13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4317 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar samsteypustjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var mynduð um mitt sumar 1974 eftir mikinn kosningasigur íhaldsaflanna í landinu út á mörg stór og fögur loforð og litskrúðugar lýsingar um hörmuleg endalok vinstri stjórnarinnar nokkru áður biðu margir eftir að heyra úrræðin í fyrstu stefnuræðu hæstv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar. Ekki stóð á loforðum í fyrstu stefnuræðunni og yfirlýsingum um að verðbólguvöxturinn yrði ekki meiri en um 15% um áramótin 1975–76. Nú hafa landsmenn heyrt stefnuræðu nr. 2 og þar var einnig mörgu lofað til bóta, en þó skinu í gegn vanefndir á mörgum fyrri loforðum og verðbólguvöxturinn var viðurkenndur meiri en nokkru sinni áður. Einhvern veginn hafði ekki tekist að hamla neitt þar á móti fremur kynnt undir. Eina haldreipið var að ekki væri stórfellt atvinnuleysi í landinu.

Á þeim tæplega tveimur árum, sem þessi íhaldsstjórn hefur setið, má fullyrða að flest hafi gengið á brauðfótum og efndir nær engar til úrbóta á því hörmungarefnahagsástandi sem við blasti þegar hún var mynduð. Ekki vantar þó meiri hl. hér á hv. Alþ. En það er ekki hin sterka hlið að stjórna. Fremur líta menn alvarlegum augum á málin og láta þar við sitja. En menn lifa ekki lengi á einu saman loftinu. Meira þarf til ef öll framvinda á að geta haldið áfram sómasamlega.

Í setningarræðu sinni á 21. landsfundi Sjálfstfl. fyrir rétt rúmlega ári sagði hæstv. forsrh. þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstæðismenn gengu hreint til verks og sögðu kjósendum að eigi væri unnt að eyða meiru“ — menn taki eftir því — „að eyða meiru en aflað væri.“ Hlutverk nýrrar ríkisstj. hlyti fyrst og fremst að vera að jafna byrðunum á landsmenn til að jafna halla atvinnuveganna, þjónustustofnana, ríkis og þjóðarbúsins í heild, til þess að tryggja fulla atvinnu í landinu og stöðu þjóðarbúsins út á við. Einnig var heitið að jafna byrðunum réttilega, hvað sem svo felst í orðinu „réttilega“ hjá talsmönnum íhaldsins.

Hvað er nú hæft í slíkum staðhæfingum er urðu til þess að margir kusu Sjálfstfl. út á hin stóru loforð? Ekkert hefur staðist. Hvers vegna? má spyrja. Því er fljótsvarað. Stjórnleysi hefur ríkt hér í tíð núv. ríkisstj. Verðbólgan hefur verið ofsaleg og fáránlegar ákvarðanir í eyðsluátt hafa haldið henni virkilega í hámarki. Þrátt fyrir marglofað aðhald í ríkisrekstrinum og minnkun skattabyrðar frá tíð vinstri stjórnar hefur halli ríkissjóðs farið sívaxandi og stórkostlegri erlend lántaka verið gerð en nokkru sinni áður. Það sanna tölur.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú miklum mun meiri á hvert mannsbarn í landinu en nokkru sinni áður. Enginn gjaldeyrir er til og gripið hefur verið til skömmtunar á honum gagnvart vissum vöruflokkum. Við skuldum svo gífurlegar upphæðir erlendis að á næsta ári mun rétt um fimmta hver króna í gjaldeyristekjum okkar fara til þess að borga vexti og afborganir lána. Þetta hlutfall var áður 10–12%. Þetta er það sem sjálfstæðismenn kalla að styrkja stöðu þjóðarbúsins út á við. Í sannleik er nú svo komið að allir möguleikar okkar fyrir að fá meiri lán eru þrotnir og við lifum á náðarlánum sérstakra björgunarsjóða.

