14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4349 í B-deild Alþingistíðinda. (3677)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að aðalástæða mín til þess að standa upp nú öðru sinni í sambandi við umr. um þetta mál sé sú sérstaka ræða sem hv. þm. Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., flutti áðan. Í ræðu sinni taldi hann það til sérstakra tíðinda að stjórn í einni stofnun réði sér forstjóra, einn eða fleiri, eftir því sem leyfi stæðu til. Nú veit hann manna best um það að í öllum bönkum eru það bankaráð sem ráða bankastjóra. M.a. ætti hann að þekkja manna best til þess að meiri hl. í bankaráði ákveðins banka hér í Reykjavík réð sér tvo bankastjóra fyrir ekki allmörgum árum. Og hvernig er komið fyrir þeim banka? Um það skulum við ekki ræða hér, enda er það ekki mál þessa fundar, heldur hefur það verið rætt á öðrum fundi og mun verða rætt á öðrum fundi í haust. Kannske verður hv. þm. þar, en alla vega einhver annar sem er hluthafi eða jafnvel nýr bankastjóri sem þar verður ráðinn, og heyrst hefur getið um einn úr þm.- röðum Alþfl. En þetta er furðulegt, að vera að koma með getgátur að stjórn í slíkri stofnun sé ekki treystandi til þess að ráða þá menn sem til verða kallaðir. Og ég endurtek orð mín sem ég sagði áðan: Þótt þar hafi mjög misfarist með tvo sem áttu að hafa gát hvor á öðrum, og hvorugur þeirra var framsóknarmaður eða sjálfstæðismaður, þá tel ég samt sem áður að í slíkri stofnun sem við erum nú að ræða um sé öruggara og betra að hafa menn frá þeim aðilum, t.d. frá stjórnarflokkum hvers tíma, sem ég geri ráð fyrir að verði og ég mun hiklaust styðja. Og ég mun ekki mótmæla því þegar kemur að því, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma að, að þessi stjórn breytist og það komi önnur skipan á, þá muni þeir, sem í stjórn stofnunarinnar eru og eru kjörnir af Alþ. til stjórnunar þar, ákveða um breytingu. Þetta var gert við síðustu stjórnarskipti, og það gerðu allir ráð fyrir því, einfaldlega vegna þess að vinstri stjórnin fyrrv. með sinni sameiginlegu stjórn skipaði stjórnina þannig. Ef þá hefði strax verið gengið beint að því að segja sem svo: Við skulum ráða tvo forstjóra og ekki hugsa um pólitík, — þá hefði aldrei sá mikli ágreiningur komið upp á milli Sjálfstfl. og þáv. stjórnarflokka um þetta mál eins og raun bar vitni um. Hitt er annað mál, að ég skal fúslega viðurkenna það að eftir að þeir menn höfðu unnið sinn tíma þar, við þá kynningu sem ég hafði fengið af þeim, þá skal ég ekki gagnrýna þá persónulega, langt frá því, og því síður þá tvo sem þarna hafa staðið í ístaðinu síðan stjórnarbreytingin varð. Ég tel að þeir hafi staðið sig með mikilli prýði.

Ég sem einn af þm. Reykjavíkur hef alltaf gagnrýnt það að þarna væru ekki til staðar ákveðin atriði innan laganna um það að við hér í þéttbýlinu, t.d. í Reykjavík, á Reykjanesi, gætum átt sama rétt og annað fólk á landinu. En m.a. hv. þm. formaður Alþfl. er ekki á því máli, sbr. atkvgr. hér í gærkvöld. Hann er ekki á því máli og er hann þess vegna velkominn á framboðslista hér í Reykjavík við næstu alþingiskosningar. Ég hins vegar þykist vita það og með nokkrum sanni að Framkvæmdastofnunin, þeir sem þar starfa nú, bæði í stjórn og þeir sem þar gegna forstjórastörfum, sem ég kalla nú í dag, munu hafa ætlað sér og ákveðið að stuðla að fiskiðnaði, ekki aðeins þeirra, sem í Reykjaneskjördæmiíbúa, auk bátakaupa þar og uppbyggingar fiskiflotans, heldur og að fiskiðnaði hér í Reykjavík. Við höfum verið út undan í þessu á undanförnum árum. En þeir hafa þegar tekið verklega á um að undirbúa það, að við megum líka vera með vegna þess að á bjátar í þessum efnum hjá okkur. Og ég segi: Svei þeim sem eru að finna því.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um forstjóra og forstjórakjör eða bankastjóra og bankastjórakjör. En ég legg þetta hvorugt tveggja að líku. Við kjósum hér á Alþ. bankaráð sem aftur kýs bankastjóra. Hví má þá ekki stjórn Framkvæmdastofnunarinnar velja sína forstjóra? Um fjöldann hef ég ekki fleiri orð, ég þykist hafa margskýrt mínar skoðanir í því efni.

Hv. þm. Gunnlaugur Finnsson, sem í flestum málum talar skynsamlega, fellur aðeins á einu í þessu efni, og það er að það eigi alltaf og alls staðar að halda uppi byggð í þessu landi. Ég er alls ekki sammála þessu. Við eigum ekki að halda uppi vegum, rafmagni og síma út á einhvern einn útkjálka þar sem einhver maður býr eða fjölskylda og við vitum og sjáum að ekki er hægt að búa lífvænlegu búi. Það var, guði sé lof, í landbrh.- tíð Ingólfs Jónssonar sem það var samþykkt að það ætti að vera til sjóður hjá okkur til þess að hjálpa slíku fólki til þess að komast burt frá þessum afdalajörðum — og ég kalla þetta afdalakot — til þess að það gæti komið sér fyrir annars staðar í landinu og mótað sér þar nýtt líf og betra líf, segi ég. En það, að við eigum að fara með sjóðum okkar sem slíkum að halda þessu uppi hvar sem er, ég held að það sé ekki réttur vegur, heldur verðum við að skera af vankantana og frekar að hjálpa því fólki peningalega og efnislega til þess að það geti búið sjálfu sér og sínum fjölskyldum betra líf, eins og ég sagði áðan.

