tilvikum meira af kappi en forsjá. En eins og ég mun leiða rök að, þá hefur það verið svo frá upphafi eða nokkuð á aðra öld, sem þessi umr. má segja að hafi farið fram, þá hafa veríð afar skiptar skoðanir meðal okkar fremstu málfræðinga um það hvernig ýmsum ákveðnum þáttum stafsetningar skuli fyrir komið og á hvað skuli leggja sérstaka áherslu. Hafa einkum togast á tvö sjónarmið, þegar maður lítur á aðalandstæðurnar, annars vegar upprunasjónarmið og hins vegar framburðarsjónarmið, en allur þorri málfræðinga og áhugamanna hefur þó hallast að einhverri miðlun á milli þessara tveggja höfuðsjónarmiða í stafsetningarmálum.

Sex sinnum a.m.k. munu hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á íslenskri stafsetningu, þannig að þeim hefur ýmist verið komið á með nokkuð víðtæku samkomulagi manna, sem höfðu mikil afskipti af stafsetningarmálum sem kennarar, sem blaðamenn, sem rithöfundar og aðrir, eða þá með reglugerð sem stjórnarráð hefur gefið út og þá einatt að undangenginni misjafnlega viðtækri og misjafnlega rækilegri athugun og umsögnum málfræðinga um þær breytingar sem til greina þóttu koma og gerðar voru. Tvisvar held ég að óhætt sé að segja að gerðar hafi verið nokkuð alvarlegar tilraunir til róttækra breytinga á íslenskri stafsetningu og þá í þá átt að hverfa frá upprunastafsetningu og taka upp a.m.k. í stórauknum mæli framburðarstafsetningu eða eitthvað sem mjög nálgaðist þá kenningu. Þessar tilraunir til þess að gera býsna róttækar breytingar á íslenskri stafsetningu hafa ekki náð fram að ganga. Þær hafa, ég verð að segja nokkuð eðlilega, þá hafa þessar tilraunir mætt mikilli andstöðu og ekki orðið vinsælar, og ég hygg að reynsla m.a. af þessum tilraunum hafi sýnt að það er skynsamlegt í stafsetningarefnum að fara hægt í sakir, það er skynsamlegt að viðhafa þar nokkra — mér liggur við að segja verulega íhaldsemi, og ég hika ekki við að full.yrða að í þessum efnum er þróun ólíkt affarasælli en bylting.

Það mun mega telja að með prentun Nýja testamentis Odds Gottskálkssonar, með prentun elstu prentaðrar bókar á Íslandi sem vitað er um með öruggri vissu, sé unnið brautryðjendastarf að því er tekur til stafsetningar íslenskrar tungu. Fyrirmyndin að þeirri stafsetningu, sem valin var á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, er að því er Jón prófessor Helgason hinn lærðasti maður um þessi fræði, sá sem ritað hefur merka bók um þýðingu Odds Gottskálkssonar og Nýja testamentis-útgáfu hans, hann telur að Oddur Gottskálksson og þeir, sem með honum unnu að útgáfu Nýja testamentisins, hafi byggt þar fyrst og fremst á stafsetningu ýmissa þeirra handrita gamalla sem þeir þekktu og höfðu undir höndum. Það er eitt aðaleinkennið á handritum okkar að þar hugsa ritararnir um það m.a. og ekki siður en fagran frágang að spara skinnið. Þetta hefur haft mikil áhrif á stafsetningu handritanna, og það hafði einnig áhrif á stafsetningu hinna fyrstu prentaðra bóka á Íslandi. Að því er tekur til z sérstaklega, þá segir Jón Helgason prófessor svo í bók sinni um Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar að notkun z sé þar nokkuð á reiki, og með leyfi hæstv. forseta kemst prófessor Jón Helgason svo að orði:

„Í Nýja testamentinu er z nokkuð notuð og þá oft í staðinn fyrir s, t.d. á eftir d eða t, bordz, brotz o. s.frv., en mjög sjaldan fyrir tannhljóð.“ Og hann bætir við að í rauninni virðist ekki nein föst og ákveðin regla gilda um rithátt z, enda hefur hún vafalaust verið borin fram sem s eins og í nútímamáli. Þetta mun þó mega telja upphaf þess að farið er að nota z í ritum sem lesin voru að einhverju ráði af íslendingum, þ.e.a.s. með Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar er z að vissu marki innleidd og þó á annan hátt en síðar varð og á þann hátt, að ég hygg, sem engum dettur í hug nú á dögum.

