13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

Almennar stjórnmálaumræður

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ræða hæstv. sjútvrh. hér áðan var líkt og hann væri að fara með öfugmælavísur. Hann sagði t.d. að eftir kosningarnar 1974 hefði Framsfl. séð mjög að sér. Sér er nú hvað 1 Hann sagði að undir handleiðslu Sjálfstfl. væntanlega hefði Framsfl. fundið hjá sér nauðsyn til þess að breyta nú um stefnu. Hvar sér þess staði? Ekki verður almenningur annars var heldur en sú ríkisstj., sem nú situr að völdum á Íslandi, haldi áfram á sömu braut sukks og óstjórnar og fyrrv. ríkisstj. fetaði. En kannske vill Steingrímur Hermannsson, hv. þm., sem hér mun tala á eftir, upplýsa það fyrir hlustendum í hverju Framsfl. hefur séð að sér.

Þá sagði hæstv. ráðh. einnig að nauðsynlegt væri að aðrar þjóðir virtu reglur um friðun á Íslandsmiðum, svo sem eins og um lágmarksmöskvastærðir. Það er rétt að þetta atriði var m.a. notað til þess að réttlæta þýsku samningana. En hvað veit hæstv. ráðh. um það hvernig þessar reglur eru virtar? Ekki í eitt einasta skipti hefur t.d. verið farið um borð í þýskan togara til þess að gá að því hvort hann virði þær reglur sem honum er gert að virða í sambandi við búnað veiðarfæra. Og það kom meira að segja fram í útvarpsþætti, sem nú er orðinn landsfrægur, þar sem hæstv. dómsmrh. sat fyrir svörum, að hann hafði ekki svo mikið sem hugmynd um það hvernig eða hver ætti að annast þetta eftirlit. Það er ekki hægt að breyta hvítu í svart og svörtu í hvítt með því einu að loka augunum.

Með síðustu viðburðum í þorskstríðinu er landhelgisdeilan við breta komin á nýtt og alvarlegt stig. Í fyrsta sinn í sögu þessara átaka hefur íslensku varðskipi verið hótað beinni og ódulbúinni vopnaðri árás. Áhöfn Nimrod-njósnaþotu, sem er eins konar fljúgandi kafbátaspillir og um leið einn þátturinn í varnarkeðju bandalags sem íslendingar eru aðilar að, — áhöfn þessarar þotu hefur með leyfi bresku herstjórnarinnar hótað að sökkva íslensku varðskipi og tortíma lífi áhafnar þess með skotárás og með þeim hætti koma í veg fyrir að varðskipsmenn geti gegnt skyldustörfum sínum á Íslandsmiðum. Í beinu framhaldi af þessum atburði eru hafnar umræður í Bretlandi um beinar hernaðaraðgerðir gegn okkur íslendingum. Krafist hefur verið að breska ríkisstj. heimili herskipum á Íslandsmiðum að grípa til vopna gegn íslensku varðskipunum, m.ö.o. að hefja skothríð á varðskip sem gerðu sig líkleg til þess að hafa afskipti af breskum veiðiþjófum. Bresk blöð hafa frá því skýrt að einmitt þetta hafi verið umræðuefni á fundum með fulltrúum bresku stjórnarinnar og togaraeigendum, og af blaðafregnum má merkja að breski flotinn sé þess mjög hvetjandi að til slíkra örþrifaráða verði gripið. Þá er einnig sagt frá því í Bretlandi að 11 þús. lesta orusstuskip, búið hraðskeyttum fallbyssum, eldflaugum og öðrum fullkomnustu drápstækjum nútímans, bíði þess albúið að halda til Íslands sem flaggskip eins konar innrásarflota.

Af þessum atburðum verður aðeins ein ályktun dregin. Gömul vinaþjóð okkar íslendinga, þjóð sem jafnframt er í bandalagi með okkur sem látið er heita að stofnað hafi verið til þess að standa vörð um sjálfstæði, fullveldi, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt, — þessi þjóð býr sig nú til þess að heita okkur vopnavaldi. Vissulega hafa bretar fram að þessu borið byssur sínar með sér hingað á Íslandsmið. En sú breyting hefur nú á orðið að þessi bandalagsþjóð okkar hefur lagt byssur sínar til miðs. Fingur bretans hvílir nú á gikknum, óvopnuð, varnarlaus smáþjóð er í sigtinu.

Við þessar aðstæður hljótum við íslendingar að endurmeta ýmis atriði í baráttuaðferðum okkar. Aðgerðir breta hafa markað þáttaskil í þorskastríðinu, og því verðum við að sæta hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er tilgangslaust fyrir okkur að láta eins og síðustu atburðir hafi aldrei gerst.

