17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4400 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur á áliti hv. fjh.- og viðskn„ þá tók ég ekki þátt í afgreiðslu máls þessa í n. Mér þykir þess vegna nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni, en ég ætla að gera það í mjög stuttu máli og vonandi þannig að ekki verði sérstakt tilefni til umr. hér í hv. deild.

Höfuðástæðurnar fyrir því, að ég vildi ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls, eru þær að mér finnst að æviráðning starfsmanna og verkfallsréttur geti ekki með nokkru móti farið saman. Í öðru lagi þykir mér í hæsta máta óeðlilegt að þeir aðilar, sem samkv. þessu frv. og öðrum, sem því fylgja, mega ekki fara í verkfall, þeir aðilar skuli hafa atkvæðisrétt meðal opinberra starfsmanna um það hvort farið skuli í verkfall. Þetta þykir mér fáránleg regla. Með þessu ákvæði og með hliðsjón af ákvæðum í frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna og frv. til l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem talið er upp hverjir ekki megi fara í verkfall, þá sýnist mér ljóst að þeim getur verið att út í verkfall með atbeina þessara aðila sem minnst mega sin, þ.e.a.s. þeim sem lægst hafa launin. Þessi eru atriðin sem ég legg áherslu á að móta afstöðu mína í þessu máli.

Ég vil einnig vekja athygli á viðhorfum sem komið hafa fram hjá Starfsmannafélagi stjórnarráðsins. Það félag hefur bent sérstaklega á að það telji eðlilegt, að allir starfsmenn stjórnarráðsins væru undanþegnir verkfallsrétti, og bendir á það sem rökstuðning að þar eru aðilar þriggja hagsmunahópa sem um er að ræða, þ.e.a.s. félagar í BSRB, félagar í BHM og þeir sem standa utan þessara félaga.

Ég vek líka athygli á þeim skoðanakönnunum sem farið hafa fram um þessi verkfallsréttarmál. Í fyrsta lagi efndi BSRB til fjölmargra funda á s.l. hausti, og mér skilst að um það bil 25% félagsmanna hafi þar lýst sig fylgjandi verkfallsrétti. Í skoðanakönnun, sem fram fór 23. apríl s.l. á vegum starfsmannafélags stjórnarráðsins, kemur hins vegar nokkuð annað upp á teningnum. Tóku þátt í henni liðlega 67% af félögum í BSRB og af þeim reyndust 62 fylgjandi almennum verkfallsrétti, en 70 andvígir. Fylgjandi verkfallsrétti til handa stjórnarráðsstarfsmönnum voru 47, en andvígir 89. Hjá félögum í BHM voru tölurnar þessar, að fylgjandi almennum verkfallsrétti voru 29, en andvígir 25. Og fylgjandi verkfallsrétti til handa stjórnarráðsstarfsmönnum voru 20, en andvígir 35. Þessar tölur tala sínu máli.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því sem varðar skipan kjaranefndar og er í 30. gr. frv. um kjarasamningana. Þar er annmarki svipaðs eðlis og verið hefur í lögum um samninga opinberra starfsmanna og Samband ísl. sveitarfélaga hefur margsinnis bent á, en þar er ekki gert ráð fyrir að aðilar kjaradeilu hjá sveitarfélagi geti skipað fulltrúa í kjaranefnd. Ég vitna hér til ákvæða Íaga um stéttarfélög og vinnudeilur varðandi skipan félagsdóms, en þar segir svo í 39. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki í Vinnuveitendafélagi Íslands skal dómari sá, sem tilnefndur er af því, víkja sæti, en í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu.“

Þarna hefði þurft að vera ákvæði, sem varðar starfsmenn sveitarfélaganna. Ég flyt hins vegar ekki brtt. um þetta atriði né önnur, vegna þess að mér er ljóst að ef farið verður að flytja brtt. við þessi frv., þá hljóta þær að stangast á við þá samningsgerð sem þegar hefur átt sér stað og mér er ljóst að slíkt er ekki heppilegt og í algerri andstöðu við aðila þessa samnings.

Ég vil taka það fram að ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að opinberir starfsmenn fái verkfallsrétt ef þeir endilega vilja fá hann. En það er hins vegar skilyrði af minni hálfu við fylgi slíkra till. að þeir njóti þá ekki sérstakra og óvenjulegra kjara umfram aðra hópa launþega í þjóðfélaginu. En það gera þeir vissulega í dag. Ég þarf ekki að nefna annað en verðtryggðan lífeyrissjóð og æviráðninguna, þótt hún nái ekki til allra opinberra starfsmanna.

En umfram allt, þá held ég að það séu ekki hagsmunir fyrir opinbera starfsmenn að krefjast verkfallsréttar vegna þess að verkfallsréttur opinberra starfsmanna verður alltaf að vera takmarkaður vegna eðlis hinna opinberu starfa. Verkfallsrétturinn takmarkast þá venjulega og óhjákvæmilega við þá sem lægst hafa launin og gegna kannske hinum minni háttar störfum, og þeim er þá beitt fyrir verkfallsvagninn.

Þrátt fyrir þessi viðhorf mín mun ég, eins og ég sagði áðan, ekki flytja brtt. við þessi frv. Ég mun heldur ekki greiða atkv. gegn þeim þar sem mér er ljóst að kjarasamningur hefur verið gerður milli BSRB og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og það eru ófyrirsjáanlegar afleiðingar þess ef Alþ. hafnar þessum samningum. En ég hlýt hins vegar vegna þessara skoðana, sem ég hef látið í ljós, að sitja hjá við atkvgr. um þessi frv.