Á tímum Guðbrands biskups Þorlákssonar, hins mikla bókaútgefanda, gilti í meginatriðum svipuð stafsetning á hans ritum og á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, og er þá helst það frávik, að því er z-una varðar, að hún er e.t.v. enn þá meira á reiki í ritum hans heldur en nokkurn tíma í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar.

Fyrsti maður, sem mun hafa gert tilraun til þess að semja stafsetningarreglur fyrir íslenska tungu, er sá merki fræðimaður Jón Ólafsson frá Grunnavík, sá maður sem fleira hefur unnið í íslenskum fræðum og á fleiri sviðum en margir hafa gert sér í hugarlund, og eitt af þeim sviðum, sem hann fékkst við, var stafsetning íslenskrar tungu. Þó er ekki ástæða til að dvelja lengi við stafsetningar- eða z-reglur þær, sem Jón Ólafsson frá Grunnavík vill viðhafa, þar sem þetta rit hans eða þetta uppkast að ritreglum komst aldrei á prent fremur en margt annað sem sá merki grunnvíkingur skrifaði, heldur lá það í handriti og vissu ekki aðrir um þessar ritreglur heldur en örfáir fræðimenn sem komust í handrit Grunnavíkur-Jóns. En Jón frá Grunnavík setur í þessum ritreglum sínum vissar reglur um z, þrengir þær reglur, ef reglur skyldi kalla, sem fylgt hafði verið áður, en tekur það alveg sérstaklega fram að hann telji þennan staf óþarfan og væri í sjálfu sér best að losa sig við hann.

Þá kem ég að þeim gagnmerka málfræðingi Rasmusi Kristjáni Rask, en um hann er það að segja, að hann kemur hér á eða reynir að koma hér á — og tekst það að allverulegu leyti ákveðinni stafsetningu sem fylgt var að mestu um 30 ára skeið eða þar um bil. Ég sleppi ýmsum hinum smærri spámönnum sem rituðu um stafsetningu ef þeir hafa a.m.k. ekki fjallað sérstaklega rækilega um stafinn z, svo sem Eggert Ólafssyni sem ritaði um stafsetningu og hallast fremur að því að rita z fyrir st í miðmynd sagna, en sný mér að Rasmusi Kristjáni Rask og verð að dvelja ögn við hans framlag, ekki síst vegna þess að hinar ágætu ritreglur hans minna mig dálítið að einu tilteknu leyti á það stafsetningarfrv. hv. 9. þm. Reykv. og félaga sem hér er verið að fjalla um, og það er þá alveg sérstaklega fyrirsögn þessa lestrarkvers sem Rasmus Kristján Rask tók saman og Bókmenntafélagið gaf út, en það heitir Lestrarkver handa heldri manna börnum. Og það minnir mig í rauninni á það að frv. hv. 9. þm. Reykv. mætti gjarnan bera heitið Stafsetning handa heldri manna börnum“. Það segir svo í þessu lestrarkveri Rasks og Bókmenntafélagsins að nota skuli stafinn z inni í orðum til þess að tákna samdrátt úr ðs, ds og ts þar sem borið er fram s. Þessar stafsetningarreglur Rasks og Bókmenntafélagsins komu út 1820 og giltu, ef þannig má til orða taka, eða við þær studdust ýmsir ritandi menn á Íslandi fram um 1850 eða þar um bil.