Enda þótt allir stjórnmálaflokkar í landinu séu einhuga um stefnuna í landhelgismálinu hefur ríkisstj. oft sætt gagnrýni fyrir ýmis atriði í framkvæmd þeirrar stefnu. Því miður hefur það gerst að það staðfestu- og ráðleysi, sem einkennt hefur störf þessarar ríkisstj. á nær öllum sviðum, hefur einnig sett svip sinn á sum framkvæmdaatriði hennar í landhelgismálinu, og svo virðist nú enn ætla að verða. Ríkisstj. er ekki reiðubúin til þess að bregðast með viðeigandi hætti við nýjustu hótunum breta. Þvert á móti hefur hún samþykkt að hafa í frammi sömu starfsaðferðir í samskiptum okkar við breta á fjölþjóðavettvangi og hún hafði ákveðið áður en atburðirnir urðu úti fyrir Vestfjörðum og þá þegar höfðu verið harðlega gagnrýndar, m.a. hér á Alþ. Hún hefði alveg eins getað samþykkt að hún líti svo á að þeir atburðir hefðu aldrei gerst.

Við þessar kringumstæður er fráleitt að fyrirskipa utanrrh. að fara til fundar við utanrrh. breta svo og aðra þá utanrrh. NATO-landa sem halda með sér vináttu- og viðræðufund nú á næstunni. Hvað hefur íslenski utanrrh. að gera á þann fund nú, í sama mund og bretar búa sig til þess að senda einn sinn öflugasta vígdreka gegn íslenskum varðskipum og ræða í fullri alvöru að gefa herskipum sínum heimildir til þess að hefja skotárásir á íslenska löggæslumenn? Til þess að kynna ráðh. málið, segir ríkisstj. M.ö.o.: til þess að halda áfram að tala í líkum dúr og talað hefur verið á þessum fundum og fjölmörgum öðrum af sama og svipuðu tagi og með þeim árangri sem menn hafa nú séð. Og hvern á íslenski utanrrh. að fræða á þessum fundi og um hvað? Halda menn að utanrrh. breta viti ekki um afstöðu íslendinga í landhelgismálinu eftir allt sem á undan er gengið? Eru menn að halda því fram að enn skorti svo mikið á þekkingu norska utanrrh. á málstað íslendinga, þess danska, þess vestur-þýska ellegar þess bandaríska að réttlæti það að Einar Ágústsson haldi héðan til fundar við breska utanrrh. og aðra starfsbræður hans, og til þess mannfagnaðar og þeirra veisluhalda sem slíkum fundum eru samfara, á sömu stundu og breska herstjórnin hefur ákveðið og hótað að efna til vopnaðrar árásar á land vort og breski flotinn bíður í viðbragðsstöðu til þess að hefja aðgerðir? Í þessu máli á við um íslensku ríkisstj. hið fornkveðna, að lítil eru geð guma.

Einar Ágústsson utanrrh. á eins og nú standa sakir ekkert erindi á fund utanrrh. NATO. Þangað sækir hann nú ekkert það sem okkur hefur verið neitað um til þessa. Þar inn á hann ekki að koma eins og nú standa sakir nema til þess eins að snúast á hæll og ganga rakleiðis út þaðan aftur til þess að mótmæla því athæfi sem ein bandalagsþjóðin fær óáreitt að auðsýna okkur. Flestallir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa verið og eru þeirrar skoðunar að íslendingar eigi að tryggja sjálfstæði þjóðar sinnar og öryggi með aðild Íslands að NATO. Meiri hl. þjóðarinnar er eða hefur verið sama sinnis. En afstað stjórnmálaflokkanna í þessu máli sem öðrum er aðeins samnefnari fyrir afstöðu almennings í þessu landi, og enginn ætti að fara í grafgötur um það að framferði breta í þorskastríðinu hefur haft og mun hafa áhrif á afstöðu íslensku þjóðarinnar til þátttöku landsins í hernaðarsamstarfi við breta. Ef bretar halda uppteknum hætti og tekst með vopnavaldi að koma í veg fyrir að við getum varið sjálfa hina efnahagslegu undirstöðu sjálfstæðis og tilveru þjóðar vorrar, þá er allt tal um gagnkvæmt samstarf, um vernd gegn sameiginlegum óvini einbert tilgangsleysi af þeirri einföldu ástæðu að þá höfum við ekkert að verja. Það er fyllsta ástæða til þess að við gerum bandalagsþjóðum okkar þetta ljóst í eitt skipti fyrir öll, og það eigum við og getum við gert með því að sýna áþreifanlega fram á hvaða afleiðingar vopnaskak breta er farið að hafa á sambúðina innan NATO.

