14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það var nú síður en svo ætlun mín með þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, að fara að vekja nokkrar falsvonir í brjóstum einstakra þm. um að það fari að styttast í það að þeir fari að komast í stjórnarstóla. Það er mín skoðun að það verði bið á því. En ég vil aðeins bæta örfáum orðum við það sem ég sagði fyrst.

Auðvitað er það augljóst mál að þetta er stjfrv., það hefur verið samþ. í stjórninni. Það er teygjanlegt hvað má kalla samkomulagsfrv. Það má segja að það sé samkomulag um það sem samþ. er í stjórninni. En þegar einn hv. þm. stjórnarliðsins flytur brtt. og um hana fer fram nafnakall og þá sjá nokkrir þm., þ. á m. hæstv. ráðh., ástæðu til þess að gera þá grein fyrir atkv. sínu að þeir geti ekki greitt þessari brtt. þessa hv. þm. atkv. af því að það hafi orðið samkomulag um það sem stendur í frv., þá fannst mér að ég hefði ástæðu til að skilja þessi ummæli þeirra svo að þeir hefðu viljað eitthvað annað. (Gripið fram í.) Já fyrst og fremst náttúrlega vegna þess sem hæstv. ráðh. létu orð falla um, þeir hefðu viljað eitthvað annað og það hefði þá staðið á einhverjum öðrum að þetta hefði ekki orðið á þá lund sem þeir vildu vera láta. Og þá fannst mér það liggja nærri að draga af því ályktun þess efnis að það hefði staðið á hinum samstarfsflokknum í því efni.

Nú hefur það verið upplýst og komið fram hjá hæstv. fjmrh. að grg. var ekki meint á þessa lund. Ég tek það alveg góða og gilda skýringu. Og þá er ekki um það að ræða að það komi til þess að því verði haldið fram af einum eða neinum að það hafi að neinu leyti strandað á Framsfl. um samkomulag í þessu efni.

Ég er ekkert að fullyrða um hvort samkomulag hefði tekist um þá tilhögun sem hv. þm. Ellert B. Schram stakk upp á, af því að það hefur að mínu viti einfaldlega ekkert á það reynt innan ríkisstj., — alls ekkert. Hitt vil ég segja, að ég hef látið mínar persónulegar skoðanir í ljós áður á því hvernig stjórnskipan Framkvæmdastofnunarinnar væri best fyrir komið. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það væri óheppilegt að það væri einn maður sem fjallaði um störfin þar sem forstjóri, því að þótt þeir aðilar fari ekki með ákvörðunarvald um útlán, heldur stjórnin, þá er það auðvitað svo, að hver einn veit að ákvarðanir stjórnarinnar geta eitthvað mótast af því, hvernig till. þessir menn gera sem undirbúa málin í hendur stjórninni.

En hvað sem þessum mínum persónulegu skoðunum líður, þá vil ég að það komi skýrt fram að það hefur ekkert reynt á hvort það hefði getað orðið samkomulag um þá tilhögun sem hv. þm. lagði fram. Mér finnst hún að vísu óskynsamleg, en stundum verður maður jafnvel að gera það sem maður telur ekki það allra skynsamlegasta. En ég skal ekki hafa þessi orð fleiri vegna þess að það er ekki lengur nein ástæða til þess að ætla það eða skilja þessa grg. þeirra hæstv. ráðh. og hv. þm. á þá lund sem ég taldi vera mögulegt að skilja hana. Eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf og ég tek góða og gilda, liggur þetta alveg ljóst fyrir.