13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4289 í B-deild Alþingistíðinda. (3636)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar vinstri stjórnin tók við völdum 1971, þá stóð íslenskur þjóðarbúskapur í miklum blóma. Fyrrv. ríkisstj. hafði lagt með sínum efnahagsaðgerðum grundvöll að traustu atvinnulífi samhliða því að útflutningsafurðir okkar hækkuðu í verði. Það var því blómlegt bú sem vinstri stjórnin tók við. Samhliða þessu héldu áfram stórfelldar hækkanir á flestum útflutningsafurðum okkar á þessum árum og atvinna varð mikil í landinu. Á ársbyrjun 1974 fór að gæta áhrifa verðhækkana á innfluttum vörum jafnframt því að flestar okkar útflutningsafurðir féllu í verði. Þá var fyrst vandi að stjórna. Þá þurfti að gera ráðstafanir til þess að mæta erfiðleikum, en það tókst þeirri ríkisstj. ekki, þar var ekki samstaða fyrir hendi. Þá fóru ákveðnir menn að ókyrrast, sem leiddi til þess að stjórnarsamstarfið rofnaði og efnt var til nýrra kosninga sumarið 1974.

Einn stjórnarflokkanna, Framsfl., sá og viðurkenndi hvernig komið var og fann nauðsyn þess að breyta um stefnu og taka föstum tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar og mæta hinni versnandi stöðu út á við. Í löngum stjórnarmyndunarviðræðum, sem fram fóru sumarið 1974. viðurkenndu allir stjórnmálaflokkar, að ekki yrði hjá því komist að lækka gengi krónunnar. Vinstri fylkingin í landinu náði ekki samstöðu um myndun ríkisstj. Þá gerðist það að tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir, Sjálfstfl, og Framsfl., komu sér saman um að mynda ríkisstj. til þess að berjast við þá miklu erfiðleika, sem að steðjuðu, og leysa þann mikla efnahagsvanda, sem þjóðin stóð í. Sjálfstfl. varð sigurvegari í síðustu þingkosningum. Á honum hvíldi mikil ábyrgð. Hann taldi það skyldu sína að axla þá miklu byrði að fara í ríkisstj. við mjög erfiðar aðstæður.

Þessir tveir stærstu flokkar þjóðarinnar hafa löngum elt grátt silfur. En þeir ákváðu að slíðra vopnin, standa saman um stjórn landsins á miklum erfiðleikatímum. Það var sjáanlegt að afurðaverðið fór lækkandi, innflutningsvörur hækkuðu í verði og það gætti mjög áhrifa olíukreppunnar. Þessir flokkar hafa síðan starfað saman og að mínum dómi hefur það stjórnarsamstarf eftir atvikum tekist vel.

Stærsta og þýðingarmesta ákvörðun þessarar ríkisstj. var að færa fiskveiðilögsögu Íslands út í 200 sjómílur frá 15. okt. á s.l. ári. Var það lokaskref okkar í fiskveiðilögsögumálum og í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. sem út var gefin við myndun hennar. Var unnið kappsamlega að undirbúningi þessa máls, bæði er tekur til sjálfra útfærsluaðgerðanna og kynningar fyrirætlana á erlendum vettvangi.

Einhliða útfærsla, þegar ekki lá fyrir samþykkt alþjóðaráðstefnu um hafréttarmál, er vandasöm og erfið, hvað þá fyrir litla þjóð eins og okkur. Því kom ekki til greina að neita öðrum þjóðum um viðræður um takmarkaðar veiðar innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi til skamms tíma. Okkur er lífsnauðsyn að hagnýta fiskveiðilandhelgi okkar einir, en okkur er líka mikilvægt að halda frið við aðrar þjóðir og sanna þjóðum heims sanngirni okkar, ekki síst á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Það hefur tekist að ná samningum við þjóðverja, belga, norðmenn og færeyinga. Aðalkostir samkomulagsins við vestur-þjóðverja eru útilokun frystitogara og takmörkun aflamagns og skipafjölda. Það er líka afar mikilvægt að aðrar þjóðir hlíti reglum okkar um möskvastærð, lágmarksstærð fisks og fiskfriðunarsvæði. Í þessum samningum, sem gerðir hafa verið, er um mjög takmarkað þorskveiðimagn að ræða. Mikilvæg er í samningum við vestur-þjóðverja útilokun frystitogara, en það hefur í för með sér að við getum með öllu hafnað veiðum austurevrópskra frysti-, verksmiðju- og móðurskipa sem tekið hafa nokkurt magn á íslandsmiðum utan 50 mílna undanfarin ár. Þetta kom skýrt fram í viðræðum sem við áttum við fulltrúa pólverja og fulltrúa austur-þjóðverja nýlega.

