14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (3671)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða efnislega mikið um þetta frv. Ég vildi aðeins segja örfá orð vegna þeirra ræðna sem hér hafa verið haldnar.

Það er fyrst út af ummælum Péturs Sigurðssonar, hv. 8. þm. Reykv., um að einstakir þm. úr Sjálfstfl. hafi ekki haft neitt við þetta frv. að athuga. Annaðhvort segir hann það gegn betri vitund eða þá hann hefur ekki fylgst nægilega mikið með, því að það er áreiðanlega öllum þingheimi ljóst að ég hef allan tímann haft verulega mikið við lögin um Framkvæmdastofnunina að athuga og margoft sett fram mínar skoðanir, m.a. í þingflokki sjálfstæðismanna. Ég hef aldrei komið aftan að neinum í þeim efnum. Ég held að sú gagnrýni hafi a.m.k. átt einhvern þátt í því að þetta frv. er þó þannig úr garði gert eins og það liggur nú fyrir. Ég var hins vegar langt frá því að vera ánægður með allt sem í því stóð, taldi að þar væri ekki nægilega langt gengið. M.a. var ég óánægður með orðalag og innihald 3. gr. Ég leyfði mér að flytja brtt. við þessa gr., sérstaklega vegna ummæla hæstv. forsrh. um það efni.

Mér er það fullvel ljóst að hér er um frv. að ræða sem er samkomulag milli tveggja ólíkra flokka, og ég hef fullan skilning á því að það er ekki hægt að ná öllu fram af öðrum aðilanum þegar slíkt samkomulag er gert. En hæstv. forsrh. tók fram, þegar hann flutti framsögu með málinu hér í upphafi, og það held ég að hafi verið endurtekið af honum síðar í umr., að það væri alveg á valdi stjórnar stofnunarinnar hversu forstjórarnir skyldu vera margir, og þar sem ég hef haft þá skoðun að forstjóri ætti ekki að vera nema einn, en frv. gerir það mögulegt að þeir séu fleiri, þá vil ég taka af allan vafa um þetta. Ég veit að hér var rétt skýrt frá, það var ekki samkomulag um það, a.m.k. þegar frá þessu máli var gengið í mínum þingflokki, hvort forstjórar ættu að vera einn eða tveir, og ef eitthvert slíkt samkomulag hefur verið gert, þá er það gegn minni vitund og bak við einhver tjöld, þannig að mér kom á óvart að menn gætu greitt atkv. gegn till. minni með vísan til þess að það ákvæði sérstaklega væri samkomulagsatriði.

Ég skal ekki fara að rekja það efnislega hvers vegna ég er á móti því fyrirkomulagi að það séu fleiri en einn forstjóri né heldur hvers vegna ég er á móti því að alþm. taki að sér þessi störf. Ég hef áður rakið það og skal ekki lengja þessar umr. með því að endurtaka það núna. Ég vil hins vegar aðeins vekja athygli á því sem fram kemur annars vegar í ræðu hæstv. dómsmrh., þar sem hann leggur áherslu á að Framsfl. hafi ekki gert neina kröfu til þess að forstjórarnir yrðu fleiri en einn og tekur fram að hans flokkur sé viðbúinn að breyta slíku, en hins vegar kemur fram í ræðu hv. þm. Tómasar Árnasonar að hann telur það skilyrðislaust eiga að hafa a.m.k. tvo forstjóra, telur það bæði vera skynsamlegt og til stuðnings fyrir stofnunina. Þannig kemur fram áberandi ágreiningur og skoðanamunur milli þessara tveggja flokksbræðra. Slíkur ágreiningur er eðlilegur í þessum flokki eins og öðrum og ekkert við því að segja, en engu að síður vert að vekja athygli á þessum skoðanamun.

Að lokum vildi ég aðeins undirstrika það, að ég tel að atkvgr., sem fram fór um till. mína í gær, hafi verið ákaflega athyglisverð, úrslít hennar, og það var athyglisvert að till. skyldi falla á jöfnum atkv. með svo mörgum skýringum á atkv. og með fyrirvörum sem í sjálfu sér stóðust ekki. Og það er líklega athyglisvert að málið þurfti að fá atkv. þeirra manna sem nú gegna forstjórastörfum til þess að till. yrði felld. Ég treysti því að ábyrgir, sanngjarnir og heiðarlegir stjórnmálamenn, kollegar mínir hér í þinginu, dragi lærdóm af þessari atkvgr.