13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4286 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Jónsson:

Forseti. Við biðum frétta frá ríkisstj. í dag og þeir sögðu frá því í fréttunum núna fyrir nokkrum mínútum að hæstv, ríkisstj. hefði ákveðið á fundi sínum í morgun að samt skuli hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson fara til Oslóar að sitja vinafund með utanrrh. Atlantshafsbandalagsins. Við héldum þó að nú væri mælirinn loksins fullur þegar breski flugherinn hafði hótað loftárás á besta varðskipið okkar sem enn er á floti, þegar breski flotinn hefur stefnt út beitiskipinu Blake, búnu langdrægum fallbyssum og eldflaugum, og hótar að senda það á Íslandsmið til aðstoðar freigátunum sex við að níðast á smáfiskaslóðinni okkar. Raunar héldum við að mælirinn væri löngu fullur. Í fyrradag, þegar hæstv. forsrh. var spurður að því hér í Sþ, hver yrðu viðbrögð ríkisstj. við árás NATO-herskips á Tý þegar öllu var til kostað að sökkva skipinu, þá héldum við að mælirinn hlyti að vera fullur. Hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson greindi Alþ. frá því með settlegum orðum sem fyrr að ríkisstj. mundi láta bera fram mótmæli hjá Öryggisráðinu, einnig hjá Fastaráði NATO og Einar Ágústsson utanrrh. mundi bera fram mótmæli á ráðherra fundi NATO í Osló. Hæstv. forsrh, kvaðst telja atburðinn á alfriðaða svæðinu á Papagrunni mjög alvarlegan. Hann kvaðst telja atburðinn mjög alvarlegan. Það eina, sem vakti athygli í sambandi við mál hans, var það að nú lét hann í fyrsta sinn um langa hríð hjá líða að lýsa augnaráði sínu prívat og persónulega í því sambandi. Ég vík að landhelgismálinu aftur, en rek fyrst í stuttu máli með hvaða hætti stefna eða öllu fremur stefnuleysi þessarar samstjórnar íhalds og Framsóknar að öðru leyti hefur í heild sinni komið við kjör alþýðu manna á þessu landi og þó fyrst og fremst við kjör fólksins í dreifbýlinu.

Eins og flesta rekur minni til — og ýmsir roðna við tilhugsunina, þá var forsendan fyrir því, að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstj. undir forsæti Geirs Hallgrímssonar, sú að einungis með þeim hætti væri hægt að bjarga við efnahagsmálum landsins og fjárhag ríkisins. Til yfirstjórnar fjármálunum var valinn ungur sjálfstæðismaður af Suðurnesjum, snillingur sem hafði fyrir skemmstu lýst yfir einfaldri lausn á því vandamáli að skera niður útgjöld ríkisins. Þegar á fyrsta ári sínu í embætti tókst hæstv. fjmrh. Matthíasi Á. Mathiesen að auka skuldir ríkissjóðs um 6 milljarða kr., 17 millj. á dag, 700 þús. á klukkustund, og það ekki bara reiknað á tímanum, sem hæstv. ráðh. situr við skrifborðið sitt og fer hamförum í ráðdeildinni, heldur líka á tímanum sem hæstv. fjmrh. sefur. En hann á ekki heiðurinn einn, heldur birtist í þessum tölum summan úr samanlögðu fjármálaviti og fjármálasiðgæði samanlagðrar ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl.

Hæstv. viðskrh. Ólafur Jóhannesson á sinn augljósa þátt í heiðrinum eins og sæmir sjálfum guðföður ríkisstj. Honum hefur nú í tíð hægri stjórnarinnar tekist að koma erlendum skuldum íslenska ríkisins upp í nær hálfa millj. á hvert mannsbarn í landinu. Úrræði viðskrh. birtast í taumlausum innflutningi neysluvarnings fyrir erlent lánsfé í því skyni að ná í tolltekjur til að seðja fjármagnshungur ríkissjóðs. Í búðargluggunum í Reykjavík eru svo hlaðnir minnisvarðar um viðskiptastjórn Framsfl., sumir hverjir í mynd pýramída, svo sem tíðkaðist um mikla stjórnendur fortíðarinnar. Ýmsir þessara pýramída eru hlaðnir úr rúllum af snyrtipappír, bláum að lit með áprentaðri rauðri rós og áletrun á frönsku: Papier du toilette parfume, sem gæti þýtt á íslensku ilmskeini, og hefur hver til síns ágætis nokkuð, eins og Grettir sagði.