Þá kem ég að einhverri allra róttækustu, ef ekki róttækustu tilraun sem gerð hefur verið fyrr og síðar til þess að breyta íslenskri stafsetningu, og það er tilraun sú sem þeir Fjölnismenn með Konráð Gíslason í fararbroddi gera á sínum tíma. Eins og hv. alþm. hlýtur að vera kunnugt hóf ársritið Fjölnir göngu sína árið 1835 og fyrsti árgangur þess er að segja má í flestum efnum með þeirri stafsetningu sem Rask hafði lagt til og komið á að verulegu leyti árið 1820, eins og ég hef áður rakið. En þegar með 2. árgangi kemur Konráð Gíslason, sá snjalli og mikli málfræðingur, fram með kenningar sínar um mjög róttækar breytingar á íslenskri stafsetningu og vill fara miklu nær framburðarsjónarmiði og leggja í rauninni framburðarsjónarmið til grundvallar í meginatriðum þótt hann viðurkenni að það verði e.t.v. að víkja frá því í vissum tilvikum. Konráð Gíslason skýrir frá því hvað hafi í rauninni vakið sig fyrst til umhugsunar um þetta efni, að rétt væri að breyta mjög verulega íslenskri stafsetningu frá þeirri stafsetningu, sem Rask hafði lagt til með verulegum árangri að upp yrði tekinn, og til stafsetningar sem kalla mætti. framburðarsetningu. Hann segir að það, sem vakti síg til umhugsunar um þetta hafi verið ritgerð sem Árni Helgason stiftprófastur í Görðum birti í Ármanni á Alþingi árið 1832. Þar ræðir sá mæti maður, Árni Helgason, um framburð ýmissa stafa í lestri og telur eðlilegast að börn séu látin nefna þá eftir venjulegum framburði, þeim sem teljast megi almennan framburð og eðlilegan. Þannig eigi að nefna stafina e, k og q alla sem k, a og z í upphafi orðs eigi að nefna sem s, annars sem ks eða gs og ds eða ts, en raunar séu stafirnir x og z óþarfir stafir í málinu. Konráð segir frá því í nokkuð lengra máli, — ég hirði ekki um að rekja það svo frá orði til orðs, að þessi grein stiftprófastsins í Görðum, þess mæta manns, í Ármanni á Alþingi hafi orðið sér tilefni til rækilegrar íhugunar um íslenska stafsetningu almennt og hún sé í rauninni kveikjan að þeim stafsetningartillögum sem hann kemur nú fram með og eru einnig framkvæmdar á Fjölni þegar 2. árgangur ritsins kom út.

Eins og ég gat um áður, miðaði Rask sína stafsetningu fyrst og fremst við uppruna. Konráð Gíslason telur það afar hæpið og stundum raunar rangt og með öllu ógerlegt, auk þess sé á þeirri stafsetningu sá mikli agnúi að hún fylgi ekki þeim framburðarbreytingum sem gerst hafi í íslensku frá því í fornöld. Af þessum sökum leiði, eins og Konráð rekur í mjög glöggu og skýru máli, að bilið milli stafsetningar og framburðar breikki stöðugt. Konráð álítur slíkt vera öfugþróun hina mestu og þess vegna verði að spyrna þarna við fótum og reyna smám saman — hann vill ekki taka stökkið allt í einu — að færa stafsetningu íslenskrar tungu sem næst framburði.

Ég mun ekki fara mjög langt út í þessar reglur sem Konráð Gíslason leggur til og þeir Fjölnismenn reyndu að framkvæma. En svo fór að þeir urðu mjög fljótlega vegna andstöðu og raunar andúðar á þessum tiltölulega róttæku reglum að hverfa frá þeim og til annarrar stafsetningar sem um margt var lík þeirri stafsetningu sem Rask hafði mótað, og þó í einstökum atriðum nokkuð frábrugðin. Ég verð þó að geta þess, að í sambandi við þá stafsetningu, sem þeir Fjölnismenn vildu koma á, og reyndu að koma á, gætir, að því er málfræðingar telja, nokkurrar ósamkvæmni í stafsetningu úr því að þeir vilja hafa þá meginreglu að fara eftir framburði, en það stafar m.a. af því að Konráð taldi ekki rétt að stíga skrefið að fullu, fara alla leiðina í einu, heldur taka þarna áfanga að markinu.