Ákvæði í samkomulaginu við vestur-þjóðverja um að framkvæmd þess megi fresta ef bókun nr. 6 í samningi íslands við Efnahagsbandalagið hafi ekki tekið gildi innan 5 mánaða, sem þegar eru liðnir, þetta ákvæði þrýstir mjög á Efnahagsbandalagsríkin að samþykkja ákvæði samningsins, og hefur ríkisstj. ákveðið að bíða átekta stutta hríð. Þolinmæði styrkir stöðu okkar í þessu efni og mikilvægt er að gerðir okkar séu vel yfirvegaðar. Ég tel að samkomulag við allar þessar þjóðir hafi styrkt stöðu okkar á Hafréttarráðstefnunni.

Deilan við breta harðnar að sama skapi og staða þeirra veikist þótt keyrt hafi um þverbak með síðustu ásiglingum þeirra á varðskip okkar og ruddalegri hótun Nimrod-njósnaflugvélar að skjóta á íslenskt varðskip, einmitt á sama tíma og niðurstaða síðasta framhaldsfundar Hafréttarráðstefnunnar lá fyrir. Togaraskipstjórar og sjómenn á breskum togurum eru að missa þolinmæðina nema þeir fái fjárstyrk frá bresku ríkisstj. Hvert ríki á fætur öðru við Norður-Atlantshaf boðar útfærslu í 200 mílur. Efnahagsbandalagsríkin búa sig undir útfærslu í 200 mílur, og bretar krefjast a.m.k. 50 mílna einkalögsögu fyrir sína sjómenn. Hafréttarsáttmáli, sem tryggir 200 mílna efnahagslögsögu er á næsta leiti. Staða breta veikist því jafnt og þétt. Freigátur megna því lítið í þeirri stöðu nema um stundarsakir. Þess vegna mun yfirlætið og herstyrkurinn ekki duga frekar en fyrr til frambúðar. Þetta er bretum ljóst, En þeim hefur jafnan reynst erfitt að aðlaga sig breyttum aðstæðum vegna breyttra forsendna.

Óbilgjarnar aðgerðir breta styrkja okkur aðeins í hiklausri baráttu okkar. Vald getur ekki beygt okkur í þessu lífshagsmunamáli. Ríkisstj. fylgir jafneinarðri stefnu og áður í þessu máli. Hún lætur ekki stjórnast af tilfinningahita líðandi stundar. Hún lætur stjórnast af því hvað er okkur íslendingum fyrir bestu við heildarlausn á þessu máli. Víxlspor eða óaðgæsla getur breytt miklu okkur í óhag. Þó bretar eigi erfitt með að skilja nauðsyn þess að útlendingar hætti fiskveiðum á landgrunninu, þá skilja þjóðir heimsins almennt þá nauðsyn. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar hefur verið rækilega kynnt og útskýrð á fundum Hafréttarráðstefnunnar. Ákveðinn hefur verið framhaldsfundur í New York seinna í sumar, og stefnt er að því að sá fundur verði lokafundur ráðstefnunnar. Staðan á Hafréttarráðstefnunni er nú betri en nokkru sinni fyrr. Ákvæði þeirra draga að hafréttarsáttmála, sem legið hafa fyrir og lögð voru fram af nefndarformönnum ráðstefnunnar, standa að óbreyttu ákvæði er okkur varða mestu. Þá sóttu margir ríkjahópar fast á breytingar, svo sem landluktu ríkin og landfræðilega afskipt ríki er veiða á fjarlægum miðum. Staða okkar hefur því styrkst í þessum áfanga. Ýmis deilumál eru óútkljáð, og áðurnefnd ríki halda áfram með kröfugerð sína og reyna að útvatna réttindi innan efnahagslögsögunnar.

