17.11.1975
Sameinað þing: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur athugað kjörbréf Kristjáns J. Gunnarssonar fræðslustjóra sem nú kemur til Alþ. í fjarveru Gunnars Thoroddsens, 2. þm. Reykv. Þannig hagar til nú að 1. varaþm. Sjálfstfl. í Reykjavík, frú Geirþrúður Hildur Beruhöft, situr á Alþ., en bréf hefur borist frá Gunnari J. Friðrikssyni, 2. varaþm. D-listans í Reykjavík, þar sem hann lýsir því yfir að hann geti ekki komið til þings nú.

Kjörbréfanefnd hefur skoðað þetta kjörbréf Kristjáns J. Gunnarssonar og leggur einróma til að kosningin verði tekin gild og kjörbréfið samþ.