Eitt af því, sem vekur nokkra athygli í sambandi við þessar róttæku tillögur Konráðs Gíslasonar, er það að hann vill útrýma y með öllu úr íslensku máli og leggur á það áherslu að þetta sé dautt hljóð, — það sé dautt hljóð í málinu sem þessi stafur tákni og í og í eigi að koma þarna í staðinn. Hins vegar vill hann í sumum atriðum halda z-unni eftir uppruna enda þótt hann viðurkenni að sjálfsögðu að hljóðgildi hennar sé löngu horfið úr framburði manna. Þetta hygg ég að hafi stafað af því, eins og ég áðan sagði, að Konráð vildi ekki fara of geyst af stað í fyrstu, enda sést það þá þegar á næsta árgangi Fjölnis, þ.e. 3. árgangi, þá færir hann stafsetninguna enn þá nær framburði heldur en þó hafði verið á 2. árganginum. En ég sé nú ekki ástæðu til að dvelja lengur við þessa tilraun, þó merk væri og gerð af einhverjum mesta málfræðingi okkar fyrr og síðar, þar sem þessi stafsetning Konráðs Gíslasonar var ekki tekin upp af neinum öðrum en Fjölnismönnum og þeir urðu sjálfir að gefast upp á því að halda henni til streitu.

Næst má segja að komið hafi sú stafsetning sem ýmist var kennd við Halldór Kr. Friðriksson yfirkennara eða kölluð skólastafsetningin, þar sem hún var, má segja, upprunnin í Latínuskólanum og kennd þar um langan aldur, þar sem Halldór Kr. Friðriksson var íslenskukennari. Það má í rauninni segja að þessi stafsetning hafi verið mótuð að nokkru af Konráð Gíslasyni og að nokkru af Halldóri Kr. Friðrikssyni og hafi þeir þar tekið mið af hvoru tveggja, upprunasjónarmiðinu og því framburðarsjónarmiði, sem Konráð hafði áður lagt megináhersluna á. Þessi stafsetning, sem kölluð hefur verið skólastafsetningin eða kennd við Halldór Kr. Friðriksson, hefur um z nánast þær reglur sem giltu hér allt frá því að z-an var tekin upp að nýju árið 1929 og fram að þeim tíma, fyrir þremur árum nú senn, að hæstv. fyrrv. menntmrh. nam hana úr gildi svo sem margrætt er, svo að um þessa z-reglu Halldórs Kr. Friðrikssonar þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það er í rauninni hún í stórum dráttum sem er komin hér afturgengin á borð þm. og hv. 9. þm. Reykv. ásamt fleirum vill innleiða á ný.

Róttæk tilraun var gerð til breytingar á íslenskri stafsetningu í átt til þess, sem Konráð Gíslason vildi á sínum tíma, þ.e.a.s. til framburðarstafsetningar, af Birni M. Ólsen, einhverjum snjallasta málfræðingi og norrænumanni sem við höfum átt. Eins og kunnugt er barðist hann mjög fyrir því að hætt yrði að skrifa bæði y og z þar sem hann taldi að þessi tákn væru algerlega úrelt og óþörf og ættu ekki lengur rétt á sér. Það mun hafa verið árið 1889 sem Björn M. Ólsen hélt fyrirlestur um stafsetningarmál í Hinu íslenska kennarafélagi og var þessi fyrirlestur birtur sama ár, en hann vakti þegar mikla athygli. Hann, Björn M. Ólsen, lýsti þeirri skoðun sinni að stafsetningarnýmæli Fjölnis og Konráðs Gíslasonar á 4. áratug 19. aldar hefðu verið merkustu stafsetningarnýmæli sem fram hefðu komið og langt á undan sínum tíma, og hann hefur um það þau orð, að þó að ekki hefði tekist þá að færa íslenska stafsetningu í það horf sem Fjölnismenn vildu, þá ætti að vera komin sú reynsla á og tími til að fara að leggja fyrir róða óþarfa stafi og óþörf tákn í málinu. Hann, Björn M. Ólsen, segir að að vísu sé vaninn ríkur og e.t.v. þurfi að breyta stafsetningunni í áföngum, það sé skynsamlegt að gera fremur hægfara breytingar, nema — og það margundirstrikar þessi merki málfræðingur — nema þar sem um er að ræða bókstafi sem hafa ekki lengur neina stoð í framburði landsmanna, og á hann þar við stafina y, ý, og z, en hann vill útrýma þessum stöfum öllum úr stafsetningunni og rökstyður það mjög rækilega.

