14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4346 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að grg. sumra stjórnarþm. við atkvgr. um þetta mál í gær gætu gefið villandi upplýsingar um afstöðu stjórnarflokkanna. Hér átti hæstv. dómsmrh. við atkvgr. sem átti sér stað um till. hv. þm. Ellerts B. Schram varðandi 3. gr. frv., þá hina loðnu og líklega loðnustu sem sést hefur hér a.m.k. nokkuð lengi í formi lagafrv., þ.e.a.s. hvort hér væri um að ræða og hægt væri um að ræða einn eða fleiri forstjóra þessarar stofnunar. Við þessa atkvgr. voru það ekki einungis óbreyttir þm. stjórnarliðsins sem gerðu grein fyrir atkv. sínu, heldur var þar um að ræða tvo hæstv. ráðh. í ríkisstj., þ.e.a.s. þá nafna hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. Þeir gerðu þá grein fyrir sínu atkv., ef ég man rétt, um þetta efni, þ.e.a.s. um 3. gr., að hér væri um að ræða samkomulagsatriði sem þeir hefðu staðið að þrátt fyrir flutning þeirra till. sem þeir höfðu uppi haustið 1971 um að einungis skyldi vera einn forstjóri ákveðinn, — þrátt fyrir þann tillöguflutning, sem þeir þá höfðu uppi, mundu þeir vegna samkomulags um þetta tiltekna atriði þessarar tilteknu 3 gr. frv., um fjölda forstjóra, þá mundu þeir greiða atkv. gegn till. hv. þm. Ellerts B. Schram sem var í raun og veru nákvæmlega um það sama sem þessir hv. þm. fluttu sitt mál haustið 1971, þannig að það fer ekkert á milli mála að samkv. þessari grg. þessara hæstv. ráðh. hefur verið gert samkomulag um þetta. En hæstv. dómsmrh. sagði: Ef samkomulag hefur verið gert, þá hefur það verið gert af einhverjum öðrum en stjórnarflokkunum. — Sumir hv. stjórnarþm. hafa komið hér upp síðan og sagt: Þetta er samkomulagsatriði. — Hv. þm. Ingólfur Jónsson margendurtók það í sinni ræðu. Og þegar spurt er: Milli hverra er þetta samkomulag gert? — og kannske bætt við: Um hvað? — þá fást engin svör önnur en þessi: Ef samkomulag er gert, þá er það á milli annarra aðila en stjórnarflokkanna. Það er ekki óeðlilegt að a.m.k. við í stjórnarandstöðu, hvað sem líður hv. stjórnarþm., spyrjum: Hverjir voru það sem gerðu þetta samkomulag? — og kannske enn frekar: Um hvað er það?

Við höfum auðvitað oft, hv. þm., orðið vitni að því að æðimikill ágreiningur hefur átt sér stað á milli stjórnarþm. og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það. En nú kemur upp nýr flötur enn ferskari, þ.e.a.s. ágreiningur milli hæstv. ráðh. sjálfra í ríkisstj. um jafnveigamikið mál og veigamikil atriði eins og a.m.k. hv. þm. Sjálfstfl. þótti það ákvæði varðandi Framkvæmdastofnunina 1971 vera að þar skyldi vera gert ráð fyrir fleiri en einum forstjóra. Nú er þetta allt gleymt og grafið. Hv. 1. þm. Suðurl., sem talaði hvað fjálglegast um þessi mál hér 1971 og var í fararbroddi þeirrar fylkingar sem gerði harðastan aðsúg að frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins þá, nú talar hann hér í þeim tón að hann hafi séð það síðan hann kom til starfa innan þessarar stofnunar að hann væri ekki að færa mönnum það til lasts þó að menn vildu hafa tvo forstjóra eða fleiri, það væri ekki ástæða til þess að gera neina aths. við slíkt nú, þó að menn væru þeirrar skoðunar að það væru fleiri en einn forstjóri við þessa stofnun. Þarna kveður við allt annan tón heldur en gerðist 1971. Og ekki mun það altítt að menn komnir á þennan aldur skipti svo um skoðun á ekki lengri tíma í jafnafdrifaríku máli og hér virtist vera um að ræða hjá hv. þm. Sjálfstfl. Og svo segir Ingólfur Jónsson: Ef frv. hefði verið í þessari mynd 1971, þá hefði verið svolítið annað að standa að því.

Hvað finnst hæstv. dómsmrh. um þetta? Er hann trúaður á að hv. þm. Ingólfur Jónsson hefði haustið 1971 rétt upp höndina glaður með frv. í þessari mynd, eins og það er nú? Hræddur er ég um ekki. En hér hefur það gerst, eins og því miður allt of oft áður, að valdaaðstaða og áhrif virðast hafa mikil áhrif í þá átt að breyta skoðunum manna.

Nei, hér er í raun og veru enn ein sönnun þess að þrátt fyrir þann gífurlega þingmeirihl. sem stjórnarflokkarnir hafa hér á hv. Alþ., þá er ekki betur hægt að sjá heldur en hver höndin sé upp á móti annarri, ekki bara meðal óbreyttra þm. stjórnarliðsins, heldur og meðal hæstv. ráðh., og það í jafnveigamiklum málum, grundvallaratriðum, sem geta varðað spurningu um pólitískt siðleysi eða ekki, eins og hv. þm. Sjálfstfl. töluðu um 1971. Þá er hér einnig um að ræða að hver höndin er uppi á móti annarri innan stjórnarflokkanna sjálfra. Og líklega hefur aldrei sést ömurlegra dæmi þess heldur en einmitt nú í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. hvernig í raun og veru stjórnvöld sitja lon og don, þrátt fyrir það að öll skynsemi mæli með því að öðrum væri gefinn kostur á því að spreyta sig. En það er augljóst að menn ætla að sitja hvað sem tautar og raular, hvernig sem á málum er haldið, hvaða axarsköft sem gerð eru, hversu dýrt sem það verður þjóðfélaginu í heild, þá skulu þessir hæstv. ráðh. sitja sem fastast í stólunum. En væntanlega fer nú að styttast sá tími sem þeir telja sér í raun og veru sætt lengur. Og þetta er enn eitt dæmið, sem hér hefur gerst í sambandi við þetta mál, um það að öllum hugsandi mönnum hlýtur að vera ljóst að nú er mælirinn fullur og hæstv. ríkisstj. ætti að sjá sóma sinn í því að segja af sér.