Ekki er ástandið betra þegar staða ríkissjóðs er skoðuð, þrátt fyrir orð síðasta ræðumanns. Mikil vandræði voru að koma saman fjárl. fyrir yfirstandandi ár, og það átti honum að vera vel kunnugt um. Ég fullyrti við afgreiðslu þeirra í des. s.l. að þau væru óraunhæf við ríkjandi ástand og tækju ekki tillit til væntanlegra kjarasamninga, fjárl. væru því í annað sinn í raun gagnslaust plagg að mestu leyti og mundi fara eins fyrir hæstv. fjmrh. nú sem í fyrra skiptið, að gífurlegar aukatekjur eða skuldasöfnun þyrfti að koma til ef rekstur ríkisins ætti að halda áfram, eins og útgjaldastefnan væri. Þetta hefur nú áþreifanlega komið í ljós. Og nýlega, en hv. þm. virtist ekki muna eftir því, voru samþykktar stórkostlegar álögur til tekjuöflunar í viðbót við fjárl. þótt fjögurra mánaða gömul væru. Svona er í raun fjármálastjórnin á þeim bæ. Menn muna kannske ekki eftir patentlausninni frá hæstv. fjmrh. sem stjórnarandstæðingi í vinstri stjórn, en þá fann hann upp hina frægu þak-kenningu á fjárl. Einhvern veginn virðist nú allhátt til þaksins og snarbratt til mænisins í fjárlagagerð ráðh. í raun.

En hvað um iðnaðinn? Er ekki allt með miklum blóma þar? Nei, því fer nú víðs fjarri einnig. Þar er nú svo dökkt fyrir hjá flestum iðngreinum að um þverbak keyrir. Oft hafa iðnaðarmenn kvartað yfir rekstrarfjárskorti, en nú eru nær öll sund lokuð og samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar er með versta móti. Mikill samdráttur hefur orðið í mörgum greinum hans. Þetta er því alvarlegra sem mestur hluti aukins vinnuafls verður að fá starf við sitt hæfi hjá iðnaði og verslun. Handahófið og ráðleysið í málum íslensks iðnaðar er með eindæmum.

Nýleg ráðstefna um þróun í iðnaði staðfesti algerlega stefnuleysið þar. Mörg yfirreið iðnrh. hefur ekki leyst vandann þótt einn af stjórnarþm. tæki svo til orða úr hans flokki að ein virkjun á dag setti ástandið í lag.

Um horfur og ástand í sjávarútvegi okkar mætti hafa mörg orð. Þar er allt meira og minna í hnút þrátt fyrir gengisfellingar og úthlutun upphæða er nálguðust nærri 4 milljarða kr. á s.l. ári. Margföld reynsla sýnir að gengisfellingar eru ekki einhlít lausn fyrir sjávarútveginn og allra síst þegar óvenjumiklar erlendar skuldir hvíla á skipunum og jafnvel vinnslustöðvunum líka. Verðhækkunarskriða í kjölfar gengisfellingar hefur margoft áður fært allan ávinning af henni skjótt í kaf og skilið menn mun verr setta eftir en áður. Svo er á það að líta að aðhaldsleysið víð að fara vel með hlutina og að spjara sig vel hverfur gersamlega þegar menn sjá að því meiru sem eytt er, því betra. Það er bjargföst skoðun mín að þessi hugsunarháttur verði að breytast. Í raun tel ég það vera forsendu fyrir heilbrigðu efnahagslífi hér hjá okkur og gildir jafnt um einkaaðila og ríkisreksturinn.