Í sambandi við athuganir sínar á íslenskri stafsetningu hafði Björn M. Ólsen beitt ég held mjög nýstárlegri aðferð, a.m.k. miðað við þá tíma, sem hann greinir rækilega frá í fyrirlestri sínum. Hann kannaði 200 íslenska stíla við inntökupróf Latínuskólans og komst að raun um að í þeim voru samtals 1008 umtalsverðar og afdráttarlausar villur miðað við skólastafsetninguna. Hann flokkar einnig villurnar eftir tegundum og kemst að þeirri niðurstöðu að af þessum villufjölda var langhæst prósenttala samruglingur á einföldu og tvöföldu i-i og í-i, og einna næst eða í þriðja sæti kom samruglingur á s og z. Einnig hafði Björn M. Ólsen athugað 200 aðrar íslenskar ritgerðir sem gerðar voru ýmist við burtfararpróf eða í efsta bekk skólans, þegar menn voru búnir að meðtaka allan þann lærdóm í íslenskri stafsetningu sem Lærði skólinn hafði að bjóða. Og þá kom í ljós enn þá greinilegar en í fyrri athuguninni, að y- og z-villur voru langalgengastar. Villurnar voru að vísu miklu færri en í fyrri athuguninni, en nú bar það algerlega af að þessar villur, y- og z-villur, voru langalgengastar. Af þessu dró Björn M. Ólsen þá lærdóma ekki síst að mikinn tíma mætti spara við stafsetningarkennslu ef þessir stafir væru látnir hverfa úr réttritun manna.

Þess má geta og er rétt að geta áður en ég hverf frá hinni merku tilraun Björns M. Ólsens til þess að breyta íslenskri stafsetningu, að annar af merkustu málfræðingum þessa tíma, Finnur Jónsson, skrifar ritgerð og raunar tvær ritgerðir um stafsetningartillögur Björns M. Ólsens, gerir nokkuð margar aths. við ýmsar af till. hans, er andvígur fáeinum þeirra, en tekur það alveg sérstaklega fram að um veigamestu atriðin, þ.e.a.s. um afnám y og z sé hann Birni M. Ólsen algerlega sammála. En það var eins og fyrri daginn, að menn voru andvígir þeim breytingum, sem þeim þóttu róttækar, á þessari tíð alveg eins og þegar Fjölnismenn komu fram með sinar hugmyndir, og till. Björns M. Ólsens, sem Finnur Jónsson studdi að verulegu leyti, náðu ekki fram að ganga eða neinni verulegri festu. Það voru aðeins örfáir rithöfundar sem tóku þær upp að meira eða minna leyti.

Síðan gerist það rétt um aldamótin eða aðeins fyrir aldamótin — ef ég man rétt 1898 — að nokkrir ritstjórar og rithöfundar undir forustu Jóns Ólafssonar og með öflugum stuðningi Björns Jónssonar ritstjóra Ísafoldar gera í nafni Blaðamannafélagsins tillögur um allmiklar breytingar á stafsetningu og höfðu áður en þeir gerðu þessar till. haft ýmsa mikilhæfa málfræðinga sér til ráðuneytis. Þessum ritstjórum, sem sjálfir voru bæði mjög málhagir menn og kunnu margt fyrir sér í staðsetningarmálum, voru til ráðuneytis Jón Þorkelsson rektor og Pálmi Pálsson latínuskólakennari, en hann mun þá hafa verið tekinn við íslenskukennslu í Latínuskólanum eftir Halldór Kr. Friðriksson sem þá mun hafa verið látinn eða hættur kennslu.

