17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4381 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

236. mál, skotvopn

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er aðeins til að staðfesta það, sem kom mjög greinilega fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að sumir í þessari d. hafa ekki hundsvit á skotvopnum og það er ákaflega varhugavert að samþykkja brtt. frá slíkum mönnum. Ég er honum alveg sammála. Hins vegar er lýsing hans á sjálfvirkum skotvopnum ákaflega vafasöm. E.t.v. mætti segja að haglabyssa með tveimur höglum í þar sem gikkurinn spennist upp sjálfkrafa við fyrra haglið fyrir síðara skotið væri sjálfvirkt skotvopn. Með svona algildri samþykkt að engin sjálfvirk skotvopn skuli leyfð, þá gæti það einnig átt þar við. Því er ég því meira fylgjandi að þetta sé gert með reglugerð, þar sem betur er að þessu hugað af mönnum sem hafa til þess þekkingu. Þegar ég benti á þetta við 2. umr. um málið, þá nefndi ég sérstaklega haglabyssur sem skjóta t.d. í runu fimm skotum. Það eru vopn sem eru ákaflega hættuleg í höndum viðvaninga og þeir eru margir.