14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessu máli. En greinargerðir nokkurra hv. þm. við atkvgr. við 2. umr. um málið gefa mér tilefni til þess að segja aðeins nokkur orð og gera það raunar að mínu mati óhjákvæmilegt að ég segi nokkur orð til skýringar, vegna þess að ef það væri látið standa ómótmælt sem kom fram í grg. hjá nokkrum hv. þm., þá gæti það gefið villandi hugmyndir um afstöðu stjórnarflokkanna til þessa máls.

Það ákvæði, sem ég á hér við, er 3. gr. frv. þar sem segir að 4. gr. laganna orðist svo og svo. Um þessa grein hefur talsvert verið rætt og farið fram bollaleggingar um það hvort forstjóri skyldi veira einn eða tveir eða fleiri. Mér skilst að það hafi hér verið gefin skýring á því hvað felst í þessu ákvæði og af þeim sökum hafi svo verið flutt brtt. um þetta til þess að taka það fram skýrt að forstjóri skyldi vera einn. Og a.m.k. þrír hv. þm. gerðu þá grein fyrir atkv. sínu að þeir greiddu atkv. gegn þessari brtt. af því að um þetta ákvæði, eins og það hafi verið lögskýrt, væri samkomulag.

Það fer ekki á milli mála að með þessu er verið að gefa það í skyn að það hafi verið annar stjórnarflokkurinn sem hafi krafist þess og krefjist þess að forstjórar fyrir Framkvæmdastofnuninni séu fleiri en einn. Þetta er ekki rétt. Slík krafa hefur ekki komið fram frá Framsfl. Það hefur ekkert reynt á það hvort Framsfl. óskaði þess eða ekki. Það samkomulag, sem hér er um að tefla, er samkomulag þá á milli þeirra nm. sem sömdu þetta frv. En það voru fjórir menn sem sömdu þetta frv. tveir frá Sjálfstfl. og tveir frá Framsfl. Og frv. er lagt fram eins og það kom frá þeirri n. eftir að hún hafði endurathugað það,en án þess að það þyrfti að vera nokkur umr. eða ósamkomulag eða samkomulag í ríkisstj. um þetta. Það hefur þess vegna ekkert út af fyrir sig staðið á Framsfl. að samþykkja það fyrirkomulag að það skuli vera einn forstjóri við Framkvæmdastofnunina. Þess vegna þýðir ekki einum eða neinum að ætla að halda því fram, að það hafi verið hann sem hafi strandað á í því efni, eða bera því við að hann hafi gert þá kröfu.

Þetta vil ég að komi alveg skýrt fram. Ef menn skírskota til samkomulags í þessu efni, þá er það samkomulag á milli einhverra annarra aðila en stjórnarflokkanna. Og ég vil bæta því við, af því að einn hv. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson, lét í ljós vonbrigði yfir þessari endurskoðun og gaf í skyn að hann eftir stjórnarsáttmálanum hefði haft einhverjar aðrar hugmyndir um þá endurskoðun, — ég vil leyfa mér að taka fram að í stjórnarsáttmálanum stendur ekkert um það hver skuli verða útkoma þeirrar endurskoðunar sem um er að tefla eða fram átti að fara, þannig að hafi hv. þm. haft um þetta einhverjar ákveðnar hugmyndir, þá hljóta það að vera hans prívathugmyndir, en geta ekki byggst á því sem um var rætt í sambandi við stjórnarmyndun.

Og svo er það nú bara að lokum, af því að við erum nýbúin að afgreiða hérna frv. um íslenska stafsetningu, að hitt er alltaf að mínum dómi ekki síður mikilvægt, að það sé sæmilega skýr hugsun sem sett er fram, heldur en þó hvað stafsetningunni viðkemur. Ég skal nú ekkert segja um það hvort 3. gr. er að öllu leyti tekin upp úr lögunum eins og þau eru, en þó þykir mér það heldur ósennilegt. Ég verð að segja það, að mér finnst að það hefði ekki sakað þó að hv. n., sem hefur fengið þetta frv. til meðferðar, hefði tekið til skoðunar orðalagið á 2. mgr. 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: „Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar tekur ákvörðun fyrir hönd stofnunarinnar um launakjör forstjóra, framkvæmdastjóra deilda og annarra starfsmanna“. Ég held að það hefði ekki sakað að það hefði fallið niður þarna „fyrir hönd stofnunarinnar“.

En erindi mitt var bara þetta, að ég ætla ekki að liggja undir því að það eigi í framtíðinni e.t.v. að fara að núa Framsfl. upp úr því að það hafi staðið á honum í þessu efni. Það er ekki rétt.