Um þær reglur, sem blaðamannastafsetningin svo nefnda lét gilda eða vildi láta gilda um z, er það að segja, að þeir komast að orði á þessa leið í sambandi við z-una:

„Z, eins og hún er tíðkuð, er óþarft nýmæli frá þessari öld (Rask). Z er óþekkt í fornmáli með þeim reglum sem nú tíðkast, heldur höfð fyrrum alveg af handahófi“ — og nefna þeir nokkur dæmi þess. En þó að henni væri haldið, þ.e.a.s. í blaðamannastafsetningunni, til samkomulags í þeim orðum og orðmyndum sem hún þykir vera hentug vísbending um uppruna orðsins, t.d. bezt, veizla, leizt, lízt, þá er hún alveg óþörf fyrir þeirra hluta sakir í hinum tilgreindu beygingarendingum sagnorða í miðmynd. Þar villist enginn á upprunanum, auk þess sem þessar beygingarendingar eru áherslulausar og því eðlilegast að tannhljóðið hverfi þar alveg án þess að neinar menjar þess haldist, alveg eins og r-hljóðið er látið hverfa gersamlega í sams konar dæmum: kallast, en ekki kallarst, snýst, en ekki snýrst. Loks eru þau hlunnindi af z-leysinu í þessum beygingarendingum að þar verður mörgum helst á að villast á henni.

Eins og þessi tilvitnun ber með sér, þá er það svo að þarna er z tekin upp að vissu marki og þó mjög takmarkað.

Blaðamannastafsetningin, sem svo var nefnd, gilti með nokkrum breytingum til ársins 1918, en þá er gerð á henni sú breyting helst að hafa hvergi é né z, heldur je í stað é og s í stað z. Það var árið 1918 sem stjórnarráðið setti reglugerð um stafsetningu og birti þá reglugerð í Lögbirtingablaðinu. En í rauninni var það blaðamannastafsetningin með þessari umtalsverðu breytingu sem þarna var staðfest með þessari stjórnarráðsreglugerð.

Þá er komið að þeirri stafsetningu sem og þeim reglum um allmjög breytta stafsetningu frá þessari blaðamannastafsetningu með breytingunni frá 1918 sem á var komið árið 1929. Aðdragandi er nokkur að því að sú breyting stafsetningar nær fram að ganga, og skal ég ekki þreyta hv. þm. á að rekja hann í einstökum atriðum, en vil aðeins á það benda að vissulega var sá maður ágætur í alla staði sem beitti sér sérstaklega fyrir þeim breytingum sem samþykktar voru eða ákveðnar með auglýsingum menntmrh. árið 1929, en sá maður var dr. Sigurður Nordal. Ég hygg að það hafi einna fyrst verið þegar hann gaf út lestrarbók sína í fyrsta sinn sem hann gerir nokkra grein fyrir því. Það er árið 1924 sem Lestrarbók Sigurðar Nordals kom út í fyrsta sinn, og hann gerir nokkra grein fyrir stafsetningu bókarinnar í formála og segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stafsetning á bókinni er blaðamannastafsetning, sem enn er algengust á íslenskum bókum, með þessum breytingum: 1) einfaldur samhljóði er ritaður á undan d og t, d og k, sl, sk og st, á undan öðrum samhljóðum er ritaður einfaldur eða tvöfaldur samhljóði eftir uppruna. 2) Z er jafnan rituð þar sem uppruni vísar til. Hefur svo verið gjört í samráði við ýmsa málfræðinga í Reykjavík sem reynt hafa að koma sér niður á grundvöll stafsetningar er allir mættu við una. Munu tillögur þeirra bráðum koma fram.“

Þessar till. komu síðan fram einna ákveðnast í tímaritinu Vöku sem getið var út af ýmsum menntamönnum á árunum 1927–1929. Í fyrsta hefti tímaritsins ræðir Sigurður Nordal um þá stafsetningu sem hann og fleiri íslenskumenn telja rétt að taka upp. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það nánar í hverju brtt. Sigurðar Nordals og samherja hans voru fólgnar þar sem segja má að þær hafi að meginstofni verið teknar upp í þá auglýsingu um nýjar stafsetningarreglur sem Jónas Jónsson, þáv. menntm. rh., gaf út 25. febr. 1929, en það ern þær stafsetningarreglur sem síðan stóðu allt þar til fyrrv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, gaf út hina margumræddu reglugerð sina um afnám z.

