17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4395 í B-deild Alþingistíðinda. (3762)

115. mál, íslensk stafsetning

Jón Helgason:

Herra forseti. Nú á síðustu dögum þessa þings kemur hér til okkar í Ed. frv. til l. um íslenska stafsetningu eftir að það hefur verið afgreitt frá Nd. eftir langar og strangar umr. þar fyrir nokkrum dögum. Ég ætla nú ekki að byrja hér á miklu málþófi um þetta mál, því að satt að segja finnst mér að virðing Alþ. hafi ekki vaxið af þessum umr., en það er þó ekki vegna þess að ég telji menningarmál vera lítils virði sem Alþ. eigi ekki að ræða. Þvert á móti tel ég þau og þá ekki síst varðveislu tungunnar eitt af okkar stærstu málum. Í þeim málum tel ég að þurfi að hafa fulla aðgát og er íhaldssamur á breytingar á því sviði. Ég var ekki samþykkur þeim breytingum sem gerðar voru á reglum um íslenska stafsetningu árin 1973 og 1974. Hins vegar er þar um gerðan hlut að ræða og því hlýtur að verða að skoða málið í ljósi þess.

Í þessu frv., sem hér er til umr., er lagt til að taka upp í lög ákvæði um það hvernig stafsetningu skuli háttað og að lögbjóða þá stafsetningu sem gilti hér fyrir árið 1973. Og það virðist vera ætlunin að við hér í Ed. tökum afstöðu til og afgreiðum þetta mál á einum eða tveimur dögum. En á þeim fáu dögum, sem liðnir eru síðan málið kom til 2. umr, í Nd., hafa borist ábendingar og umsagnir frá fjölmörgum aðilum, ekki síst frá þeim sem þekkingu og sérstakan áhuga hafa á íslenskri tungu, og þeir leggja áherslu á að það sé vafasamt að leggja út á þessa braut. Ég tel því nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þess, að athuga þetta mál nákvæmlega áður en farið er út í það að lögbjóða stafsetningu. Og til þess að leggja áherslu á það, að ég tel að það þurfi að skoða þetta mál vel, þá vil ég leyfa mér ásamt 6 öðrum alþm. að flytja skriflega brtt. við þetta frv. Þessar brtt. ganga í þá átt að fara þá leið sem hæstv. menntmrh. lagði til í frv. sem hann lagði fram í Nd. fyrr á þessu þingi á þskj. 406. Og hann hefur hér í ræðu nú gert grein fyrir því hvaða leið hann vill fara. Ég get með góðri samvisku lagt það til að farin verði sú leið að samþykkja þessar till. hans, ekki síst vegna þess að hann hefur mjög sömu skoðun á þessu og ég. Hann var andvígur þessum breytingum sem gerðar voru 1973 og 1974 og vill skoða einhverjar breytingar á því aftur, en hins vegar að það verði gert að vandlega athuguðu máli.

Ég vænti þess að hv. menntmn. vilji gefa sér tíma til að athuga þetta mál nákvæmlega og leita umsagnar um það, en verði sú ekki niðurstaðan, þá vænti ég þess að hv. n. telji sér fært að mæla með samþykkt þessara brtt.