Ég vil nota þetta tækifæri að flytja fulltrúum okkar á Hafréttarráðstefnunni þakkir fyrir ágæt störf og alveg sérstaklega formanni n., Hans G. Andersen.

En þrátt fyrir vonbetri stöðu erum við íslendingar enn þá og verðum þeirrar skoðunar að við eigum að eiga friðsamleg samskipti við öll ríki heims. Þess vegna er enn þá jafnmikil nauðsyn á og áður að ná friðsamlegum samningum við breta án þess að beygja sig undir nokkra afarkosti, enda er svo fyrir að þakka einbeittri stjórnarstefnu, ágætu starfi Landhelgisgæslunnar, að bretar eru á engan hátt þess umkomnir að beita okkur afarkostum. Breska ljónið er búið að missa allar tennur.

Samningur við breta til nokkurra mánaða eða á meðan úrslit Hafréttarráðstefnunnar liggja ekki endanlega fyrir er okkur íslendingum mikils virði.

Á því Alþ., sem nú er að ljúka, hefur margt gerst á sviði sjávarútvegsmála. Stærsta málið, sem Alþ. hefur afgreitt í þessum málaflokki, er uppstokkun á hinu svokallaða sjóðakerfi þar sem útflutningsgjöld hafa verið stórlega lækkuð og stærsti sjóðurinn hefur verið afnuminn og aðrir verið stórminnkaðir, þannig að um 4000 millj. kr. hafa verið færðar úr sjóðakerfinu og mætt með hækkuðu fiskverði sem bæði sjómenn og útgerðarmenn hafa notið góðs af. Þessar breytingar hafa allar verið gerðar fyrir áeggjan sjó. manna og útgerðarmanna og þar hefur verið farið í öllum grundvallaratriðum eftir þeirra eigin till. í þessum efnum.

Annað stórmál liggur fyrir þessu þingi, en hefur ekki enn þá hlotið endanlega afgreiðslu, en það er frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi íslands. Tilgangur þeirra laga er að stuðla að viðgangi og hagkvæmustu nýtingu fiskstofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Með því frv. er stuðlað að viðtækri friðun fiskstofna. Í þessu frv. eru ýmis nýmæli, t.d. um skyndilokanir svæða vegna verulegs magns af smáfiski, trúnaðarmenn um borð í veiðiskipum og sérstök eftirlitsskip. Auk útfærslunnar hefur margt verið gert til þess að hafa stjórn á fiskveiðum. Þannig hefur í mörg ár verið ákveðinn aflakvóti á humar og rækju og á s.l. hausti á síldveiðum. Friðuð svæði hafa verið stóraukin, bæði á hrygningarslóðum þorsksins og til verndar smáfiski. Skyndifriðanir hafa þegar verið teknar upp, og unnið er að því að koma á auknu eftirlíti með fiskveiðunum. Möskvastærð í pokum togveiðarfæra hefur verið aukin. Nýlega voru samþykkt á Alþ. lög um upptöku ólöglegs sjávarafla, en nauðsynlegt var að setja þau lög til þess að unnt verði að fylgja eftir ýmsum reglugerðarákvæðum um veiðitakmarkanir. Þá liggur einnig fyrir Alþ. frv. um Fiskveiðasjóð Íslands, en það felur m.a. í sér að stjórn sjóðsins skuli gera rekstrar- og greiðsluáætlanir fyrir fram eitt ár í senn og breytingu á stjórn sjóðsins á þann hátt að fulltrúar sjávarútvegsins koma til með að eiga þar sæti ásamt fulltrúum bankanna auk fulltrúa frá ríkisvaldinu.