Ég mun nú ekki rekja þessa sögu z-mála öllu lengur, enda er ég kominn þar að leiðarlokum. Þessi saga ber það með sér að bæði fyrr og síðar hafa verið mjög skiptar skoðanir hjá hinum mætustu og mestu málfræðingum þessarar þjóðar um það, hvort eðlilegt væri og heppilegt að rita z eða ekki. Meginröksemd þeirra, sem barist hafa fyrir því að viðhalda z-unni, hefur verið sú, að með því fengjust ákveðin tengsl við hið heldra mál og hún benti til og leiðbeindi að vissu marki um uppruna orða. Meginröksemd hinna, sem verið hafa andvígir því að skylt skuli vera að kenna z í skólum, hafa verið í fyrsta lagi að z tákni ekki lengur sérstakt hljóð og í öðru lagi að allt of langur tími fari í það í skólum að kenna þennan staf sem ekki sé lengur nein ástæða til að halda í.

Ég hef sagt það áður í sambandi við þennan þátt stafsetningarmálsins íslenska, að það er alltaf álitamál hvenær á að gera breytingar á stafsetningu, jafnvel þó að viss rök hnígi að því að þær kunni að vera réttmætar og jafnvel æskilegar. Ég var ekki sannfærður um það á sínum tíma að það hafi verið brýn ástæða til þess að útrýma z-unni úr íslensku kennslumáli. Ég taldi að býsna gild rök væru að vísu fyrir því að það ætti að gera og þá sérstaklega þau að óeðlilega mikill tími færi í ýmsum skólum landsins í það að kenna að skrifa z, í það að glíma við þennan staf sem ekki virtist nein sérstök þörf fyrir. En þrátt fyrir það er ég það mikill íhaldsmaður á þessu sviði og tel að veruleg íhaldssemi á stafsetningarsviði sé ekki aðeins réttmæt, heldur mjög æskileg, að mér þóttu þessi rök tæplega fullnægjandi á sínum tíma. Hins vegar verð ég að segja það, að eftir að þessi ákvörðun hafði verið tekin og vissulega byggð á veigamiklum rökum, þá tel ég það algerlega fráleitt að hverfa aftur á bak til z-unnar. Ég tel það versta kostinn sem nú er fyrir hendi.

Það liggur ljóst fyrir og hefur verið að sannast, að ég hygg ekki síst í gær og kannske í fyrradag, þegar almenningur vissi að hreyfing var komin á þetta mál og líkur til þess að það frv., sem hér er til umr., kynni að verða samþykkt, þá hygg ég að það hafi komið í ljós að það er veruleg andstaða meðal kennarastéttarinnar — mjög mikil andstaða meðal kennarastéttarinnar gegn þessu máli, og ég held að með tilliti til þess, þótt ekki væri annað, sé vægast sagt dálitið varhugavert að leggja slíkt ofurkapp á að gera þetta frv. að lögum nú á allra síðustu dögum þingsins, þegar auðséð er að ekkert tóm er til að ræða málið á þeim tíma þegar þm. telja sig hafa aðstöðu til að hlýða á málflutning, heldur eru nætur til þess notaðar og menn verða að tala yfir mjög fáskipuðum þingbekkjum.

