14.05.1976
Efri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4333 í B-deild Alþingistíðinda. (3647)

236. mál, skotvopn

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins í örstuttum orðum vil ég taka undir sumt af því, sem síðasti hv. ræðumaður sagði, og fagna þessu frv. Mér sýnist þó við fljóta yfirferð á því, — ég viðurkenni að ég hef ekki skoðað það nægilega vel, — að þar vanti suma hluti í.

Að vísu segir hér í 20. gr.: „Eigi má hleypa af skoti á vegum, yfir vegum, á almannafæri eða annars staðar þar sem hætta getur stafað af nema nauðsyn krefji.“ E.t.v. má fella undir þetta að skjóta út um glugga á bifreiðum. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að slíkt sé óþolandi. Ég tel að hv. ræðumaður hafi verið að tala um þann sið sem hér tíðkast, að sumir menn aka um þjóðvegi skjótandi á fugla út úr bílum á þjóðvegum sem er náttúrlega algerlega fáránlegt. En ég tel að 20. gr., þar sem segir: „Eigi má hleypa af skoti á vegum“ geti komið í veg fyrir.

Svo tek ég undir þetta með byssur sem hlaða sig sjálfkrafa. Sérstaklega vildi ég benda á 5 skota haglabyssur sem eru algengar og hafa víðaverið bannaðar þar sem veiðar eru undir einhverju eftirliti. Þær verka eins og hríðskotabyssur og skilja eftir sig mikið af Færðum dýrum, eru venjulega notaðar án þess að miða og strá höglum um mikið flæmi. Ég sakna einnig ákvæðis um slíkt, en ég treysti mér ekki til við þessa umr. að flytja brtt. þar um.