Samtímis því sem ríkisstj. hefur þannig stundað samkv. kenningunni frjálsa og haftalausa verslun til eflingar virkilega frjálsum og haftalausum, að maður ekki segi botnlausum ríkissjóði, þá hefur verið séð fyrir kjaramálum landsmanna og þá fyrst og fremst dreifbýlisfólksins af engu minni snilld. Til þess að draga úr eyðslu fólksins, sem á að standa undir fjárþörf ríkissjóðs með því að kaupa hátollavörur, hefur kaupgeta þess verið skert um þriðjung í tíð íhaldsstjórnarinnar. Í því skyni að koma í veg fyrir að þetta bitnaði alfarið á kaupsýslustéttinni og vini hennar fjmrh., var sú leið valin að skerða hlutfallslega mest kaupgetu þeirra sem voru hvort eð er ekki komnir á það stig neyslu að nota ilmskeini, og má hver sem vitglóru hefur bera það saman hversu miklu sárar þessi kjaraskerðing kemur við það fólk sem áður hafði aðeins þurftarlaun í tíð vinstri stjórnarinnar, en skortir nú þriðjung á þau laun, — hversu miklu sárar skerðingin kemur við það fólk heldur en hina, sem höfðu laun umfram nauðþurftir og hafa þau enn. Hér er um þann mun að ræða sem ekki verður talinn í krónum eða prósentum. Það er sá munur á skorti og allsnægtum sem erindrekar heildsalanna og SÍS-klíkunnar telja nauðsynlega forsendu fyrir því sem þeir nefna jafnvægi á vinnumarkaðnum.

Og þá komum við að framkvæmd byggðastefnunnar sem ríkisstj. hét að efla.

Í fyrrasumar var grafin gryfja uppi á Grundartanga í Hvalfirði, að því er talið er stærsta mógröf á norðurhveli jarðar, grunnurinn undir járnblendiverksmiðju íhaldsstjórnarinnar og Union Carbide, eins konar öfugur pýramídi til minnis um byggðastefnu Framsfl. og Sjálfstfl. í þessari keilulaga holu mun nú vera bundinn milljarður og rúmlega það í reiðufé og skuldbindingum. Samningurinn við Union Carbide, sem við alþb.-menn börðumst gegn af mestri einurð, hefur þegar verið rofinn af því ágæta kompaníi sem hér um ræðir. Union Carbide hefur þegar sagt þeim hæstv. iðnrh. Gunnari Thoroddsen og hæstv. landbrh. Halldóri E. Sigurðssyni að eiga sína Grundartangagryfju sjálfir. Og þetta var mikið byggðamál að sögn Halldórs E. Sigurðssonar og er það víst enn, því að nú er verið að bjóða alþjóðlegum auðhring, Elkem, sem á varnarþing í Noregi, aðild að gryfjunni, og kæmi mér raunar ekki á óvart þótt ríkisstj. lýraði af brbl. þar að lútandi þegar alþm. eru komnir í frí, og ýmislegt bendir til þess að milljarðarnir 10, sem Carbide-verksmiðjan átti að kosta, verði orðnir að 20 milljörðum í Elkeverksmiðjunni.

Með tilliti til þessa framgangs byggðamálsins stóra við Faxaflóa kemur mér nú í hug að grennslast fyrir um það hvernig fólkinu á Norðurlandi, Austfjörðum og Vestfjörðum, og þá fyrst og fremst bændunum, gangi nú að fá lánsfé til nauðsynlegra framkvæmda úr hendi byggðastjórnar íhalds og Framsóknar. Eftir því sem ég hef komist næst eru stofnlánasjóðirnir nú miklu tómari en menn vissu áður til að stofnlánasjóðir gætu hugsanlega orðið. í gær kom fram krafa af hálfu eins af stjórnarþm. um það að bætt yrði úr tómleika stofnsjóða landbúnaðarins með því að færa þangað tölur úr tómum Byggðasjóði. Kaupfélagsstjórarnir hafa sagt frá því býsna opinskátt með hvaða hætti fyrirtækjum þeirra er séð fyrir fjármagni þessi missirin. Þau ramba beinlínis á gjaldþrotsbarmi vegna skorts á rekstrarfé. Þessi fyrirtæki fjármögnuðu á tíma vinstri stjórnarinnar svo til allar íbúðarbyggingar í landinu. Og þá kynni að vera tímabært líka að stuðningsmenn stjórnarflokkanna létu í ljós einarðlega aðdáun sína á stefnu hennar í vegamálum. Vegáætlunin liggur nú fyrir hv. Alþ. í sinni hryggilegustu mynd þar sem framkvæmdafé hefur verið skorið niður stórlega frá því sem það var í fyrra og þótti það þá nógu litið, en helmingi þess, sem nú er ætlað, er varið til hraðbrautaframkvæmda á þeim hluta landsins sem síst er bráðra úrbóta þörf. En hvað um það, hér situr að völdum bolmagnaðasta íhaldsríkisstj., sem yfir þetta vesalings land hefur nokkurn tíma gengið, og jafnframt sú dáðlausasta.

