17.11.1975
Efri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

62. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Þetta skulu vera fá orð. Ég þakka hv. þm., sem hér hafa talað, undirtektir varðandi meginefni þess frv. sem við höfum lagt hér fram. Ég athugaði það eða mér varð það ljóst næstum þegar er ég hafði lagt þetta frv. fram að þessi viðmiðun var röng, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson benti á. Ég kunni hins vegar ekki við að benda á það sjálfur hér í ræðustól eftir að þetta var komið þannig, enda skiptir það, eins og hann sagði, ekki meginmáli, heldur spurningin um regluna og það hvernig þessu er beitt í sjálfu sér. Ég er alveg sammáta hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni í því, að það má sannarlega deila lengi um réttmæti þeirrar reglu að draga frá skatti 50% af launatekjum konu, og auðvitað er það líka rétt að þetta nýtist fyrst og fremst, þar sem um háar tekjur er að ræða, og eykur þess vegna ekki neitt jafnrétti í reynd. En meðan þessi regla gildir almennt úti í atvinnulífinu, þá auðvitað verðum við að taka mið af henni einni í sambandi við breyt. á skattalögunum hvað snertir eiginkonur bænda sem taka þátt í búrekstrinum. Við það verður þess vegna að miða.

Ég tek líka undir það, það er vissulega rétt að það þarf að tryggja bændum betri tekjur, þannig að þeir nái fullkomlega þeim hlut sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt varðandi viðmiðunarstéttirnar. Ég er algerlega sammála því, og ég hygg að á síðustu árum hafi þó nokkuð miðað þar í rétta átt. Ég sá tölur yfir þetta a. m. k. fyrir árin 1972 og 1973 og ég held 1974, og þar kom í ljós að prósentutalan hækkaði allverulega, þannig að bændur nálguðust í tekjum viðmiðunarstéttirnar á þessum árum reglulega vel. Ég veit ekki hver þróunin hefur svo orðið núna. Það kann að vera að þar hafi aftur sigið á ógæfuhliðina, en þetta var sem sagt á nokkuð réttri leið. En það, sem er nú kannske aðalatriðið varðandi þetta, er þetta meðaltal sem verið er að setja varðandi vinnustundirnar og allt er nú byggt upp á.

Ég er ekki að rengja þessa búreikninga út af fyrir sig, þó að ég telji að þarna sé um að ræða vanmat þeirra sem gerðu þessa reikninga, — vanmat að ræða á starfi bóndakonunnar. En það, sem mér finnst eiginlega aðalatriðið í þessu, er þetta meðaltal sem þarna er verið að taka, 600 vinnustunda meðaltal hjá bóndakonunni, og svo skattfrádrátturinn miðaður við það. Hv. þm. Geir Gunnarsson benti mér á hvernig mundi fara ef væri tekið meðaltalið af öllum konum hér í Reykjavík og allri tekjuöflun þeirra úti í atvinnulífinu og síðan yrði skattfrádrátturinn miðaður við það meðaltal á eftir. Sem sagt, það er þetta sem náttúrlega er númer eitt. Þetta er auðvitað það sem er það ranga, að gera þetta þannig, og það er það sem við vildum gera svolitla tilraun til þess að leiðrétta með þessum hætti.

Ég lýsti því yfir áðan, að við værum reiðubúnir að fara hverja þá leið til leiðréttingar í þessum efnum sem okkur þætti í jafnréttisátt. Út af orðum hv. þm. Inga Tryggvasonar hér áðan, þá minntist hann á það hvaða viðmiðun gilti bæði í sambandi við launataxta bænda annars vegar og launataxtann hjá eiginkonum bænda hins vegar, og það kom auðvitað í ljós að í þessum verðlagsgrundvelli er kaup hjá eiginkonum bænda miðað við lægsta kaupið á vinnumarkaðinum, en kaup bændanna er miðað við miklu víðtækara svið og miklu hærri laun. Og ég segi það, af því að það lá nokkurn veginn í orðum hv. þm. og ég veit að það er töluvert til í því áreiðanlega: ég harma það ef fulltrúar launþega t. d. í þessari n. hafa átt sinn þátt í því í raun og veru að halda niðri kaupi bændakvenna í þessu efni. Ég hygg að það sé svolítið til í því, af því að þeir telja sig þar vera að verja sinn rétt aftur gagnvart almennu búvöruverði. Ég teldi mjög miður ef það væri rétt. Ég hef hér um vissan rökstuddan grun.

Það er alveg rétt, sem kom hér fram, að vinnumagnið hjá bændum almennt hefur minnkað. Þó eru nokkur atriði sem hafa staðið nokkurn veginn óbreytt, t. d. í umhirðu gripa. Ég tek t. d. sauðburðinn sem alveg sérstakt dæmi þar um og einmitt ýmis þau atriði sem eiginkona bóndans tekur hvað virkastan þátt í, þeir þættir hafa lítið breyst, minna breyst en ýmsir aðrir.

Ég endurtek svo aðeins það, að ég þakka þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Fyrir okkur er ekki aðalatriðið hvernig þetta verður framkvæmt, heldur aðeins að í sambandi við þær breyt., sem gerðar verða núna væntanlega á skattalögum og skattakerfinu í heild, þá verði bóndakonan sett við sama borð og aðrar útivinnandi konur. Það er okkar meginmarkmið með þessum frv.- flutningi.