Núv. ríkisstj. hefur setið að völdum í þessu landi í tæp tvö ár. Á þeim tíma hefur hún fært okkur heim sanninn um að sú regla er enn í fullu gildi að samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. er versta stjórn sem hugsanleg er á Íslandi. Þegar íhaldsöflin í þessum tveimur afturhaldsflokkum ná saman er eins og þau magni sig upp. Þau færast í aukana, dafna með undraverðum hraða, líkt og púkinn í fjósbásnum í þjóðsögunni, og kæfa og kveða niður raddir þeirra sanngjörnu frjálshyggjumanna sem þrátt fyrir allt má finna í þessum flokkum báðum. Afleiðingarnar eru m.a. þær, að verkalýðshreyfingin verður stöðugt að vera í skotgröfunum, enda ekki við hana talað nema á vígvelli verkfalla, misrétti eykst og allan mátt dregur úr þeim félagslegu aðgerðum sem beitt er til þess að skapa fólki öryggi og auka jöfnuð. En núverandi íhaldsstjórn er að því leytinu til verri en þær aðrar samstjórnir þessara flokka sem við þekkjum, að ofan á afturhaldsstjórnarfarið bætist almennt ráðleysi og stjórnleysi sem á ekki nokkurn sinn líka í allri Íslandssögunni.

Ummerki þessa má sjá hvert sem lítið er. Hvað er það annað en stjórnleysi að nú skuli svo komið að fyrsta gjöfin, sem sérhvert nýfætt barn í þessu landi fær frá stjórnvöldum, er skuld við erlenda banka sem nemur 360–400 þús. ísl. kr. á mannsbarn? Hvað er það annað en stjórnleysi að svo skuli komið að eftir örfá ár þurfi íslendingar að verja allt að fjórðu hverri gjaldeyriskrónu, sem landsmenn afla, til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum? Með þessu móti hafa ráðamenn þjóðarinnar í raun og veru selt erlendum peningafurstum veð í hverju einasta fiskiskipi, hverri einustu fiskvinnslustöð og iðjuveri og öðrum gjaldeyrisskapandi atvinnutækjum í landinu. Og ekki nóg með það, hlutskipti íslensks verkafólks er þá orðið líkt og hálfnauðugra leiguliða fortíðarinnar. Vinna þess hefur að hluta til verið veðsett erlendum lánardrottnum. Fimmti hver fiskur, sem íslenskur sjómaður færir á land, er þá dreginn úr sjó fyrir erlenda lánastofnun. Frá morgunkaffi til hádegis er þá unnið í íslenskum frystihúsum fyrir banka í Evrópu, Ameríku eða þá arabíska olíufursta sem látið hafa undan þrábeiðni forsrh. Íslands og félaga hans og lánað íslenska ríkinu fé. Ekki einu sinni Hákon gamli Noregskonungur fór þess á leit við íslendinga að þeir gyldu erlendum konungi þann skatt sem ráðamenn landsins hafa nú ótilkvaddir gengist undir í nafni þjóðar sinnar að greiða erlendum auðjöfrum. Og til hvers hefur þetta allt saman verið gert? M.a. til þess að unnt sé að halda áfram við milljarðaævintýrið við Kröflu gegn ráðleggingum fremstu vísindamanna þjóðarinnar og vitandi það að þar er verið að framleiða orku í því magni sem ekki verður selt og á því verði sem ekki verður goldið. Svo gengur hæstv. iðnrh. nú síðustu dagana á milli alþjóðlegra auðhringa með betlistaf í hendi til þess að biðja þá eins og guð sér til hjálpar að koma nú og reisa iðjuver á Íslandi til þess að hægt sé að nota alla þá orku sem verið er að veðsetja sjálfstæði þjóðarinnar fyrir að fá. Hvað er þetta annað en stjórnleysi, ráðleysi, skortur á framsýni og fyrirhyggju? Og hvað er það annað en sama stjórnleysið að rífa nú í annað sinn á tveimur árum upp fjögurra mánaða gömul fjárlög svo að segja frá rótum vegna þess að höndum var svo til þeirra kastað að þar stendur ekki lengur steinn yfir steini? Hvað er það annað en þetta sama ráðleysi að vera fyrst nú í þinglok og nálægt miðju ári að afgreiða nýjar reglur um friðun og tilhögun veiða þegar um það bil er búið að veiða það magn af helstu nytjafiskum okkar sem fiskifræðingar telja óhætt að veiða á árinu öllu? Hvað er það annað en eitt dæmið enn um þetta sama stjórnleysi að meiri hl. á þinginu skuli vera á þann veg hagað að ekki eitt einasta mál af fjölmörgum, sem lögð hafa verið fram um úrbætur í meðferð sakamála, skuli eiga að afgreiða, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið? Og hvað er það annað en ein vísbendingin enn um sömu upplausn að nú í dag var samþykkt í Nd. Alþingis gegn vilja 17 þm. af 40 að halda óbreyttri skipan „kommissara“ Framkvæmdastofnunar ríkisins, og er Sjálfstfl. þar með búinn að snúa alveg bakinu við margyfirlýstri stefnu sinni í því máli, aðeins vegna þess að hann sá tækifæri til þess að halda flokksmanni sínum á „kommissara“-jötunni. Það er ekki hægt að segja að það sé meðal meiri háttar stórmála þjóðarinnar hvernig háttað er stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. En fyrst Sjálfstfl. stærsti flokkur þjóðarinnar, gerir svo lítið úr sér að bera sitt pólitíska siðgæði í því máli eins og kápu á báðum öxlum og bregður sér í ermarnar á víxl, eftir því hvort hann er í stjórn eða utan, hvernig skyldi þá flokknum farnast í málum sem meira eru um verð fyrir þjóðarheildina?