Vandamál sjávarútvegsins eru miklum mun meiri en efni standa til vegna mistaka við stjórnun á málefnum hans í nær öllum þáttum framleiðslunnar. Hvaða vit er í því að koma með frv. um endurskipulagningu á öllum veiðum í landhelgi okkar nú í þinglokin? Hvaða vit er í því að hafast ekki að og sjá fram á að þorskurinn verður gífurlega ofveiddur á þessu ári svo að nema mun mörgum tugum þús. tonna? Þetta er ekkert einkamál nokkurs manns né vissra byggða. Hér er um lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar að tefla, og menn verða að þora að taka á þessum vanda — við sem erum til þess kjörnir. Eðli málsins samkv. er ekki hægt að taka áhættuna á ofveiði ár eftir ár og allra síst nú eins og málum er komið með þorskstofninn. Það er á allra vitorði, er við sjóinn vinna, að veruleg brot eiga sér stað á lögum og reglugerðum þar. Í frv. því, er ég vitnaði til að seint væri á ferðinni nú í þinglokin, vildi n. sú, sem undirbjó efnislega gerð þess, eindregið leggja til að sérstök eftirlitsskip yrðu fengin til þess að fylgjast með afla hringinn í kringum landið og reynt yrði með því að koma í veg fyrir smáfiskadráp og ofnotkun neta og önnur brot við ýmsar veiðar. Því miður kemur svo frv. til meðferðar á hinu háa Alþ. með þessum orðum: „Stefnt skal að því að fá gæzluskip“ o.s.frv. Þetta er óviðunandi Frv. verður að tryggja lágmarksátak til þess að rétta við þorskstofninn, og mikilvægt atriði í því sambandi er að hafa til eftirlits a.m.k. tvö skip. Þessi skip þurfa ekki að vera stór og dýr. Hér getur verið um góða fiskibáta að ræða, t.d. frá 75 brúttótonnum að stærð að t.d. 120 brúttótonnum. Einnig verður að tryggja tilætlaðan árangur með skyndifriðunum, og telja flestir að til þess þurfi svigrúm minnst þrjá daga, en frv. gerir ráð fyrir aðeins tveim dögum. þetta frv. er svo þýðingarmikið fyrir lífsnauðsynlegt átak íslensku þjóðarinnar að rétta við fiskstofna okkar, að fáeinar millj. kr. í útgjöldum víð framkvæmd þess geta ekki ráðið stefnunni þegar fjárlög með aukatekjum eru að nálgast 63 milljarða kr. Ég vek athygli á þessu hér vegna gildis frv. fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar og tilveru. Í raun og veru hefðu lög um hagnýtingu fiskveiðilögsögu okkar átt að vera tilbúin um leið og 200 mílna lögsagan gekk í gildi. Þá sýndum við öllum heiminum að við værum menn til þess að ráða málum okkar með festu og skynsemi.

Þau ánægjulegu tíðindi gerðust nú fyrir réttri viku, í lok Hafréttarráðstefnunnar í New York, að strandríkin fá viðurkenndan rétt til þess að ákveða veiðimagn á sínu hafsvæði, stjórnun veiða, friðun og sókn. Þótt enn líði nokkur tími þar til samkomulag um hafréttarmálin liggur fyrir sem heild má samt sem áður ganga út frá því nú að réttur strandríkisins verði tryggður, og hefur þá í raun rúmlega 20 ára barátta strandríkjanna víðs vegar um heim fengið stuðning og viðurkenningu í alþjóðalögum. Þegar þessi staðreynd liggur nú á borðinu, þá tel ég ný viðhorf vera fyrir hendi í landhelgismálum okkar. Þetta þurfa allir landsmenn að gera sér ljóst, hvar í flokki sem þeir standa. Ég er einn þeirra manna nú sem telja full yfirráð okkar vera tryggð og sé því ekki tilgang í því að rembast við að kaupa nýja gerð af herskipum fyrir okkur sem kosta of fjár. Halda menn virkilega, er þessum málum stjórna, að þessi átök vinnist með skotgleði? Nú verða ríkisstj. og Alþ. að gera þær pólitísku ráðstafanir er bretar og fleiri skilja svo og að láta þjóðverja standa við gefin loforð og samning um að fara burt úr því að bókun nr. 6. tekur ekki gildi í viðskiptum okkar við Efnahagsbandalagslöndin. Réttur okkar er staðreynd sem alþjóðalög viðurkenna nú, og frá því verður ekki hvikað hér eftir. Þetta þarf að undirstrika við breta og þjóðverja.