Það er undarleg árátta hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, bara til þess að láta bera á sér, að koma hér upp í ræðustól og koma fram í sjónvarpi, vegna þess að það er nú ekki um margt að ræða í þeim þingflokki, en hins vegar verður að velja annan af tveim til þess að svo megi verða. Hann stendur hér frammi fyrir þingheimi og talar um hverjir byggðu upp þetta samkomulag, hverjir unnu að þessu samkomulagi? Það er auðvitað búið að svara þessu af hæstv. dómsmrh. Þekkir hann ekki þegar hann var að undirbúa vinstri stjórnina hvað þeir fundir voru margir og hvað þurfti til þess að ná samkomulagi á milli flokkanna? Nú veit þessi knálegi íþróttakennari að vestan ekki neitt um það að til þess að ná samkomulagi á milli tveggja flokka, sem hafa á margan hátt ólíkar skoðanir, þurfi að fara fram ekki aðeins samkomulagsumleitanir, heldur líka leita eftir samkomulagi og vinna að því samkomulagi. Ég álít að þeir menn, sem að þessu samkomulagi unnu, hafi unnið mjög gott og þarft verk. Hitt er annað mál, eins og kom fram hjá tveim hæstv. ráðh. okkar hér í gærkvöld, að þeir voru ekki að hafa á móti þessu samkomulagi. Hins vegar voru þeir að samþykkja samkomulagið. En þeir voru um leið að benda á það að þeir hafi orðið að bakka frá fyrri skoðunum sínum til þess að samkomulaginu yrði náð. Og Karvel Pálmason, hv. þm., ætti manna best að vita um þetta. Hann hafði verið ansi vel smurður til þess að ná samkomulagi á fyrri árum a.m.k. og hefur ekki orðið honum fjötur um fót, að ég tel, enn þá.

Ég held að ég muni, enda er ég búinn að tala tvísvar í málinu og hef ekki rétt til þess að tala aftur, láta þessu lokið. En ég vil aðeins segja það, að trú mín er sú og skoðun mín er sú þrátt fyrir skoðanir flokksbróður míns, hv. þm. Ellerts B. Schram, að ég held að í þessari stóru og miklu og þýðingarmiklu stofnun ættu ekki aðeins að vera tveir menn, heldur þrír. Og ég álít að þótt stjórn sé á bak við sem Alþ. kýs, þá megi vel vera að það verði talið æskilegt að þarna eins og annars staðar verði ekki valdir þm. Það er orðið a.m.k. títt hjá mínum flokki, Sjálfstfl., og reyndar fleiri flokkum einnig, að þeir menn, sem á þing koma, séu ekki bankastjórar. Þó þekkist þessi hefð enn þá, t.d. Alþfl., og bendi ég á einn af varamönnum hans sem hefur setið hér á þingi nokkuð oft, hv. fyrrv. þm. Braga Sigurjónsson, og reyndar getum við bent á fleiri dæmi um áhrifamenn í peningamálum þjóðarinnar sem sitja á þingi. Það er því út í hött fyrir formann Alþfl. að ráðast að þeim ágætu mönnum tveim sem hafa verið framkvæmdastjórar þessarar stofnunar fram til þessa, að (Gripið fram í: Hann réðst ekki að þeim.) Nei, blessaður maðurinn enda á líklega eitthvað að fara í Vesturlandskjördæmi á næstunni. Ég geri ráð fyrir því.

En kerfið, þótt það sé bölvanlegt, þá skal ég viðurkenna að það er nauðsyn á því, og ég viðurkenni þessa nauðsyn enn frekar en áður vegna þess að þeir sjálfir, sem þar stjórna, hafa viðurkennt að við, sem í þéttbýlinu búum, höfum verið beittir órétti í þessu. Þeir hyggjast hverfa af þeirri óheillabraut, vegna þess að ef svo á að halda áfram að það fjármagn, sem þaðan hefur komið, eigi bara að merkjast dautt og ómerkt, þá tel ég að þessi stofnun verði dauð á örfáum árum. Ég bendi ykkur á það, áður en ég lýk máli mínu, að það mun liggja fyrir mikil meirihlutasamþykkt í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, en fé í þann sjóð kemur að langmestu leyti í Reykjavík, þar hefur verið lögð fram till., sem ég veit að mun ná fram að ganga, um allt að 300 millj. kr. lán til Framkvæmdasjóðs, einfaldlega vegna þess að sá sjóður getur frekar séð um að jafna þessu þangað sem þörfin er mest og um leið verður líka þetta fé laust hvenær sem er fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég veit að þetta er ekkert leyndarmál. Við erum búnir að ákveða þetta í miðstjórn Alþýðusambandsins, það er meiri hl. fenginn fyrir því og þetta mun verða gert. Og það er gert vegna þess að við höfum trú á þessari stofnun, að hún gæti fyllsta réttlætis og hún sjái um að koma á móti grundvallarkröfum okkar sjóðs um að það verði unnið að því að atvinnuleysi verði útrýmt og það fyrirbyggt.