Eins og málum er nú komið er aðeins um eitt að ræða. Núv. ríkisstj. á að segja tafarlaust af sér, ekki aðeins vegna þess að hún er afturhaldssöm ríkisstj., heldur miklu fremur vegna hins, að hún er óstarfhæf ríkisstj. Reynslan hefur sýnt að henni hefur aldrei tekist að ná taki á viðfangsefnum sínum, og reynslan hefur einnig sýnt að henni mun aldrei takast það. Til þess skortir hana bókstaflega allt sem þarf, þ. á m. sæmilega heiðarlegar og hreinskiptar samstarfsvenjur. Þessi Eyjólfur hressist aldrei. Og hvað er þá til ráða? Mín skoðun er sú, að þá eigi að freista þess að reyna myndun ríkisstj. sem er þannig skipuð að hún geti fengið til liðs við sig þau öfl í þjóðfélaginu sem sérhverri ríkisstj. er brýn nauðsyn að hafa gott samstarf og samvinnu við til þess að leysa efnahagsvandkvæði eins og nú er við að fást, og þar á ég við aðila vinnumarkaðarins og þá fyrst og fremst verkalýðshreyfinguna. Við íslendingar erum fámenn þjóð, nánast eins og ein fjölskylda. Þegar að okkur kreppir eigum við því að geta leyst sameiginlegan vanda okkar, eins og samhent fjölskylda mundi gera, með því að leggja um sinn á hilluna misklíðarefni sem sundra okkur, en taka saman höndum um lausn þess vanda, sem að kreppir, og láta ekki lokið uns lausnin er fundin. Í slíkri samstöðu getum við án efa leyst efnahagsvandkvæði okkar sem án efa eru eitt helsta og alvarlegasta vandamál sem við blasir, en því aðeins að þeir stjórnmálaflokkar, sem framar öðrum hér á landi geta tryggt þá samvinnu við þá aðila vinnumarkaðarins sem er þörf til þess að svo megi verða, fáist til þess að viðurkenna þetta og hafi kjark til þess að gera það sem gera þarf til að framfylgja því. Flokkur, sem heykist á því að hlýða slíku kalli vegna einhverra gamalla fordómi um að hann geti aðeins unnið til þessarar áttar, en aldrei hinnar, — slíkur flokkur er flokkur sem bregst þegar mest á ríður, og þannig flokkar leysa aldrei neinn vanda. Menn, sem ekki sjá það að undir núverandi kringumstæðum er bæði viturlegt og nauðsynlegt að koma á laggirnar stjórn sem þannig er skipuð að hún geti náð trausti þeirra hagsmunaaðila sem mestu valda um hvort efnahagsaðgerðir heppnast eða misheppnast og er því fært að gera sem flesta samábyrga um ákveðnar lausnir á efnahagsvandanum og þá um leið að gera þeim umhugað um að þær aðferðir heppnist, — þeir menn, sem ekki sjá þetta, eru ekki hæfir til þess að veita þjóð sinni forustu á þrengingatímum eins og nú eru því að annaðhvort brestur þá vit eða kjark.

Ég hef þá trú að þá ríkisstj., sem ég hef hér um rætt, sé hægt að mynda nú, og því fyrr því betra. Slík ríkisstj. hefur áður verið mynduð, og ég hef þá trú að aðstæður nú séu þannig að það sé unnt og það sé þarft og það sé nauðsynlegt að slíkt verði gert á ný. Takist það hins vegar ekki af einhverjum ástæðum, þá er ekki um annað að ræða en leyfa þjóðinni að segja álit sitt í kosningum og leggja þá fyrir hana þau úrræði sem flokkarnir kunna að hafa, svo að séð verði hvað þjóðin vill. Það eina, sem unnt er að fullyrða um vilja hennar eins og mál standa nú, er það, að hún vill umfram allt ekki það sem hún nú hefur, og mun víst engan á því undra. — Góða nótt.