Eins og margir hlustenda hafa veitt athygli, þá talaði hæstv. samgrh. fyrir vegáætlun í fyrradag, svona seint eru þessi mál nú á ferðinni, en þinglausnir eru á næstu grösum og unnið langt fram á nætur undanfarið til þess að hespa víss mál í gegn. Þetta er ein staðfestingin á því hversu allt gengur með furðulegum hætti í stjórnarherbúðunum. Þessi vegáætlun ber þess nú glöggt vitni að verðbólgan er að eyðileggja allar fyrri vegáætlanir og magnminnkun framkvæmda annað árið í röð verður um fjórðungur frá fyrri áætlun. Ríkisstj. er hér stödd í slæmri holu á miðjum veginum og getur sig lítt hreyft. Álögur á umferðina eru þegar svo miklar að hún treystir sér ekki til þess að bæta smápinklum þar ofan á og ekki er talið unnt að leggja út í meiri lántökur um sinn. Þessi mál eru því í algerri sjálfheldu. Í áætluninni er gert ráð fyrir 1600 millj. kr. lánsfé og skiptist það í almenna lánsfjáröflun 1350 millj. kr. og svo sérstaka lánsfjáröflun 250 millj. kr. Þessi seinni liður er einkar athyglisverður, en með honum er gengið út frá því að einstakir verktakar láni Vegasjóði um 250 millj. kr. Svona févana er Vegasjóður, að í stað þess að greiða fyrir verkin strax og fá þau með því móti á lágmarksverði þarf nú að betla lán hjá verktökum fyrir hundruð millj. kr. Halda menn að þetta geti gengið? Verða vegaframkvæmdir ekki miklu dýrari með þessu móti? Jú, auðvitað. Fjármagn er svo dýrt í dag að lán frá einstaklingum hlýtur að koma alvarlega niður á magni framkvæmda. Þessi vinnubrögð og verðbólgan eru að eyðileggja eðlilega framkvæmd fyrri vegáætlana.

Alls gerir vegáætlunin ráð fyrir 4 614 millj. í heild, og þar af eiga 2124 millj. að fara í nýja vegi eða tæpur helmingur. Í viðbót við þetta er svo ekki kostur á því fyrir þm. að fjalla sómasamlega um skiptingu þessa fjár vegna tímaskorts hér á hv. Alþ.

Herra forseti. Tími minn er senn á þrotum. Að lokum vil ég þó taka þetta fram: Þm. Alþfl. hafa margsinnis á yfirstandandi þingi bent á veilurnar í stjórn efnahagsmála og borið fram réttmæta gagnrýni þess vegna. það hef ég gert hér enn einu sinni. Sumir hlustenda kunna að halda að þetta sé hótfyndni. En ég fullvissa hvern hlustanda að svo er alls ekki. Þessu til staðfestingar vil ég minna á fund hjá Seðlabanka Íslands fyrir skömmu, en hann sat öll ríkisstj., þegar reikningar bankans voru staðfestir. Mér leyfist að vitna í orð seðlabankastjóra orðum mínum um stjórnleysi til stuðnings. Orðrétt — með leyfi forseta — sagði seðlabankastjórinn í áheyrn allra ráðh. er ekki hafa mótmælt enn þá: „Þá ályktun verður að draga af þeirri þróun fjármála og peningamála sem nú hefur verið rakin að skortur á heilsteyptri og samræmdri stefnu í þessum málum hafi verið meginveikleiki hagstjórnar á síðasta ári.“ Svo mörg voru þau orð. En margt, margt fleira mætti upp telja úr skýrslu Seðlabankans er staðfestir fyrri orð mín hér í kvöld fullkomlega, en til þess er ekki tími.

Þessi ríkisstj. hefur nú setið að völdum fast að tveimur árum. Það er allra manna mál að flest hafi gengið úrskeiðis efnahagslega séð, og réttmæt krafa almennings er að hún segi af sér og best að kosið yrði nú strax. En til þess hafa hæstv. ráðh. engan kjark. En þjóðin mun minnast gerða þeirra á réttum tíma. — Góða nótt.