Á rúmlega 11/2 ári hefur sjútvrn. gefið út 29 reglugerðir, sem allar fjalla um fiskveiðimál, stjórnun fiskveiðanna, og eru flestar byggðar á landgrunnslögunum frá 1948. Mikilvægt er að allar þessar ráðstafanir yrðu gerðar í mjög nánu samráði og samvinnu við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands. Á stjórnartímabili núv. ríkisstj, hefur hámark útgerðarlána hækkað um 244%, en á tímabili fyrrv. ríkisstj. um 50%. Fiskverðshækkanir hafa orðið allmiklar á þessu sama tímabili, og mun láta nærri að meðalhækkun á þorskafla sé um 100%. Ekki get ég látið hjá líða að nefna konverteringu lána í sjávarútvegi, en hún nam 3273 millj. kr. Þá hefur verið ákveðið að verja allt að 250 millj. kr. á þessu ári til fiskleitar og rannsóknarveiða á nýjum tegundum sjávarafla, aukins eftirlits með veiðum, vinnslutilrauna og markaðsöflunar.

Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu hefur núv. ríkisstj. gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að draga ekki úr fjárframlögum til félagsmála og heilbrigðismála. í þessu sambandi er rétt að minna á að framlag til tryggingamála hefur hækkað í hlutfalli við þær launabreytingar sem orðið hafa á þessu tímabili. Þannig hafa framlög til lífeyristrygginga hækkað um liðlega sama meðaltal og kaupbreytingar á hverjum tíma. Á þessu ári er talið að framlög til sjúkra- og lífeyristrygginga hækki um hvorki meira né minna en 2500 millj. kr. umfram það sem fjárlög yfirstandandi ára gera ráð fyrir. Á þennan hátt hefur núv, ríkisstj. sýnt fullan skilning á því að draga ekki úr því öryggi sem aldraðir og öryrkjar þurfa að hafa. Uppbyggingin í heilbrigðismálum mætti að mínum dómi vera harðari en verið hefur. Það hafa fyrst og fremst verið erfiðleikar á því að fá meira fjármagn til þeirra hluta vegna þess að ríkisstj. setti sér í upphafi það mark að láta sitja í fyrirrúmi framkvæmdir á sviði orkumála, sem voru mjög á eftir, og draga á þann hátt úr gjaldeyriseyðslu með því að hraða þessum framkvæmdum. Aldrei hefur verið meira gert í framkvæmdum við jarðvarmaveitur.

Þegar við lítum yfir það tímabil, sem núv. stjórn hefur setið að völdum, þá er eitt mjög táknrænt fyrir ríkisstj., að hún hefur þrátt fyrir mjög erfiða efnahagsstöðu, minnkandi þjóðarframleiðslu og mjög óhagstæð ytri viðskiptakjör sett sér það mark að draga ekki það mikið úr fjárfestingu, að til atvinnuleysis komi. Á sama tíma og efnahagskreppunnar fór að gæta í nágrannalöndum okkar og viðar, sem hafði í för með sér tilfinnanlegt atvinnuleysi í öllum þessum löndum, þá setti þessi ríkisstj. sér það markmið að haga þannig efnahagsaðgerðum að ekki kæmi til það mikils samdráttar að hér yrði atvinnuleysi. Þetta er eina ríkisstj. í öllum þessum löndum sem hefur tekist að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Einu undantekningar eru þær, að á vissum árstíma hefur orðið atvinnuleysi í nokkrum minni stöðum á landinu vegna sérstakra óhappa eða árstímabundinna vandamála.

Við verðum að gæta þess í okkar búskap að draga úr skuldasöfnun við útlönd og fjárfestingu innanlands, en haga í vaxandi mæli þeirri fjárfestingu, sem við höldum áfram, til þess að auka og efla atvinnulífið. Það er sagt að nóg sé af skipum í landinu og við þurfum frekar að losna við eldri skip úr landi en að auka við skipastóllinn. Ég minni á það að skipabyggingaiðnaðurinn er mikilvæg iðngrein á íslandi og þar hafa skipst á skin og skúrir. Þar hefur orðið hlé á framkvæmdum árum saman sem hefur gert það að verkum að framþróun þessa iðnaðar hefur ekki verið með þeim hætti sem við hefðum kosið. Þótt nú sé nóg um skip á Íslandi, þá megum víð alls ekki leggja niður innlenda skipasmíði. Þar er mikið í húfi, ekki eingöngu hættan á atvinnuleysi, heldur einnig stöðvast þá íslenskur skipasmiðaiðnaður og staðnar. Núv. ríkisstj. vill koma í veg fyrir að slík stöðnun eigi sér stað. Þess vegna verður að halda þessari atvinnugrein áfram, enda eiga fjölmargar iðngreinar í landinu hér hlut að máli.