Ólafur Jóhannesson, hæstv. dómsmrh. og viðskrh. og formaður Framsfl., segir þær fréttir af miðstjórnarfundi flokks síns að framsóknarmenn séu ánægðir með þessa stjórn og vilji að hún sitji sem lengst, og Þórarinn Þórarinsson, formaður þingflokks Framsfl. og ritstjóri Tímans, lýsir yfir því í ritstjórnargrein að þetta sé satt. Og svo má hver trúa því sem vill þegar ég held því fram að ég þekki persónulega ýmsa fyrrv. kjósendur Framsfl. sem nota hvert tækifæri til þess að lýsa yfir því opinberlega að þeir skammist sin fyrir að hafa nokkurn tíma kosið þennan flokk. Og yfirlýsingar Framsfl: forustunnar um þann ásetning sinn að sitja í stjórninni út kjörtímabilið benda óneitanlega til þess að hún kannist eitthvað við þessa fyrrv. kjósendur sína líka. Einhvern veginn minnir mig að þær samþykktir, sem hirst hafa frá flokksfélögum Framsfl., bendi ekki til mikillar hrifningar, hvorki af frammistöðu ráðh. né þm. flokksins, hvorki í almennum málefnum né sérstaklega í landhelgismálinu. Og komum við þá enn að landhelgismálinu í örfáum orðum áður en ég lýk máli mínu.

Ég lét þau orð falla úr þessum ræðustól fyrr í vetur að þótt erfitt yrði að berjast gegn ofbeldisöflum Atlantshafsbandalagsins, þá yrði sú barátta að líkindum léttbær samanborið við þá raun að nú skuli sitja í ráðherrastólum á landi hér eiðsvarnir vinir óvina okkar. Af hálfu okkar alþb.- manna hefur verið farið fram á sams konar viðbrögð af hálfu ríkisstj, við ofbeldisaðgerðum breta og þeim sem fram komu af hálfu starfsmanna Landhelgisgæslunnar, eitthvað í líkingu við það er Týr rétti sig við eftir ásiglingu freigátunnar með brotinn borðstokk og rofinn bóg og lemstraða skrúfu og hélt áfram sem horfði — og klippti. Fréttin af þeim viðbrögðum gerði manni glatt í geði og maður kættist yfir því að vera íslendingur, kættist eins mikið og maður hefur blygðast sín fyrir viðbrögð ríkisstj. í þessum málum. Bretarnir sigla á varðskipin okkar eystra, og forsrh. vælir í Reykjavík: semja, semja. Það er eins og þessi viðbrögð séu umsamin, og bretarnir segja: látum hann skrækja meira. Og nú þegar breski flugherinn hótar loftárásum á varðskipin okkar, þá skal enn setið í Atlantshafsbandalaginu, enn leyfð herseta í landi okkar. Við þykjumst sjá fyrir að þessari ríkisstj. þyki mælirinn seint fullur, e.t.v. ekki einu sinni þó að út úr flæði eða út úr blæði. Að ræða við þessa eilífu augnakarla NATO virðist þýðingarlaust innan veggja þessa húss. Aflið, sem helst nægir til að hreyfa við þeim, er utan veggja Alþingishússins.

Laugardaginn kemur ætlar fólk, sem telur að íslendingar eigi ekki erindi í NATO, að efna til göngu frá hliði Keflavíkurflugvallar til Reykjavíkur, þetta spottakorn, og halda útifund á Lækjartorgi þegar það kemur þangað um kvöldið. Þeir, sem nokkuð vilja á sig leggja til þess að knýja fram ærleg viðbrögð af hálfu íslensku ríkisstj. í landhelgismálinu, gera rétt í því að slást í förina og slást í hópinn á Lækjartorgi.