14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4357 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. Allshn. hefur fjallað um þetta mál og reynt að samræma sjónarmið og tekist að ná samstöðu um nál., svo sem fram kemur á þskj. 785. Þó er rétt að geta þess, að nm. voru í ýmsum smærri atriðum ekki alls kostar sammála, en náðu þó samstöðu, eins og ég sagði, en áskilja sér allir rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

N. sendi frv. til umsagnar nokkurra aðila og vann úr þeim umsögnum, og með tilliti til þeirra voru gerðar af hálfu n. nokkrar brtt. við frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess nú, þegar svo skammur tími er til bingstarfa og til afgreiðslu mála, að halda framsöguræðu efnislega um þetta mál hér við 2. umr. En ég vil þó aðeins minna á það, sem ég sagði hér við 1. umr., að það er álit mitt og ég hygg n. allrar að það beri að líta á þessa lagasetningu fyrst og fremst sem rammalöggjöf um jafnrétti eða jafnstöðu.

Ég ætla þá að víkja að þeim einstöku brtt. sem n. leggur til að verði gerðar.

1. gr. orðist svo:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti kvenna og karla.“ Það er numið þarna aftan af „á öllum sviðum.“ Það kom til greina að segja, að þetta ætti að vera á þeim sviðum sem lög þessi næðu til, en það var mat n. að það væri ekki ástæða til að hafa þetta áhersluatriði og var því settur bara punktur þarna á eftir.

Efnisbreyting kemur svo fram í 2. brtt. þar sem lagt er til að 5, gr. orðist svo:

„Nú er umsækjandi um auglýst starf kona, en það hefur verið veitt karlmanni, og skal þá Jafnréttisráð, ef umsækjandi óskar þess, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti því skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið. — Sama rétt skal karlmaður, sem er umsækjandi um starf, hafa ef konu er veitt starfið.“

Hér er um þá breytingu að ræða að í frv. í upphaflegri mynd er gert ráð fyrir því að atvinnurekandi hafi að gegna upplýsingaskyldu til þess aðilans sem ekki fær starfið. Mönnum sýndist og urðu endanlega sammála um að það kynni að vera erfitt fyrir þann, sem á að gefa upplýsingarnar, að gefa upp sitt persónulega mat, hvers vegna hann hefur valið annan umsækjandann fremur en hinn. Hér er ekki aðeins um mat að ræða á milli karlmanns og kvenmanns, heldur líka þegar metið er á milli einstaklinga, þá getur verið ákaflega erfitt að þurfa að gefa slíkt upp. En þar koma til bæði kostir þess, sem sækir, gallar hans, sem og hugsanlegir gallar þess sem ekki fær stöðuna. Þess vegna er talið eðlilegt að ráðið komi þarna inn á milli, það geti krafist eða skuli krefjast upplýsinga frá atvinnurekandanum og leggi síðan mat á það hvort atvinnurekandinn hefur haft nægilega ástæðu til þess að velja á þann hátt sem hann gerði. En í síðari gr. frv. er svo minnst á það hvernig með skuli farið.

Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingum. Þar segir að í stað orðsins „menntastofnunum“ komi: mennta- og uppeldisstofnunum. Það er til þess að taka af allan efa um það, enda þótt uppeldisstofnanir gegni menntunarhlutverki líka, að það fari ekki á milli mála að bað er átt við að þær sinni þessum málum líka.

4. brtt. er við 9. gr. frv. og er einna viðamesta brtt. sem n, gerir við frv. Hún hljóðar svo eftir meðferð n.:

„Jafnréttisráð skal annast framkvæmd laga þessara. Jafnréttisráð skal skipað 5 mönnum til þriggja ára í senn og skulu þeir ásamt varamönnum skipaðir þannig: einn skipaður af Hæstarétti og er hann formaður ráðsins og skal hafa lokið embættisprófi í lögum, einn skipaður af félmrh., einn skipaður af Bandalagi starfsmanna ríkis- og bæja, einn skipaður af Alþýðusambandi Íslands og einn skipaður af Vinnuveitendasambandi Íslands.“ — Þetta er nokkuð samhljóða því sem var. Síðan kemur: „Jafnréttisráð hefur skrifstofu og ræður framkvæmdastjóra til að veita henni forstöðu. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er veigamikið atriði sem n. hefur tekið þarna inn og á að tryggja að ætið sé opin skrifstofa þannig að menn geti leitað þangað og hún veitt þá þjónustu sem til er ætlast.

5. brtt. er lítilvæg. Það er aðeins orðalagsbreyting, þ.e.a.s. jafnstöðuráð verði jafnréttisráð og þar sem talað er um jafnstöðumál, þar verði talað um jafnréttismál.

6. brtt. er við 11. gr. Þar er aðeins orðalagsbreyting.

Síðasta till. er um heiti frv. sjálfs, að það verði nefnt „Frumvarp til laga um jafnréttisráð.“ Um þetta urðu töluverðar umr. í n., hvort það væri rétt að kenna lögin eingöngu við Jafnréttisráðið. Hér koma inn ýmis fleiri atriði í þessari lagasetningu. Það varð þó að lokum gert samkomulag um það, eins og ég sagði áðan, og a.m.k. fyrir mitt leyti grundvallað á þeirri skilgreiningu að í 11. gr. er gert ráð fyrir því að Jafnréttisráð eigi að líta eftir með því að ákvæði 2.–8. gr. séu ekki brotin. Þetta kann þó mörgum að virðast vera matsatriði, og um breytingarnar, eins og þær eru hér lagðar fram, er sem sagt samkomulag enda þótt menn væru í upphafi ekki algerlega sammála um þær.

Það fylgdi svo þessu fyrirvari, sem allir nm. gerðu, að einstakir nm. eru óbundnir að því að flytja eða fylgja brtt., enda hafa verið lagðar hér fram brtt. af einum nm. sem hann flytur og mun eflaust gera grein fyrir sjálfur.