Mín skoðun er sú að í sambandi við þetta mál eigi að setja rammalöggjöf, í meginatriðum líka þeirri sem hæstv. menntmrh. leggur til í frv. sínu. Ég er ekki þar með að segja að það kunni ekki að vera rétt að gera á því nokkrar breytingar og þá e.t.v. í þá átt fyrst og fremst að fleiri aðilar en þar eru nefndir fái tækifæri til þess að fjalla um stafsetningarmál áður en reglugerð verði sett sem breyti þeim efnum. Ég held að það sé ekki viturlegt, þegar alls er gætt, að naumur meiri hl., þótt hann kynni að vera til hér á þingi, knýi þetta mál fram nú á allra síðustu þingdögunum og í rauninni áður en þeir, sem verða að framkvæma þessa löggjöf, hafa fyllilega áttað sig á því hvað hér er raunverulega að gerast. Ég er sannfærður um að þetta frv. mætir mikilli og vaxandi andstöðu verulegs hluta kennarastéttarinnar, þeirra manna sem eiga að framkvæma það, þeirra sem eiga að kenna stafsetninguna, og það er ekkert efamál að það er engin aufúsugestur öllum þorra nemenda í Íslenskum skólum. Ég held að þegar alls er gætt, þá höfum við annað þarfara að gera eða þeir, sem í skólum landsins sitja, nemendur og kennarar, heldur en strita við það að kenna með takmörkuðum árangri þennan þarflausa staf sem ekki kemur í stað neins sérstaks hljóðs íslensks máls.

Það hefur verið rakið hér fyrr í nótt að eitt sinn gerði Alþ. tilraun til að setja löggjöf um stafsetningu. Ég mun ekki endurtaka neitt af því sem þá var sagt. Það hefur verið rakið hér svo rækilega að við það er ekki í sjálfu sér neinu að bæta. En það vil ég segja, að sjaldan hefur Alþ. orðíð sér svo augljóslega og rækilega til vansæmdar eins og í það skiptið. Þeirri löggjöf, sem þá var sett, var stefnt gegn Halldóri Laxness fyrst og fremst, mesta skáldi og ritsnillingi þjóðarinnar á þessari öld. Því frumhlaupi, sem meiri hl. Alþ. fór þá, var að vísu hrundið, og ég vænti þess að þegar hv. alþm. nú gefa sér tóm til að átta sig á því máli sem hér er á ferðinni, þegar þeir hafa gefið sér tóm til þess að gera sér grein fyrir vísum afleiðingum þess ef samþykkt verður, þá verði þessu frumhlaupi einnig hrundið.

Hæstv. forseti. Að síðustu vil ég einungis segja þetta: Maður gæti vissulega skilið þann ákafa sem flm. þessa máls viðhafa í sambandi við að knýja það fram ef svo hefði verið að sú reglugerðarbreyting, sem í frv. menntmrh. gerði, hefði skikkað þessa flytjendur frv. til þess að breyta um stafsetningu, til þess að hætta að skrifa sina elskuðu z. En það var í sjálfu sér ekki þetta sem gerðist. Ég sé ekki betur en það hljóti að vera hverjum manni frjálst, sem ekki stundar skólanám, að skrifa sína z fram í rauðan dauðann í bókstaflegri merkingu orðsins. En það, sem flm. málsins vilja gera, er að skikka börn og unglinga til að læra z-una, þeir vilja skikka kennarastéttina til að taka á ný upp þá heldur lítið frjóu iðju að kenna z-reglur.

Þessu er ég andvígur, eins og ég hef áður sagt, og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hv. Alþ. ætli að vekja upp þann draug sem þetta frv. vissulega er. Fari Alþ. nú að fyrirskipa stafsetningu með lögum, fari það inn á þá braut, þá er erfitt að sjá fyrir endann á því stafsetningarrifrildi sem biður Alþ. á komandi árum og áratugum. Eða dettur nokkrum manni í hug að stafsetningarlög verði sett hér á Alþ. í eitt skipti fyrir öll og síðan uni allir glaðir við sitt?

Ég held að þrátt fyrir það þótt æskilegt sé og lofsvert að þm. hafi áhuga á málum eins og stafsetningarmálum, þá sé stafsetning íslenskrar tungu ekki meðal þeirra mála sem á að taka um ákvarðanir í einstökum atriðum hér á Alþ. Ég held að það væri engum til góðs ef það væri innleitt að það færi eftir þingmeirihl. hverju sinni hvort z vær lögboðin þetta kjörtímabil og s- og z-leysi hitt kjörtímabilið. Ég held að nokkru meiri festa fengist í þessi mál ef sú regla væri upp tekin í megindráttum sem hæstv. núv. menntmrh. leggur til í sínu frv. sem mér finnst vera ólíkt skynsamlegra heldur en það frv. sem hér er nú til umr.