Landbúnaðurinn er í öruggri uppbyggingu. Hér hafa gerst hlutir í landbúnaði sem engan hefði órað fyrir fyrir nokkrum árum eða áratugum. Þetta er elsta atvinnugrein okkar íslendinga, — atvinnugrein sem við eigum ekki að leggjast á eða lítilsvirða, eins og því miður heyrist hjá nokkrum öfgamönnum í þessu þjóðfélagi. Fyrst og fremst er atvinnulífið það sem verður að ganga í okkar landi. Atvinnan og þá sérstaklega sjávarútvegurinn er hornsteinn að efnahagslegri uppbyggingu. Við verðum að gæta þess að tryggja atvinnu í landinu. Heilbrigður atvinnurekstur er forsenda þess að öll önnur framþróun geti átt sér stað. Núv. ríkisstj. heldur fast og ákveðið á þessari stefnu.

Það eru margir úrtölumenn í þessu þjóðfélagi, og íslenska þjóðin mun heyra í kvöld hjáróma söng stjórnarandstöðunnar sem er ekki í nokkru samræmi við þjóðarviljann. Þegar höfum við hlýtt á alþb.-mennina tvo sem hér voru að ljúka við söng sinn. Hann var hvorki fagur né lagvís. Það er rétt hjá Stefáni Jónssyni að fjárlög hækkuðu verulega eftir vinstri stjórnina. Það hefur alltaf verið dýrt að taka við fjármálum eftir að kommúnistar hafa átt sæti í ríkisstj. Það var milljarða óreiða og taprekstur ríkisfyrirtækja sem við mátti taka. Það var ekkert létt verk sem núv. fjmrh. fékk við að glíma.

Stjórnarandstaðan er sjálfri sér sundurþykk. Hún hefur ekki bent á neinar leiðir til úrbóta, en elur á því að auka sundrung meðal íslensku þjóðarinnar og tæta allt niður sem gert hefur verið og þarf að gera. Slík stjórnarandstaða er dæmd fyrir fram úr leik. Hún er lítils virði og er íslensku þjóðinni til mikilla leiðinda og öllum hugsandi íslendingum áhyggjuefni.

Það er nauðsynlegt að stjórnarandstaða bendi þeim, sem ráða á hverjum tíma, á leiðir til úrbóta, gagnrýni á heiðarlegan og skilmerkilegan hátt það sem hún telur að miður fari, en standi með stjórnvöldum að jákvæðri uppbyggingu til lausnar á vandamálum þjóðfélagsins á hverjum tíma. Margt bendir til þess að verð á útflutningsafurðum okkar fari hækkandi á næstu mánuðum og sú efnahagskreppa, sem þjakað hefur efnahag fjölmargra þjóða, sé í rénun. Þess vegna eru horfur á að við réttum við okkar efnahagsstöðu ef við höldum skynsamlega á. Við þurfum að draga úr fjárfestingu og gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að auka verðmæti þjóðarframleiðslunnar og umfram allt útflutningsframleiðslunnar, draga úr verðbólgunni og njóta í reynd hagnaðar batnandi viðskiptakjara. Það biða úrlausnar ríkisstj. mörg erfið og vandasöm verkefni. Það er mikið undir farsælli lausn þeirra komið að þjóðin í heild geri sér ljósa grein fyrir eðli vandamálanna og hvað hugsanlegt er að gera til að leysa hin mörgu og brýnu verkefni. En það verður ekki gert með æsifregnum og með því að blása eld að glóðum sundrungar og haturs. Ríkisstj., Alþingi og þjóðin í heild verða að atarfa saman og auka skilning til þess að leysa sérhvert það verkefni sem úrlausnar bíður. Verði það að veruleika, þá er það trú mín að þessi þjóð þurfi ekki að kvíða framtíðinni. — Góða nótt.