14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4339 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þetta frv. Ég hef hlustað á umr. og þær hafa verið með köflum svolítið kyndugar. En málið er nú komið til 3. umr., og það verður að segja að frv. er samkomulagsfrv., ekki endilega um eina grein frv., heldur frv. í heild. Hvað 3. gr. varðar vil ég segja að þar er talað um, og er alger breyting frá því sem er í gildandi lögum, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ræður því hér eftir, ef þetta verður samþ., hver verður ráðinn eða hverjir verða ráðnir forstjórar. Ríkisstj. skipar forstjórann eða forstjórana samkv. tillögu stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, en ekki að fengnum till. stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar og er þetta meginmunurinn. Í gildandi lögum hefur stjórn stofnunarinnar aðeins tillögurétt um ráðningu forstjóra.

Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar mun ræða málið ef frv. verður að lögum, og verður það eftir samkomulagi í stjórninni hver verður ráðinn eða hvort verða ráðnir fleiri en einn forstjóri. Það hefur ekki hvarflað að mér að það yrði farið að segja einum eða öðrum það til lasts þótt hann hefði sagt skýrum orðum að hann vildi tvo forstjóra frekar en einn. Ég veit að ýmsir halda því fram að það megi spara mikið með því að hafa einn forstjóra. Áður en ég kynntist stofnuninni hafði ég búist við því að það mætti gerast. En ég vil upplýsa að forstjórarnir hafa 60% af fullum launum og nemur það 20% meira heldur en full laun eins manns. Ég ætla ekki að orðlengja um það hér á þessu stigi hvort er heppilegra að hafa einn forstjóra eða tvo. Það verður samkomulagsmál í stjórn stofnunarinnar þegar að því kemur eða ef til þess kemur að þessum málum verði skipað eftir nýjum lögum.

Það hefur verið fullyrt að það væri óheppilegt að hafa alþm. í þessu starfi eða menn sem gegna að einhverju leyti öðrum störfum. Þetta er vitanlega álitamál og menn geta haft sínar skoðanir á því. Það hefur verið borið saman við það hvernig þetta er að verða í bönkunum. Það þykir ekki lengur viðeigandi að bankastjórar sitji á Alþ. En forstjórastaða í Framkvæmdastofnuninni er nokkuð öðruvísi en bankastjórastaða að því leyti, að forstjórar í Framkvæmdastofnuninni veita engin lán. Þeir hafa ekki atkvæðisrétt um það hverjir fá lán, heldur er það stjórn stofnunarinnar. En auðvitað hafa þeir mikil áhrif, undirbúa fundi og gera tillögur til stjórnarinnar, en lokaorðið hafa þeir ekki um það hverjir fá lán, eins og bankastjórar hafa.

Það mætti margt segja um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Sumir hafa gert lítið úr þeim breytingum sem í því felast á gildandi lögum. Það er mikill misskilningur að það sé um litlar breytingar að ræða. Breytingarnar eru miklar frá gildandi lögum, og ég fullyrði það, að ef frv. hefði verið í þessari mynd haustið 1971, þegar fyrst var rætt um Framkvæmdastofnunina, þá hefði hvorki ég né ýmsir fleiri séð ástæðu til að leggjast á móti frv. Hæstv. forsrh. hefur lýst því í skýru máli hvað það var sem við sjálfstæðismenn vildum helst breyta í þessum lögum, og því hefur verið breytt. Það eru þrjú atriði sem hann nefndi sérstaklega, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Það þykir ekki eðlilegt að hafa mál manna lengra nú heldur en brýn þörf gerist á síðustu klukkustundum þessa þings, og ætla ég ekki að ræða þetta mál ítarlegar. En ég vil enn segja að þetta frv. er samkomulagsmál stjórnarflokkanna. Ég held, að alþm. geti vel við unað ef frv. verður að lögum í þeirri mynd sem það nú er.